Formleg opnun Nýsköpunarmessu Háskóla Íslands
19 . nóvember 2010, Háskólatorg
Formleg opnun Nýsköpunarmessu Háskóla Íslands
Ágætu gestir
Sem talsmaður Athafnavikunnar er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til að ávarpa og opna formlega Nýsköpunarmessu Háskóla Íslands í tengslum við Alþjóðlega athafnaviku sem er stærsta hvatningarátak til nýsköpunar sem farið hefur fram á heimsvísu hingað til. Það er mikill kraftur í þátttöku okkar hér á Íslandi og er Nýsköpunarmessa Háskóla Íslands svo sannarlega hluti af því.
Markmiðið með Nýsköpunarmessu og atburðum henni tengdri er að kynna sprotafyrirtæki sem sprottið hafa úr jarðvegi Háskóla Íslands. Þannig er verið að kynna mikilvægi hagnýtingar rannsókna- og vísindastarfs til að hvetja ungt fólk til athafna á þeim sviðum.
Það er einlæg trú mín að verkefni Háskóla Íslands sem kynnt eru hér muni örva ungt fólk til athafna samfélaginu til góðs. Í þessu samhengi langar mig að minnast á að samkeppnissjóðir gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu við að örva og ýta undir rannsóknir í landinu.
Fyrst ber að nefna Rannsóknasjóð, sem styrkir grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir í háskólum, stofnunum og fyrirtækjum, þá Rannsóknarnámssjóð, sem veitir styrki til rannsóknartengds framhaldsnáms nemenda við háskóla, og loks Nýsköpunarsjóð en honum er ætlað að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í háskólum til sumarvinnu við krefjandi rannsóknarverkefni.
Síðastliðið sumar fimmfaldaðist framlag mennta- og menningarmálaráðuneytis til Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Þegar upp var staðið hafði sjóðurinn um 120 milljónir króna til ráðstöfunar til að styrkja nemendur í ólíkum nýsköpunarverkefnum. Ætla má að Nýsköpunarsjóður námsmanna hafi tryggt yfir 400 námsmönnum sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarstörf á árinu 2010. Verkefni sem námsmenn vinna með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna eru jafnan unnin í samstarfi við þriðja aðila, þ.e. stofnanir, sveitarfélög eða fyrirtæki sem leggja þá til mótframlag. Því er um að ræða ákaflega hagstætt samstarf á milli allra aðila og mikilvæga tengingu á milli náms og atvinnulífs.
Að mínu mati er afar æskilegt að Nýsköpunarsjóður námsmanna verði efldur til langs tíma litið og heppilegt að fyrsta skrefið í þá átt verði stigið þegar á næsta ári. Fjölmörg verkefni sem unnin hafa verið með styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna hafa verið fyrsta skrefið í stórum nýsköpunarverkefnum og hafa því á endanum gefið meira af sér til samfélagsins en lagt var í þau.
Ágætu athafnamenn,
Hér með er Nýsköpunarmessa Háskóla Íslands formleg opnuð.