Mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir á ráðstefnu um stafrænt frelsi 2010
Kæru gestir
Það er mér mikil ánægja að vera með ykkur hér í dag á þessari spennandi ráðstefnu FSFÍ um stafrænt frelsi, en það er efni sem er mér og ríkisstjórninni mjög hugleikið.
1. desember 2010, Háskólatorg
Ráðstefna um stafrænt frelsi 2010
Kæru gestir
Það er mér mikil ánægja að vera með ykkur hér í dag á þessari spennandi ráðstefnu Félags um stafrænt frelsi á Íslandi (FSFÍ) um stafrænt frelsi en það er efni sem er mér og ríkisstjórninni mjög hugleikið.
Ég tel það mikilvægt að stjórnvöld styðji við stafrænt frelsi, þá sérstaklega nýtingu á frjálsum og opnum hugbúnaði. Undanfarið hefur farið fram mikil umræða á alþjóðlegum vettvangi um þá möguleika sem frjáls og opinn hugbúnaður býður upp á og þjóðarhagkvæmni þess að stuðla að auknu stafrænu frelsi. Evrópusambandið og Norðurlandaráð hafa mælst til þess að þjóðir stuðli að frjálsri samkeppni á hugbúnaðarmarkaði þar sem frjáls og opinn hugbúnaður er raunverulegur valkostur.
Íslensk stjórnvöld hafa einnig beitt sér fyrir aukinni notkun frjáls hugbúnaðar með stefnu stjórnvalda um frjálsan hugbúnað sem kom út í mars 2008. Stefnan nær til allra stofnana sem eru reknar fyrir opinbert fé og í henni segir að þess „skuli gætt að gefa frjálsum og opnum hugbúnaði sömu tækifæri og séreignarhugbúnaði þegar tekin er ákvörðun um kaup á nýjum búnaði“.
Varðandi notkun á frjálsum og opnum hugbúnaði í menntakerfinu segir í stefnu stjórnvalda að „stuðlað verði að því að nemendur í menntastofnunum landsins fái tækifæri til að kynnast og nota frjálsan hugbúnað til jafns við séreignarhugbúnað“.Þetta þýðir að menntastofnanir eiga að „gegna mikilvægu hlutverki í að auka hlut frjáls hugbúnaðar með því að kynna hann fyrir nemendum og gefa þeim tækifæri til að vinna með hann til jafns við séreignarhugbúnað“.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið er að vinna í þessum málaflokki og skrifaði meðal annars bréf til allra framhaldsskóla í ágúst 2009 þar sem menntastofnanir voru hvattar til að taka upp notkun á frjálsum og opnum hugbúnaði í meira mæli og auka með því notkun á upplýsingatækni í námi og kennslu. Nemendur geta með frjálsum hugbúnaði átt greiðari aðgang að hugbúnaði sem þeir geta nýtt sér til að auka námsafköst sín og kennarar geta nýtt upplýsingatæknina til að auka fjölbreytni kennsluaðferða.
Ástæðan fyrir því að ráðuneytið er að beita sér fyrir notkun frjáls hugbúnaðar er margþætt. Fyrst og fremst er það algjörlega ótækt að menntun í landinu sé háð einstaka fyrirtækjum, innlendum eða erlendum. Auk þess getur frjáls hugbúnaður aukið þekkingu og færni nemenda þegar kemur að notkun á upplýsingatækni og reynsla einstakra skóla hefur sýnt að nokkur sparnaður næst ef skipt er yfir í frjálsan hugbúnað. Notkun frjáls hugbúnaðar getur til lengri tíma litið aukið atvinnusköpun, stuðlað að réttlátari samkeppni og aukinni framþróun. Það er gríðarlega mikilvægt að menntun í landinu stuðli að þessum þáttum og því þurfa menntastofnanir í landinu alvarlega að íhuga frjálsan hugbúnað.
Skólarnir eru komnir mislangt í að nýta frjálsan hugbúnað. Margir skólar halda sig enn við gamla kerfið á meðan aðrir skólar nota séreignarhugbúnað og frjálsan hugbúnað í bland. Fáir skólar nota enn sem komið er eingöngu frjálsan og opinn hugbúnað en þó hefur um þriðjungur framhaldsskóla og tveir háskólar lýst áhuga á því að skoða leiðir til að auka innleiðingu á frjálsum hugbúnaði.
Háskóli Íslands notar talsvert af frjálsum hugbúnaði við rekstur tölvukerfisins eins og við munum eflaust fá að heyra hjá Önnu Jonnu Ármannsdóttur á eftir. Nýtt vefsvæði háskólans, sem er eitt stærsta íslenska vefsvæðið, var smíðað í frjálsa vefkerfinu Drupal.
Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur verið framarlega í nýtingu stafræns frelsis. Þar hefur verið sett upp Ubuntu á tölvum skólans sem þeir reka sjálfir með hagkvæmum hætti. Ásamt því hafa þeir einnig útbúið kennsluefni um skrifstofuvöndulinn OpenOffice.org sem er aðgengilegt á vef sem þeir reka, OpenOffice.is. Menntaskólinn á Akureyri hefur unnið á svipuðum nótum en þeir reka kerfið með hjálp frá fyrirtækinu EJS ehf. Aðrir framhaldsskólar hafa gert margvíslegar tilraunir. Til dæmis hefur Fjölbrautaskóli Suðurlands gert tilraunir með OpenOffice.org, Moodle og sömuleiðis Fjölbrautaskólinn í Breiðholti sem hefur verið leiðandi í notkun Moodle kennsluumsjónakerfisins. Tæplega helmingur framhaldsskóla og háskóla notar nú kennsluumsjónarkerfið í dag og sífellt bætist í hópinn.
Grunnskólar virðast einnig vera að fikra sig áfram með frjálsan hugbúnað. Lækjarskóli í Hafnarfirði hefur tekið af skarið og skipt út meirihlutanum af tölvum skólans fyrir Ubuntu sem Opin kerfi hjálpaði þeim við. Í grunnskólum eru enn mörg tækifæri til sóknar.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur mikinn áhuga á að starfa með skólunum með því að veita upplýsingar um og greiða fyrir aðgengi að frjálsum og opnum hugbúnaði. Ráðuneytið hefur meðal annars staðið að verkefninu Frjáls og opinn hugbúnaður sem öllum framhaldsskólum og háskólum stendur til boða að taka þátt í. Núna í nóvember sendu skólar ráðuneytinu tillögur að verkefnum sem tengjast innleiðingu á frjálsum og opnum hugbúnaði.
Í desember verða þessar tillögur settar inn í forgangsröðunarkerfi sem er frjáls hugbúnaður, smíðaður fyrir ráðuneytið með frjálsa forritunarmálinu Ruby. Hver skóli mun fá 100 stig sem þeir geta deilt niður á verkefnatillögurnar og auk þess skrifað röksemdir með og á móti tillögunum. Með þessu vonast ráðuneytið til að þau verkefni sem mesta þörfin er fyrir fái fjárveitingar og það sé samfélagið sjálft sem ræður hvaða verkefni komast í framkvæmd.
Það er hópur starfræktur á vegum stjórnarráðsins sem er að vinna aðgerðaráætlun fyrir stjórnarráðið varðandi innleiðingu á frjálsum og opnum hugbúnaði. Ég er spennt að sjá hvaða áætlun kemur út úr því starfi og vonast til að í kjölfarið á henni verði hægt að koma góðum hlutum í framkvæmd sem efla stafrænt frelsi á Íslandi.
Þá langar mig einnig að segja ykkur frá því að ég er búin að ákveða að mennta- og menningarmálaráðuneytið sjálft taki þátt í innleiðingu á frjálsum og opnum hugbúnaði með því að hrinda af stað tilraunaverkefni innan ráðuneytisins sem farið verður út í bráðlega. Til að byrja með mun innleiðingin felast í að skipta út hugbúnaði á tölvum starfsmanna sem hafa áhuga á að taka þátt í tilraunaverkefninu og þeir myndu þá til dæmis nota OpenOffice.org í staðinn fyrir Microsoft Office og Firefox vafrann auk annarra frjálsra lausna eftir því hverjar þarfir þeirra væru. Þetta er sama nálgun og hjá frönsku lögreglunni sem skipti nýlega 85 þúsund tölvum yfir í frjálsan hugbúnað með góðum árangri og miklum sparnaði.
Í verkefninu hjá ráðuneytinu er ætlunin svo að gera tilraunir með að skipta út stýrikerfi á vélum í fundarherbergjum þar sem sett yrði upp Ubuntu. Auk þess notar einn starfsmaður ráðuneytisins alfarið Ubuntu í sínu starfi og ráðuneytið hjálpaði nýverið Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar við að prófa Ubuntu í sínu skrifstofuumhverfi. Fleiri verkefni má nefna á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins en ráðuneytið hefur nú þegar smíðað einn vef “Nám að loknum grunnskóla” með frjálsa veframmanum Djangó. Við erum einnig að smíða nýjan námskrárgrunn og nýjan skólavef ráðuneytisins, Menntagátt, í þessu sama kerfi. Ráðuneytið aðstoðaði einnig við þróun vefsetursins tungumálatorg.is sem Þorbjörg mun kynna hér á eftir. Allir nýir vefir sem ekki tengjast ráðuneytinu beint, eins og námskrá.is, tungumálatorg og nám að loknum grunnskóla eru þróaðir og vistaðir á Debian sýndarvél ráðuneytisins í gegnum frjálsan hugbúnað.
Ný Menntagátt er hugsuð sem miðlægur gagnagrunnur í menntakerfinu og á hún að geta aðstoðað fólk við að fá upplýsingar um nám á Íslandi, finna menntagögn við hæfi og gefa upplýsingar um þau verkfæri og hugbúnað sem hentar í kennslu og námi. Þar verður komið á fót öflugum stuðningi við skólana og almenning varðandi stafrænt frelsi. Eins verður haldið áfram að þróa gagnabanka fyrir námsefni sem ráðuneytið vonast til að kennarar og námsefnishöfundar muni nýta sér (með því að setja efni inn og merkja það með creative commons höfundarréttarleyfi eða setja inn vísanir í slíkt efni). Þá er hugmyndin að á vefnum verði öflug leitarvél sem leitar að námsefni, verkefnum, prófum og slíku eftir leyfum og innihaldi á þeim vefsíðum sem innihalda mögulega slíkt efni. Þá er stefnt að því að í gegnum gáttina verði hægt að nálgast efnivið frá listasöfnum, RÚV og listamönnum og kennarar geta nýtt til kennslu og námsefnisgerðar. Auk þess má nefna að eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar er að opna eins mikið af gagnabönkum og mögulegt er til að auka aðgengi og hagnýti þeirra fyrir samfélagið.
Í gegnum þessi fjölmörgu verkefni sé ég fyrir mér að ráðuneytið geti í framtíðinni orðið til fyrirmyndar sem vel upplýstur notandi upplýsingatækni á Íslandi. Þannig mun ráðuneytið með þessu skrefi vísa veginn fyrir menntasamfélagið og styrkja stoðir Íslands á sviði upplýsingatækni til framtíðar.
Notkun frjáls hugbúnaðar og opinna menntagagna er nauðsynlegt í íslenska menntakerfinu sem og notkun á opnum stöðlum sem tryggja betur langtímavörslu gagna og aukna samvirkni milli óháðra aðila. Heimurinn tekur sífelldum breytingum og neysla og sköpun menningar í hinum stafræna heimi eykst í sífellu og oft er erfitt fyrir gömul viðhorf að víkja en þau viðhorf sem við höfum alist upp með eru okkur oftast ómeðvituð en hafa ótrúlega mikil áhrif á skipulag kennslu og kennsluhætti. Það tekur tíma fyrir nýja hugmyndafræði að festa rætur og ný viðhorf að verða til.
Ráðstefnur á borð við þessa eru því mjög mikilvægar til að ýta undir stafrænt frelsi einstaklingsins en til að hann öðlist það þá þarf að byrja á að breyta hugsanagangi í stofnunum og skólum. Við eigum að geta miðlað efni og nálgast það með rafrænum hætti hvar sem við erum stödd í heiminum. Þekkingin þarf að vera aðgengileg í hinum stafræna heimi og það hlýtur að vera skólanna að bjóða upp á sem besta menntun og veita nemendum aðgengi að fjölbreyttum hugbúnaði og menntagögnum. Frumkvæði FSFÍ er okkur mikils virði og færi ég þeim bestu þakkir fyrir að standa að þessari ráðstefnu.
Ég lýsi hér með yfir að ráðstefna um stafrænt frelsi 2010 er hafin.