Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. nóvember 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Undirritun nýs þjónustusamnings og ný húsakynni Fjölmenntar skoðuð

 

12. nóvember 2010, Fjölmennt

Undirritun nýs þjónustusamnings og ný húsakynni Fjölmenntar skoðuð

Ágætu gestir

Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag. Ég vil óska Fjölmennt hjartanlega til hamingju með þetta glæsilega húsnæði á Vínlandsleið og einnig með nýjan þjónustusamning sem undirritaður var hér áðan.

Nýtt húsnæði og þjónustusamningur við ráðuneytið marka tímamót í starfsemi Fjölmenntar og í þjónustu við fatlaða. Með þessu tvennu er fest í sessi ákveðin framtíðarsýn og áherslur í þjónustu við fólk með fötlun sem sækir sér menntun að loknu formlegu námi í skólakerfinu.

Ný lög um framhaldsfræðslu sem tóku gildi 1. október sl. fela í sér aukna möguleika fyrir þann markhóp sem Fjölmennt sinnir til að sækja sér menntun. Nýr þjónustusamningur gefur góð fyrirheit um að þjónusta Fjölmenntar muni skila fötluðum einstaklingum enn faglegri og markvissari þjónustu. Breyttar áherslur í starfseminni gefa Fjölmennt tækifæri til að miðla þeirri miklu fagþekkingu sem starfsfólk hér býr yfir. Á það bæði við um ráðgjöf fyrir þjónustuþega og einnig þær símenntunar- og fræðslustofnanir sem stefnt er að samstarfi við. Krafan um samskipan og blöndun sem orðin er sjálfsögð í dag fyrir þjónustuþega Fjölmenntar er greinilegt leiðarljós í markmiðum samningsins og ber vitni um framsýni.

Nær allir fatlaðir nemendur í grunnskólum hefja nám í framhaldsskólum, flestir á svokölluðum starfsbrautum. Talsvert skortir á menntunarúrræði fyrir þennan hóp nemenda þegar framhaldsskólanum sleppir. Fjölmennt gegnir því afar mikilvægu hlutverki við að bjóða þessum hópi menntun og fræðslu. Ákvæði í hinum nýja samningi um samstarf við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er mikið framfararskref og gefur færi á nýjum tækifærum í menntun fatlaðra og ráðgjöf við alla þá sem koma að menntun þeirra. Menntun fatlaðra kallar oftar en ekki á mikinn sveigjanleika bæði í tímasetningum námskeiða og aðferðafræði í kennslu. Hið aukna samstarf sem Fjölmennt hyggur á við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og aðra aðila mun án efa auka færni og víðsýni þeirra sem að því koma og stuðla að þeirri samskipan og blöndun sem er markmið samningsins.

Þau sértæku námskeið sem Fjölmennt hefur boðið upp á og mun halda áfram að bjóða eru einnig afar mikilvægur og nauðsynlegur þáttur í að auka lífsgæði fatlaðs fólks. Þetta nýja húsnæði er mikilvæg forsenda þess að hægt verði að sinna því hlutverki áfram og auka fjölbreytni í námskeiðaframboði. Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni og óska ég Fjölmennt alls velfarnaðar í framtíðinni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta