Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. desember 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á fullveldishátíð við Háskólann á Akureyri

Kæru hátíðargestir,

Ég ætla að nota tækifærið hér í dag og ræða framtíð íslenskra háskóla. Ástæðan er kannski augljós – íslenskir háskólar lifa nú erfiða tíma, mikinn niðurskurð, en líka miklar breytingar. Til dæmis tekur þessi háskóli þátt í myndun nýs samstarfsnets opinberra háskóla ásamt Hólaskóla, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og elsta og stærsta háskóla landsins, Háskóla Íslands. Hugsanlega munum við sjá það samstarfsnet stækka enn og ég hef lagt á það mikla áherslu á tíma mínum í embætti að íslenskir háskólar geti unnið mun þéttar og betur saman en þeir hafa hingað til gert og þannig staðið vörð um gæði háskólastarfs á erfiðum tímum.

En það eru mörg álitamál sem koma upp á umbrotatímum. Eitt þeirra langar mig að gera að sérstöku umtalsefni. Þegar við mótum framtíð íslenskra háskóla skiptir máli að við lítum líka til umheimsins og um allan heim standa háskólar frammi fyrir erfiðum niðurskurði af völdum efnahagskreppunnar. Þar standa nokkur mál upp úr og kannski ekki síst það sem mig langar að ræða — akademískt frelsi, sjálfræði stofnana og hvernig við varðveitum það og eflum á tímum efnahagsþrenginga. Mig langar að byrja á því að líta til fortíðar og skoða hvort eitthvað sé unnt að læra af sögunni.

Fram á 12. öld voru til skólastofnanir (dómskólar, klausturskólar)  en nám þeirra var ekki skilgreint sem hið virðulega almenna háskólanám (studium generale). Oft er rætt um háskólann í Bologna sem elsta háskóla heimsins, en hann var stofnaður seint á 11. öld. Það var þó ekki fyrr en á 13. öld sem farið er almennt að nefna þessa skóla því nafni sem síðar tíðkaðist: universitas. Upphaflega var orðið notað yfir gildi kennara og nemenda, eins og þá tíðkaðist um öll önnur störf þjóðfélagsins.

Við getum spurt okkur af hverju þessi frumstæðu háskólar birtust á á 13. öld? Flestir voru settir á stofn að frumkvæði páfa og keisara Hins heilaga rómverska keisararíkis, meðal annars til að framleiða embættismenn. Páfar og keisarar og aðrir miðaldafurstar virðast hafa skilið að það var gott að búa til stofnun sem ekki laut skilyrðislausu valdi þeirra. Hér kann líka að skipta máli hversu veikt miðstjórnarvaldið var í raun á þessum tíma. Eiginlegt miðstjórnarvald var margfalt veikara en nú er, hið kirkjulega vald var öflugt, gildi handverksmanna höfðu áhrif innan borgarsamfélaga og ekki síst skiptu völd aðalsins og áhrif miklu máli.

Háskólar skilgreindu þegar á miðöldum hvað æðri menntun væri; guðfræði, lög, lækningar og heimspeki eða almenn menntun. Þetta eru hinar fjórar sígildu leiðir menntunar sem voru enn við lýði við stofnun Háskóla Íslands fyrir tæpum 100 árum. Raunvísindi, eins og þau eru nú skilgreind, voru aftur á móti ekki stunduð innan veggja háskóla fyrr en löngu síðar. Kóperníkus, svo við tökum dæmi, var kirkjunnar maður en ekki háskólanna. Fög eins og sagnfræði og landafræði voru hluti af guðfræðinni og einkum nýtt til að skýra boðaskap hins heilaga rits. Það er athyglisvert að eftir að háskólastofnanir urðu til á hámiðöldum staðnaði sú þróun í lok miðalda, um leið og ríkisvald efldist á kostnað kirkju og aðals. Hin svonefnda vísindabylting á 17. öld fór fyrst og fremst fram utan háskólanna. Af forvígismönnum vísindabyltingarinnar var Isaac Newton sá eini sem var háskólamaður. Hann sat í Cambridge en þótti það fremur leiðinlegt og var feginn þegar hann gat farið að sinna sínu helsta hugðarefni sem yfirmaður myntsláttu Englandskonungs.

