Opnun nýs húsnæðis Rafiðnaðarskólans
Með námsframboði á sviði rafiðna veitir Rafiðnaðarskólinn mikilvæga viðbót við menntun í rafiðngreinum til sveinsréttinda.
Ávarp mennnta- og menningarmálaráðherra Katrínar Jakobsdóttur við opnun nýs húsnæðis Rafiðnaðarskólans
20. október 2010, Rafiðnaðarskólinn
Ágætu tilheyrendur!
Um leið og ég óska rafiðnaðarmönnum til hamingju með þetta nýja og glæsilega húsnæði vil ég færa ykkur þakkir fyrir gott samstarf við yfirvöld menntamála í gegnum árin.
Með námsframboði á sviði rafiðna veitir Rafiðnaðarskólinn mikilvæga viðbót við menntun í rafiðngreinum til sveinsréttinda. Hér vísa ég til fagnáms fyrir iðnsveina til iðnmeistaraprófs, en jafnframt hvers kyns endurmenntunar, sem er svo nauðsynleg þeim sem vilja fylgjast með tækninni og læra nýja hluti eða jafnvel verða betri fagmenn á tilteknum sviðum.
Endurmenntunarstarf rafiðnaðarmanna hefur verið með miklum ágætum í gegnum tíðina. Ég trúi því að þar hafi þeir verið ákveðin fyrirmynd annarra iðnaðarmanna, því að þetta starf var hafið þegar snemma á áttunda áratug seinustu aldar. Þó að lagasetning og fjármögnun iðnmenntunar sé á könnu stjórnvalda, dugi það ekki eitt og sér til þess að halda úti öflugri menntun í iðngreinum. Þar verður að koma til metnaður og frumkvæði þeirra sem störfin stunda. Án aðhalds og stuðnings rafiðnaðarmanna væri menntun til rafiðnaðarstarfa ekki það sem hún er nú. Stjórnvöld reiða sig á ráðgjöf og leiðbeiningar iðnaðarins þegar verið er að skipuleggja nám til sveinsréttinda, en einnig þegar kemur til þess að leggja mat á árangurinn, í sveinsprófunum. Þetta ferli þarf að mynda sem samfelldasta heild og jafnframt endurspegla þær kröfur sem atvinnulífið gerir um menntun og færni starfsmanna í fyrirtækjunum.
Ég vil nota tækifærið og lýsa yfir mikilli ánægju með samstarfið við fulltrúa rafiðnaðarmanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins – og við Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins. Fræðsluskrifstofan hefur umsýslu með námssamningum og sveinsprófum í rafiðnum og sér auk þess um raunfærnimat í rafiðnum. Þið hafið komið með öflugum hætti inn í starfsmenntakerfið á Íslandi og eruð að mörgu leyti hryggjarstykkið í iðnmenntuninni. Iðnmenntakerfið byggist á samstarfi ráðuneytis, skóla og atvinnulífs. Þessir þrír aðilar verða að stilla saman strengi sína ef kerfið á að vinna vel og skila árangri. Ég er ánægð með þátt atvinnulífsins í þessu þríeyki, ekki einasta eigið þið uppbyggilegt framlag til grunnmenntunar, heldur annist þið leitirnar fyrir okkur, leitið uppi vannýtt tækifæri og kortleggið þarfir sem nauðsynlegt er að sinna. Eruð jafnframt vakandi yfir „hjörðinni“ ykkar, sinnið bæði endurmenntun eða viðbótarmenntun og leitið uppi þá sem ekki áttu þess kost að ljúka iðnmenntun sinni, greiðið þeim leið til námsloka á framhaldsskólastigi.
Enn og aftur, innilega til hamingju með nýtt húsnæði. Ykkur fylgja góðar óskir um blómlegt og árangursríkt menntastarf í framtíðinni.