Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. október 2010 Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytiðMRN FréttirHáskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytiðMRN Fréttir

Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur á rannsóknaþingi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands

Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag í Háskóla Íslands á fyrsta degi fyrsta rannsóknaþingsins sem Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands stendur fyrir.

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra á rannsóknarþingi Verkfræði- og nátttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.

Íslensk erfðagreining - Reykjavík 8. október 2010.

Ágæta samkoma

Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag í Háskóla Íslands á fyrsta degi fyrsta rannsóknaþingsins sem Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands stendur fyrir. Það að svið skólans skuli á þennan máta standa fyrir kynningu á rannsóknum fræðimanna, kennara og nemenda er lofsvert framtak og verðugt til eftirbreytni. Miðlun rannsóknaniðurstaðna á breiðari vettvangi uppfyllir þau skilyrði háskólasamfélagsins sem við oft viljum gleyma; að koma rannsóknarniðurstöðum í farveg sem leiðir til aukins upplýsingastreymis og hvetur til almennari þekkingaröflunar.

Ég vil minnast á tvo málaflokka sem standa mér nærri hjarta og eru í anda þessa rannsóknaþings. Hér á ég annars vegar við net opinberra háskóla, sem kynnt var til sögunnar nú í haust, og hins vegar stefnu Vísinda og tækniráðs fyrir árin 2010-2012 og hefur yfirskriftina Byggt á sterkum stoðum.

Eins og alþjóð veit þá höfum við Íslendingar ekki eins mikla peninga milli handanna í dag og undanfarin ár. Verulegur samdráttur í ríkisfjármálum er óhjákvæmilegur og hann mun snerta öll svið samfélagsins. Nú liggja fjárlög næsta árs fyrir alþingi. Ljóst er að  háskólarnir munu þurfa enn og aftur að draga saman starfsemi sína á næsta ári. Þetta verður þeim ekki auðvelt og ráðuneytið er í miklu samstarfi við háskólana um hvernig þeir geti á sem sársaukaminnstan hátt mætt þessum niðurskurði. Á sama tíma sækja sífellt fleiri um háskólanám. Verkefnið er mjög flókið því við viljum að sjálfsögðu veita sem flestum aðgang að háskólanámi.

Þeir sérfræðingar sem við höfum fengið til ráðgjafar gera tillögur að róttækum breytingum á háskólakerfinu og stuðningskerfi rannsókna og nýsköpunar. Flestir sem fjallað hafa um háskólastarf á Íslandi nýlega telja óskynsamlegt að reka 7 háskóla hjá svona fámennri þjóð. Þessar tillögur hafa skiljanlega fengið mikla athygli sem hefur dregið athyglina frá því sem skiptir meira máli. Í umfjöllun um háskólana og einföldun háskólakerfisins er megin áherslan á aukið samstarf milli þeirra en ekki á fjölda stofnana eða hvaða háskóla eigi að hafa á landinu. Samstarf milli háskólanna virðist takmarkað þó það sé vaxandi og í dag sjáum við aukinn vilja hjá þeim til samstarfs. Aukið samstarf getur leitt til hagræðingar en einnig til betra náms, til dæmis með því að veita nemendum aðgang að bestu kennurum og sérfræðingum sem völ er á hérlendis óháð því hvar þeir eru í námi.

Nýlega kynnti ég nýja stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum opinberra háskóla. Leiðarljós hennar eru helst að standa vörð um starfsemi opinberu háskólanna með því að stofna samstarfsnet þeirra með hugsanlega sameiningu í huga. Markmiðið er þríþætt: Í fyrsta lagi að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun til styrktar framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags. Í öðru lagi að hagræða í rekstri háskólanna þannig að fjármunir nýtist sem allra best. Í þriðja lagi að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar á landinu.

Ég sé fyrir mér að öflugt samstarfsnet opinberra háskóla verði starfandi á Íslandi árið 2012. Í þessu framtíðarskipulagi munu allir opinberir háskólar -  Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli - Háskólinn á Hólum leggjast á eitt sem virkir þátttakendur.  Rétt er þó að taka fram að hér er engum vísað á dyr - Miðað er við að aðrar háskóla- og rannsóknastofnanir geti tekið þátt í starfi netsins, óháð rekstrarformi. Háskóla Íslands er ætlað veigamikið hlutverk í hinu nýja háskólaneti enda  er hann langstærsti og öflugasti háskólinn á Íslandi.