Fyrir um 200 árum fer að bera á nýrri nálgun í háskólamálum. Samfara mótun nútíma ríkisvalds og embættismannakerfis fer ríkið að reka eigin háskólastofnanir. Skrifræðisbylting stjórnsýslunnar og kröfur um hæfi embættismanna leiddu af sér eflingu menntastofnana. Aukin sérhæfing og kröfur um ábyrgð óháð persónu gat af sér kröfur um stofnanir sem byggðu á frjálsri hugsun (þó í hófi) og akademíska nálgun þannig að akademískt frelsi verður þungamiðja í öllu háskólastarfi. Humboldt-háskólinn í Berlín er hér oft nefndur til sögunnar en einnig má nefna framsækni skoskra háskóla á sama tíma.

Ef við höldum okkur við Þýskaland þá er athyglisvert að sjá að á þessum tíma spretta líka fram hugmyndir um hlutverk einstakra eininga háskólanna. Immanuel Kant hélt því þannig fram að heimspekideildin ætti að vera andófsdeildin: vinstri deild háskólanna.

Það er fyrst og fremst frá Þýskalandi sem hin humboltíska hugmyndafræði kemur, hugmyndin að háskólar séu vettvangur fyrir sameiginlega leit kennara og nemenda að sannleikanum. Hún skaut snemma rótum í Bandaríkjunum með vesturheimsferðum þýskumælandi manna. Á þessari sögu byggjum við og í henni er að leita skýringa á mörgu því sem við þekkjum innan nútímaháskólasamfélags, meðal annars hugmyndinni um akademískt frelsi og sjálfræði stofnana. Af ofangreindu má sjá að ef til vill er það ofsagt að háskólar hafi alltaf verið sjálfstæðar stofnanir og mekka hinnar frjálsu hugsunar. Þó er það gamalt þetta leiðarljós um hlutverk háskólanna.

En hvað felst í hinu akademíska frelsi?

Akademískt frelsi er margslungið hugtak sem oftast er skilgreint þannig að háskóli eigi að tryggja kennurum sínum frelsi til að kenna og rannsaka viðfangsefni sín eins og þeir sjálfir telja skynsamlegast á þeim fræðasviðum sem þeir eru ráðnir til að starfa á. Þetta kemur meðal annars vel fram í Magna Charta yfirlýsingunni sem undirrituð var árið 1988, á 900 ára afmæli háskólans í Bologna. Mjög lítil umræða hefur átt sér stað hérlendis meðal stjórnvalda eða í opinberri umræðu innan háskólasamfélagsins hvers konar stjórnunar- eða stofnanaskipulag verji það sem best. Flestir hafa meiri áhyggjur af fjölda háskóla en því starfi sem fer fram innan þeirra.

Í núgildandi rammalögum um háskóla er ekki vikið sérstaklega að akademísku frelsi en íslenskir háskólar hafa sjálfir undirritað yfirlýsingu um akademískt frelsi. En í samhengi við akademískt frelsi þarf að skoða sjálfræði stofnana. Sumir líta fyrst og fremst á akademískt frelsi sem persónulegt frelsi fræðimanna til að kenna og rannsaka en huga ekki að stofnanalegu frelsi háskóla. Sjálfræði vísar til þess athafnarýmis sem stofnun hefur til að taka áhrifaríkar ákvarðanir sem varða akademísk störf, stjórnun og aðra tengda þætti.

Sjálfræði á sér ýmsar víddir. Það getur verið

-stofnanalegt (hvernig rektorar og stjórnendur eru valdir).

-fjárhagslegt .

-starfsmannastjórnun (reglur um val, starfslok og fleira).

-akademískt (val á nemendum).

-sjálfræði í kennslu (að ráða efnisvali og aðferðum).

-stjórnunarlegt – að háskólar ráði hvernig þeir verji fjármunum sínum.

Sjálfræði stofnana er verulega mikilvægt, bæði til að ýta undir akademískt frelsi fræðimanna og til að ýta undir gæði. Háskólar sem teljast meðal þeirra bestu (mjög gjarnan sjálfseignarstofnanir) hafa gjarna mjög lýðræðislegt skipulag og mikið sjálfræði (ekki síst fjárhagslegt).

Í evrópskri rannsókn sem alþjóðasamtök um háskóla (international association of universities) stóðu fyrir voru bornir saman fimm matskvarðar til að meta vægi akademísks frelsis í stefnumótun stjórnvalda og varðandi stjórnun háskóla. Þeir eru 1) umfjöllun um akademískt frelsi í stjórnarskrá þjóða, 2)umfjöllun um akademískt frelsi í rammalögum um háskóla, 3) stofnanalegt sjálfræði er varðar innri stjórnun háskólans, 4) ráðning rektors og 5) fastráðningar akademískra starfsmanna.

1) Umfjöllun um akademískt frelsi: Stjórnarskrá er grundvallarlagastoð hverrar þjóðar og ef þjóðum er alvara um að tryggja að fræðimenn fái að skapa þekkingu með eins hlutlægum hætti og nokkur er kostur er eðlilegt að kveða á um það í stjórnarskrá. Í 13 af 23 aðildarlöndum má finna slíkt ákvæði í stjórnarskrá. Oft er það tengt við umfjöllun um tjáningarfrelsi. Til viðbótar fjalla átta þjóðir um mikilvægi stofnanalegs sjálfræðis innan háskólastofnana (Finnland og Litháen fremst í flokki).

2) Sérstakt ákvæði um akademískt frelsi í rammalögum um háskóla: 17 þjóðir höfðu meðal eða ítarlega umfjöllun um hvernig bæri að verja akademískt frelsi í rammalögum um háskóla (m.a. Finnland) en aðrar hafa litla sem enga umfjöllun um slíkt (t.d. Danmörk og Bretland).

3) Þriðja atriðið snýr að stofnanalegu sjálfræði, þ.e. hvort stjórnunarfyrirkomulag sé lýðræðislegt og ekki sé þrengt að starfi skólans með ytri stýringu. Í því sambandi er talið jákvætt að meirihluti stjórnenda komi úr háskólasamfélaginu þar sem gengið er út frá því að það ýti undir akademískt frelsi ef starfsmenn fá að taka þátt í stjórnun og stefnumótun, að velja sér fulltrúa o.s.frv. (þátttökulýðræði). En þetta kerfi stangast á við markaðsviðhorfið sem lítur fyrst og fremst á akademíska starfsmenn sem verkamenn í þekkingarverksmiðjunni. Með innleiðingu á nýskipan í ríkisrekstri hefur áherslan á lýðræðislega þátttöku fræðimanna minnkað. Í fyrrgreindri rannsókn voru 18 þjóðir (af 23) með skilgreindar meðal- eða miklar kröfur í rammalögum um háskóla um stofnanalegt sjálfræði skóla þar sem lýðræðisleg stjórnun var tryggð (Finnland, Þýskaland og Austurríki eru dæmi um lönd með mikla áherslu á þetta; Danmörk og Bretland eru dæmi um lönd með litla áherslu á stofnanalegt sjálfræði).

4) Fyrirkomulag við ráðningu rektors. Talið er mikilvægt fyrir akademískt frelsi að rektor sé valin af akademísku starfsliði í afmarkaðan tíma. Með því móti er ólíklegt að teknar séu ákvarðanir sem draga úr akademísku frelsi starfsmanna þar sem rektor veit að þegar ráðningu hans lýkur verður hann aftur akademískur starfsmaður. Eins er ólíklegt að hann sé bundinn öðrum hagsmunum en sem akademískur fræðimaður ef hann hefur stöðu sem slíkur. Rektor sem kemur utan frá og er e.t.v valinn af utanaðkomandi aðilum er frekar en sá fyrrnefndi í aðstöðu til að vanvirða akademískt frelsi, sérstaklega í tilfellum þar sem akademískt starfsfólk er ekki æviráðið en slíkt fyrirkomulag tíðkast þó talsvert í nýrri háskólum. Þá má nefna að stjórnarfyrirkomulag sem er einhvers konar blanda af þessu tíðkast víða. 20 af 23 ESB þjóðum höfðu sérstök lagaákvæði um ráðningu rektors sem styrkti mikilvægi akademísks frelsis (þ.á.m. Finnland, Austurríki, Frakkland, Luxembourg en Danmörk og Bretland mældust lág á þessum kvarða).

5) Fastráðningar akademískra starfsmanna eru samkvæmt UNESCO grundvallarforsenda akademísks frelsis (UNESCO 1997) þar sem þær skapa fræðimönnum meira sjálfstæði og möguleika á hlutlægni. Þær auka einnig möguleika starfsmanna að taka með afgerandi hætti þátt í gagnrýninni umræðu utan og innan stofnunarinnar án þess að eiga á hættu að vera reknir (nema út frá málefnalegum ástæðum eins og endurteknum afglöpum í starfi, óheiðarleika eða brotum á meðferð fjármuna). Misjafnt er hversu langan tíma það tekur að fá slíka stöðu innan skólans. Út frá matskvörðum rannsóknarinnar var talið að 20 þjóðir hefðu meðal eða mikla tryggingu fyrir akademísku frelsi í gegnum ráðningar og ráðningarferli (Finnar þar á meðal en Danmörk og Bretland með litlar varnir).

