Öflugt íþróttastarf ungmenna
Á dögunum var haldin alþjóðleg ráðstefna í Reykjavík undir yfirskriftinni Æskan - Rödd framtíðar. Meginefni hennar var kynning á rannsókn á öllum Norðurlöndunum, þ.m.t. sjálfstjórnarlöndunum þremur, á meðal 16-19 ára ungmenna. Þar eru m.a. könnuð viðhorf ungmenna til samfélagsins, netnotkun ungmenna, viðhorf til kynjajafnréttis, menntakerfis og svo mætti lengi telja. Ennfremur er spurst fyrir um líðan og svo daglega hegðun. Margt í þessari könnun hefur vakið verðskuldaða athygli en mig langar hér að nefna sérstaklega eitt atriði.
Ef bornar eru saman niðurstöður frá öllum löndunum kemur fram að íslensk ungmenni taka mestan þátt í íþróttastarfi utan skóla. Þetta á bæði við um hreyfingu utan skipulagðra íþróttafélaga og þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi á vegum íþróttafélaganna. Þetta sýnir glöggt hversu víðtæk þátttaka í íþróttastarfi er hér á landi og hversu miklu skiptir að halda vel utan um íþróttaiðkun ungmenna.
Eftir að kreppan skall á haustið 2008 hafa íþróttamál ekki farið varhluta af þeim mikla niðurskurði sem orðið hefur á öllum sviðum opinbers rekstrar. Í fjárlögum í fyrra var niðurskurður í þessum geira í kringum 10% og gerist það á sama tíma og sveitarfélög skera niður, fyrirtæki halda að sér höndum við styrkveitingar og líklega hefur aldrei verið erfiðara fyrir fjölskyldurnar í landinu að greiða félagsgjöld. Íþróttahreyfingin hefur reitt sig á öflugt net sjálfboðaliða sem hafa haldið uppi starfinu í mörgum félögum og sérsamböndum en stundum gleymist þeirra þáttur þegar rætt er um rekstur íþróttahreyfingarinnar.
Í ljósi þess að það þrengir mjög að hjá íþróttahreyfingunni var ákveðið að leggja til í fjárlögum ársins 2011 að niðurskurður verði um 5% á næsta ári. Ætlunin með því er meðal annars að hlífa öðrum fremur þeirri starfsemi sem snýr að börnum og unglingum og reyna að taka höndum saman með íþróttahreyfingunni um að verja þann góða árangur sem hefur náðst í þátttöku íslenskra ungmenna í íþróttastarfi. Af honum getum við Íslendingar verið stolt.