Með hliðsjón af því hvernig samstarf háskóla er háttað víða erlendis, svo sem í Skotlandi, á Nýfundnalandi og í Alaska er ætlunin að boðið verði upp á fjölbreytt háskólanám á öllum helstu fræðasviðum innan háskólanetsins. Skipulag náms og rannsókna miðast við að háskólarnir vinni náið saman og njóti krafta allra núverandi skóla sem starfi áfram undir eigin nafni.
Gert er ráð fyrir að nemendur hafi aukin tækifæri til samsetningar náms með því að sækja námskeið í fleiri en einum skóla og að með hjálp fjarkennslu megi bjóða upp á fjölbreyttara nám víða um landið.

Verkefnastjórn hefur nú verið skipuð og mun hún í nánu samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið vinna að því að endurskipuleggja rekstrarþætti háskólanna og sameina þá eftir föngum. Þetta er vandasamt verk ef vel á að fara enda um marga verkþætti að ræða. Ég vil sérstaklega nefna hér í dag markmið okkar um að koma á fót sérstakri miðstöð doktorsnáms enda munu margir þeir sem hér eru saman komnir í dag tengjast þeirri stofnun traustum böndum í komandi framtíð.

Háskólanetið sem hér er lýst, er í anda þeirrar stefnu vísinda og tækniráðs: Byggt á styrkum stoðum, sem var kynnt fyrir tæpu ári síðan. Í henni  er sérstaklega fjallað um hvernig hrun fjármálakerfisins og endurmat á ýmsum þáttum samfélagsins krefjist þess að litið sé með ferskum hætti á raunhæf tækifæri til uppbyggingar íslensks samfélags.

Í stefnunni eru þrjú leiðarljós sem eru gegnumgangandi. Fyrsta leiðarljósið er Samvinna og samnýting, þar sem bent er á að við núverandi aðstæður þurfi að nýta sem best þá krafta sem fyrir eru og þá aðstöðu sem byggð hefur verið upp víðsvegar um landið.  Tilkoma háksólanetsins, sem ég nefndi hér áðan er að mínu mati þetta fyrsta leiðarljós í verki.

Annað leiðarljósið er Gæði og ávinningur, þar sem minnt er á mikilvægi þess að vísinda- og nýsköpunarstarf á Íslandi verði að standast alþjóðlegar gæðakröfur svo árangur náist og raunveruleg og viðvarandi verðmæti skapist. 

Fyrir mánuði síðan var hleypt af stokkunum endurskipulagningu á gæðaeftirliti með kennslu og rannsóknum.  Þá tók til starfa gæðaráð sem er ætlað að hafa umsjón með gæðaeftirliti er varðar kennslu og rannsóknir við íslenska háskóla. Til að tryggja hlutlægni er gæðaráðið eingöngu skipað erlendum sérfræðingum sem allir búa yfir víðtækri þekkingu og reynslu á þessu sviði. Sér til aðstoðar mun gæðaráðið hafa ráðgjafanefnd sem skipuð verður fulltrúum háskólanna, nemenda og vísindasamfélagsins.

Í þriðja leiðarljósinu Alþjóðleg vísindi og nýsköpun er fjallað um tækifæri sem felast í samstarfi við aðrar þjóðir og sókn í erlenda sjóði og áætlanir, og hvernig gera megi alþjóðasamstarf og sókn í alþjóðlegar áætlanir markvissari og líklegri til ávinnings.

Vísindastarf hér á landi hefur að mörgu leyti verið mjög öflugt og mikilvægt að gleyma ekki því sem vel er gert. Árangur íslenskra vísindamanna sést t.d. á tölum um fjölda birtinga í ritrýndum tímaritum og tilvitnunum í þær, sem hefur fjölgað mikið síðasta áratug eða svo.  Við erum einnig ofarlega á lista yfir OECD þjóðir yfir hversu háu hlutfalli af vergri landsframleiðslu er varið til rannsókna og þróunar. Hér er um að ræða afar háar upphæðir, og við, þjóðin, verðum að gera kröfur um að þeim fjármunum sé varið sem best. Það er tímabært að fá kerfið á Íslandi til að virka sem eina heild, og gera enn betur.

Í maí síðastliðnum hófst vinna samnorræns sérfræðihóps á vegum NORIA við að flokka niður og greina birtingar og vísanir í ritrýndar fræðigreinar vísindamanna við háskólastofnanir á Norðurlöndum.  Stefnt er að því að birta niðurstöður sérfræðingahópsins á næsta ári. Þá munum við í fyrsta sinn geta fræðst um og borið saman árangur hverrar stofnunar innan Norðurlandanna. Ég er þess fullviss að Háskóli Íslands mun koma vel út úr þessari könnun. Ég er ekki síður fullviss um að þeir sem hér eru staddir í dag munu hafa lagt sitt af mörkum í þeim efnum.

Góðar stundir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta