Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. nóvember 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra, Katrín Jakobsdóttir við opnun Safnahelgi á Suðurlandi

 

4. nóvember 2010, Listasafn Árnesinga í Hveragerði

 Opnun Safnahelgi

Það er mér ánægjuefni að vera hér með ykkur við upphaf Safnahelgi á Suðurlandi – matur og menning úr héraði sem nú er haldin í þriðja sinn. Sé litið til þeirrar dagskrár sem lögð hefur verið fram til kynningar er ljóst að helgin verður enn á ný afar fjölbreytt og virðist sniðin að öllum skilningarvitum, ef svo má segja:

  • Áhugafólk um mat ætti að finna sitthvað við sitt hæfi en framboð á því sviði er allt frá villibráð á Klaustri og fýlaveislu í Vík til hverabrauðs og grænmetisrétta hér í Hveragerði; á leiðinni þar á milli er m.a. er hægt að sækja bændamarkað og sultukeppni í Reykholti eða njóta fagurra fiskrétta í Vestmannaeyjum, svo eitthvað sé nefnt.
  • Unnendur tónlistar geta einnig verið alsælir; boðið er upp á kórtónleika víða um héraðið, guttavísur verða kveðnar uppi í sveitum, kvöldvísur í Húsinu á Eyrarbakka, þjóðlög ýmissa landa kynnt á Gónhóli og Eyjalög að sjálfsögðu flutt þar úti, svo eitthvað sé nefnt.

Þannig mætti halda áfram um öll listasviðin og nefna dagskráratriði meðal annars á sviði leiklistar, myndlistar, ljósmyndunar, bókmennta og sögulegs fróðleiks af ýmsu tagi en það yrði væntanlega nokkuð þreytandi fyrir viðstadda að hlusta lengi á slíka upptalningu frá mér. Í dagskránni má hins vegar sjá upplýsingar um allt það fjölskrúðuga framboð menningarefnis sem verður á boðstólum í söfnum og öðrum menningarstofnunum um allt Suðurland næstu daga – vandamálið verður aðeins að velja hvar maður vill bera niður og láta heillast af þeirri auðlegð sem býr í menningarlífinu á Suðurlandi.

Sé litið til þess mikla fjölda safna, setra, sýninga, gestastofa og garða sem hafa tekið saman höndum í Samtökum safna á Suðurlandi er ljóst að þrátt fyrir erfiða tíma mun menningararfurinn halda áfram að vera í öndvegi á þessu landssvæði sem lifandi afl í samfélaginu sem við höfum tækifæri til að byggja á til framtíðar. Hátíð sem þessi er kjörið tækifæri til að vekja athygli bæði heimamanna og annarra landsmanna á þeim mikla auði sem felst í menningarlífinu á Suðurlandi, og þá er matarmenningin ekki undanskilin, eins og sést á þeirri ríkulegu dagskrá sem nú er framundan.

Ég vil óska Menningarráði Suðurlands, Samtökum safna á Suðurlandi, Matarkistu Suðurlands, Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands og öllum sem komið hafa að hinum fjölbreyttu verkefnum helgarinnar til hamingju með glæsilega dagskrá og vona að þessi þriðja Safnahelgi á Suðurlandi færi öllum sem njóta hennar gleði jafnt sem andlega og líkamlega næringu og að sem flestir taki þátt í þessari glæsilegu uppskeruhátíð Sunnlendinga á þessu hausti.

Ég segi Safnahelgi á Suðurlandi – matur og menning úr héraði árið 2010 formlega opna.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta