Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur á degi íslenskrar tungu 16. nóvermber 2010
16. nóvember 2010, Landnámssetur Borgarnesi
Dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember 2010
Góðir hátíðargestir
Degi íslenskrar tungu er fagnað í fimmtánda sinn í dag. Íslendingar tóku upp sérstakan hátíðisdag íslenskrar tungu árið 1996 og fyrir valinu varð fæðingardagur þjóðskáldsins og náttúrufræðingsins Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember.
Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess fyrir hvern og einn að eiga sér traustan grunn í móðurmáli sínu. Íslendingar dagsins í dag eiga meira en hundrað mismunandi móðurmál. Á degi íslenskrar tungu er okkur hollt að hugsa til þess að þótt íslenska sé mál fámennrar þjóðar innan um margfalt fjölmennari nágrannaþjóðir, þá er hún stórt mál hér á landi. Íslenska er meirihlutamálið á Íslandi og eina opinbera málið í landinu. Þeir sem eiga önnur móðurmál hér á landi eru mismargir um hvert mál, líklega býr hér einhver sem er eini fulltrúinn frá sínu málsvæði en fáein málanna eiga hér þúsundir málnotenda. Staða þeirra allra er minnihlutastaða. Það er sú staða sem Íslendingar þekkja vel í samfélagi þjóðanna, að tala mál sem fáir aðrir skilja og þurfa þess í stað að reiða sig á tungumálanám. Það hefur gert Íslendingum gott í gegnum tíðina að hafa orðið að læra erlend tungumál vegna samskipta við aðrar og stærri þjóðir, þannig hafa okkur opnast nýir heimar. Tungumálanám er frábær leið til að víkka sjóndeildarhringinn. Þeir sem eiga ekki íslensku að móðurmáli hér á landi standa frammi fyrir því að læra íslensku sem annað eða erlent mál. Með öðru móti geta þeir illa notið sín til fulls í þeirri menningu og samfélagi sem hér er og byggt er á aldagamalli hefð. Íslendingar verða að styðja við íslenskunám þeirra eins og mögulegt er, bæði beint og með því að taka því sem eðlilegum hlut að heyra íslensku með hreim.
Meðal annarra mála en íslensku hér á landi hefur íslenskt táknmál algera sérstöðu. Það er móðurmál um 300 Íslendinga en vill stundum gleymast í umræðunni um móðurmál eða fyrstu mál Íslendinga.
Enda þótt íslensk tunga sé ekki móðurmál eða fyrsta mál allra þeirra sem búa núna á Íslandi er íslenska eigi að síður það tungumál sem er í senn notað við flestar aðstæður á Íslandi og það mál sem flestir Íslendingar kunna einna mest í.
Hvort sem fólk á íslensku að móðurmáli eða eitthvert annað tungumál eiga allir Íslendingar að geta fagnað þessum hátíðisdegi íslenskrar tungu. Dagurinn í dag er helgaður móðurmáli langflestra Íslendinga og jafnframt því máli sem á einhvern hátt tengir saman alla íbúa landsins. Dagur íslenskrar tungu er okkur árvisst tilefni til að hugleiða gildi íslenskunnar á öllum sviðum samfélagsins hvort sem það er í vísindum, listum eða öðru, og hvort heldur um er að ræða gildi íslenskunnar í samtíma okkar eða í sögu og þróun íslenskrar menningar. Fyrir tíu dögum var haldinn þjóðfundur eins og okkur er í fersku minni. Í fréttum af niðurstöðum þjóðfundarins kom fram að íslensk tunga hefði verið tilgreind sem eitt af því sem fremst ætti að standa í nýrri stjórnarskrá Íslands.
Í mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur síðustu ár verið unnið að þeim markmiðum sem koma fram í þingsályktun um íslenska málstefnu sem Alþingi samþykkti 12. mars 2009. Eitt af því sem lögð er rík áhersla á í málstefnunni er að tryggja lagalega stöðu íslenskrar tungu. Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á drög að frumvarpi til laga um íslenska tungu en með frumvarpinu er lagt til að stefnt verði að því að setja almenn rammalög um íslenska tungu og er tilgangurinn að festa í lög stöðu íslenskrar tungu, mæla fyrir um varðveislu hennar, þróun, nothæfni og aðgengi manna. Jafnframt eru reglur um notkun íslenskrar tungu innan stjórnkerfis ríkisins, Alþingis, dómstóla og stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Einnig hafa lögin að geyma ákvæði um táknmál.
Hér í Landnámssetri Íslands erum við rækilega minnt á hve miklu skáldin skipta okkur Íslendinga og hve mjög við leggjum áherslu á tungu okkar og bókmenntaarf þegar við skilgreinum stöðu þjóðarinnar. Það er sannarlega vel við hæfi að fagna degi íslenskrar tungu hér í Landnámssetrinu sem hlaut einmitt sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu árið 2008, enda er hér unnið metnaðarfullt starf þar sem efniviðurinn er bókmenntir, saga, arfur og umfram allt íslensk tunga og menning.
Auk þess að vera heiðursdagur Jónasar Hallgrímssonar er dagur íslenskrar tungu enn fremur heiðursdagur einstaklings sem vegna framlags í þágu íslenskrar tungu hlýtur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. En verðlaunin sem byggjast á tillögu ráðgjafarnefndar ber að veita einstaklingum sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu og riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar – innan skamms verður upplýst hver hlýtur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í ár en fyrst verða veittar tvær viðurkenningar og að tillögu ráðgjafarnefndar dags íslenskrar tungu, en í henni sitja Kristín Helga Gunnarsdóttir, Þórarinn Eldjárn og Kristján Árnason, hef ég ákveðið að veita Möguleikhúsinu og hljómsveitinni Hjálmum sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu.
- Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir um Möguleikhúsið og Hjálma:
„Í tuttugu ár, eða frá 1990, hefur Möguleikhúsið starfað sem atvinnuleikhús með megináherslu á leiksýningar fyrir börn og unglinga. Lengst af hafði leikhúsið fast aðsetur fyrir sýningar sínar en hefur þó jafnframt frá upphafi lagt áherslu á að þær væru þannig úr garði gerðar að auðvelt væri að skjótast með þær hvert á land sem er – og iðulega út fyrir landsteinana. Undanfarin misseri, eftir að opinber stuðningur við leikhúsið féll niður, hefur það alfarið snúið sér að farandsýningum og tekist að halda þeim gangandi með þrautseigju og útsjónarsemi. Á þessum tuttugu árum hefur Möguleikhúsið sýnt á fjórða tug frumsaminna leikverka sem langflest byggja á efni úr íslenskum bókmenntum, þjóðsögum og þjóðtrú. Leikhúsið hefur því átt drjúgan þátt í að kynna menningararfinn á frjóan og skemmtilegan hátt fyrir yngstu kynslóð leikhúsgesta og stuðlað þannig að verndun og varðveislu íslenskrar tungu og skapað henni sóknarfæri. Það er mat ráðgjafarnefndarinnar að Möguleikhúsið sé afar vel að því komið að hljóta sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu“.
Ég vil biðja Pétur Eggerz og Öldu Arnardóttur að koma til mín og taka á móti listaverki eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur í viðurkenningarskyni. Til hamingju.
Sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu hlýtur einnig Hljómsveitin Hjálmar. „Hljómsveitin Hjálmar var stofnuð í Keflavík 2004 og lagði frá upphafi áherslu á íslenskt afbrigði af reggí-tónlist, svokallað lopapeysu-reggí. Hljómsveitin hefur starfað síðan, með nokkrum hléum og ýmsum mannabreytingum, en ávallt við miklar vinsældir meðal ungra sem aldinna sem þyrpst hafa á ótal hljómleika Hjálmanna eða sótt í hljómdiska þeirra sem orðnir eru sex talsins. Frá upphafi hefur það verið eins og sjálfsagt mál að allir söngtextar sem frá Hjálmum koma séu á íslensku. Þannig hafa þeir lagt fram drjúgan skerf til að byggja upp þá ímynd að meðal framsækinna íslenskra rokk- og dægurtónlistarmanna sé íslenska sjálfsagt mál, eða ætti að vera það, þó alltof margir aðrir virðist af einhverjum ástæðum þeirrar skoðunar að enskan ein hæfi slíkri tónlist“.
Af þessum sökum er það mat ráðgjafanefndarinnar að hljómsveitin Hjálmar verðskuldi það eindregið að hljóta viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu.
Ég vil biðja þá Guðmund Kristinn Jónsson, Sigurð Guðmundsson, Þorstein Einarsson, Helga Svavar Helgason og Valdimar Kolbein Sigurjónsson að koma til mín og taka á móti listaverki eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur í viðurkenningarskyni. Til hamingju.
-
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
,,Vér íslendíngar höfum nú einusinni hlotið þessa hermdargjöf, hið íslenska mál, og það er dýrlegasta menníngarverðmætið sem vér eigum, og ef vér viljum ekki gera eitthvað fyrir snillínga þess, þá eigum vér að flytja héðan burt – alt kraðakið einsog það leggur sig – og það strax á morgun. Vér eigum að fara til Mexíkó og fara að tala spænsku.” Halldór Laxness mælir svo í erindi um menningarmál árið 1926.
Frá því að þessi orð féllu hafa fjölmargir lagt lóð á vogarskálar svo efla megi málvitund þjóðar og styrkja stoðir íslenskrar tungu. Meðvituð umræða um tungumálið og gildi þess nærir og bætir skilyrði fyrir vöxt og framgang málsins.
Ráðgjafarnefndin mælir að þessu sinni með því að Vigdís Finnbogadóttir, velgjörðarsendiherra Sameinuðu þjóðanna í tungumálum, fyrrverandi forseti Íslands og leikhússtjóri, fái verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu.
Í reglum mennta- og menningarmálaráðuneytis um verðlaun Jónasar Hallgrímssonar segir að þau beri að veita einstaklingum er hafa unnið íslenskri tungu gagn „með sérstökum hætti.” Þetta á sannarlega við um Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi kennara, leikhúsmann og forseta Íslands. Leikhús, þar sem íslenskt mál er flutt með öllum þess blæbrigðum, eru musteri tungunnar; kennsla í erlendum tungumálum víkkar sýn á form og líf íslensks máls og embætti forseta Íslands er æðsta trúnaðarstarf sem þjóðin felur einum manni. Vigdís var í starfi sínu sem forseti óþreytandi að benda á gildi íslenskrar tungu fyrir mannlífið í þessu landi. Í fyrstu opinberri ræðu sinni eftir að hún var kjörin lagði hún áherslu á þá auðlegð sem Íslendingar eiga í menningararfi sínum en sýndi um leið með tilvitnun í þýðingu Helga Hálfdanarsonar á texta Shakespeares, að allur heimurinn rúmast innan þessara vébanda. Í forsetatíð sinni flutti Vigdís þennan boðskap um gildi íslenskrar menningar fyrir Íslendinga, og sem fyrsta konan, er var með lýðræðislegum hætti valin þjóðhöfðingi, beindust að henni augu alls heimsins. Vigdís hélt því fram réttilega að ríkidæmi heimsmenningarinnar byggist á margbreytileika þeirra tungumála sem mannkynið hefur skapað. Eftir að hún lét af embætti forseta Ísland hefur hún haldið áfram að boða þennan sannleik og fengið góðan hljómgrunn, enda er hún á vegum Sameinuðu þjóðanna sérstakur verndari þjóðtungna sem eiga í vök að verjast.
Að mati ráðgjafarnefndar er Vigdís Finnbogadóttir verðugur handhafi verðlauna Jónasar Hallgrímssonar.
Vil ég biðja Vigdísi Finnbogadóttur að koma hingað upp og taka við verðlaununum, ritinu Íslenskri tungu sem er í þremur bindum og 700 þús. kr. sem veitt eru af Íslandsbanka og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Til hamingju.