Ráðherra flytur ávarp og afhendir styrki úr Menningar- og viðurkenningasjóði KEA, 23. nóvember í Ketilshúsi á Akureyri
Ég vil óska öllum viðstöddum til hamingju með daginn. Það er alltaf hátíð í bæ þegar menn koma saman til að láta gott af sér leiða með einum eða öðrum hætti, og í dag er því full ástæða til að fagna tilefninu, sem er úthlutun úr menningar- og viðurkenningarsjóði KEA til fjölmargra verðugra einstaklinga og félaga. Hér er bæði um að ræða viðurkenningar til ungs afreksfólks fyrir góðan árangur og hvatningu til þeirra um að stefna enn hærra í framtíðinni, en einnig stuðning við fjölmörg verðug verkefni á fjölbreyttum sviðum menningar og íþrótta, verkefni sem ekki er víst að tækist að framkvæma með sama dugnaði ef ekki nyti við þeirra styrkja, sem afhentir verða hér í dag.
Það væri nokkur djörfung fólgin í því að ég, næstum unglingur sjálf, færi að segja eitthvað á þessum stað um KEA, þegar hér er staddir fjöldi góðra manna og kvenna sem þekkja sögu þessa ágæta félags í þaula. Allir vita að sá samtakamáttur sem lýsti sér í öflugri starfsemi KEA um margra áratuga skeið var undirstaða þeirrar uppbyggingar atvinnu og byggðar, sem við sjáum allt í kringum okkur, hvort sem við lítum eingöngu til Akureyrar eða til Eyjafjarðarsvæðisins í heild. Hinu hættir mörgum til að gleyma og hefur ef til vill legið í láginni, að á sama tíma var fyrirtækið öflugur bakhjarl þess menningarlífs sem hér dafnaði, það hefur stutt dyggilega við eflingu íþróttalífs fyrir ungt fólk á öllu starfssvæði sínu, og öll líknarstarfsemi og uppbygging í málefnum þeirra sem eiga undir högg að sækja hefur átt vísan stuðning úr hendi félagsins.
Í dag er verið að veita viðurkenningar og styrkir úr Menningar- og viðurkenningarsjóði KEA í 77. skipti; það þýðir að fyrst var veitt úr þessum ágæta sjóði á öndverðum 4. áratugnum, þegar landsmenn horfuðst í augu við erfiðleika, sem við getum aðeins ímyndað okkur.
Vægi menningarinnar í þjóðlífinu verður seint ofmetið. Af daglegum fréttum mætti ætla, að það sé stærð, efnahagslegur styrkur eða hernaðarlegur máttur sem ræður stöðu einstakra ríkja í samfélagi þjóðanna. Ég vil halda því fram að svo sé ekki: á endanum eru þjóðir metnir í sögulegu tilliti á grundvelli þeirrar menningar sem þær fóstra, og þeirra menningarverðmæta, sem kynslóðirnar skilja eftir sig.
Á þessum grunni er gott til þess að vita að fyrirtæki eins og KEA setja menningu og íþróttir meðal annars í forgang í stuðningi sínum við samfélagið, og væri vonandi að svo væri um fleiri.
Ég vil enn á ný óska öllum viðstöddum til hamingju með daginn, þakka Menningar- og viðurkenningasjóði KEA fyrir öflugt starf og vona að þeir styrkir sem hér verða afhentir í dag verði til þess að efla alla þá fjölmörgu sem þeirra njóta til frekari dáða í framtíðinni.
Takk fyrir.