Finnland er með hátt vægi á öllum þessum fimm atriðum en Bretland mælist lágt á öllum kvörðum og Danir mælast lágt varðandi sjálfræði, rektorskjör og ráðningar. Finnar eru jafnframt sú þjóð sem skv. OECD menntar flesta háskólaborgara.

Íslendingar hafa engin sérstök ákvæði er lúta að akademísku frelsi eða sjálfræði háskólastofnana, hvorki í stjórnarskrá eða rammalögum um háskóla. Hin þrjú atriðin eru lítt til umræðu í rammalögum en nánar skilgreind í lögum um opinbera háskóla.

Samkvæmt þessari evrópsku rannsókn þurfa þessir fimm þættir að vera í lagi en það eru fleiri þættir sem vert er að huga að.

Í fyrsta lagi getur rekstrarform skipt máli. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur átt sér stað mjög hröð uppbygging stofnana sem sækjast eftir hagnaði í háskólaumhverfinu en opnir lagarammar um háskóla hafa opnað leiðir fyrir gróðafyrirtæki til að bjóða upp á háskólanám. Á síðustu fjórum árum hefur „ágóðaháskólum“ fjölgað um 60% og nú er svo komið að 12% nemenda stunda nám í slíkum fyrirtækjum. Þau byggja fjármögnun sína á námslánum nemenda og erfiðlega hefur gengið að tryggja að nemendur fái gæðamenntun. Háskólinn í Phoenix er einn fjölmennasti háskólinn af þessu tagi en margir þessara skóla eru byggðir á trúarlegum grunni. Í ræðu sem Martha Kanter, ráðuneytisstjóri bandaríska menntamálaráðuneytisins, hélt nýlega kom fram að þörf væri á meira regluverki og skýrari skilgreiningum í lögum til að bregðast við þessu þannig að einhæf þjálfun komi ekki í stað fræðimennsku.

Í öðru lagi getur fjármögnun skipt máli en þar hefur hlutur einkageirans aukist mikið á síðustu árum. Það hefur kallað á breyttar áherslur í rannsóknum sem eru hagnýtari og beintengdari atvinnulífi og fyrirtækjum. Mikilvægt er að gera greinarmun á þjónustu og fræðimennsku og varast að nota almannafjármuni til að vinna fyrir ákveðin fyrirtæki eða stofnanir. Samfélagshlutverk háskóla má ekki smætta niður í þjónustuhlutverk fyrir stofnanir, einstaklinga eða fyrirtæki. Rannsóknir eiga að hafa almennari skírskotun og hafa bæði fræðilegt og hagnýtt gildi.

Í þriðja lagi má nefna samþjöppun valds en markaðssjónarmið kalla á aukna hagræðingu sem felur oft í sér samþjöppun valds á fárra hendur. Mjög mikilvægt er að slík þróun eigi sér ekki stað á háskólasviðinu því það veikir lýðræði. Mikilvægt er að allir átti sig á því að uppbygging háskólanets felur ekki slíkt í sér. Stofnanir eru áfram sjálfstæðar og háskólastarf þarf að vera blómlegt á landsbyggðinni. Eins þarf að huga að því að stjórnskipulag innan háskóla almennt á Íslandi sé lýðræðislegt.

En hvernig takast nágrannaríki okkar á við þessi álitaefni og hvað ber að varast? Meðal áhugaverðra dæma um það sem á sér stað í háskólum í kjölfar fjármálakreppunnar í vestrænum ríkjum er hvernig mál hafa þróast í Bretlandi. Eins og ég vék að áðan hefur Bretland gengið mjög langt í markaðsvæðingu háskólakerfis síns.

Með nýjum lögum um háskóla árið 1988 afnámu Bretar æviráðningar í háskólum sem gilti um allar nýráðningar eftir 1988. Þrátt fyrir það halda eldri skólarnir (s.s. Oxford og Cambridge) ennþá í gömlu reglurnar. Sumir fræðimenn telja að þetta hefði ekki getað átt sér stað ef akademískt frelsi hefði verið skilgreint í stjórnarskrá. Árið 1991 kom upp dómsmál þar sem þrír heimspekilektorar voru reknir við Swansea háskóla í Bretlandi eftir að hafa gagnrýnt þau akademísku viðmið sem ný námsleið við skólann átti að vinna eftir. Í Bretlandi er gerð krafa um að rektor komi utan frá og akademískt starfslið hefur lítið vægi við stjórnun skólans. Fræðimenn þar hafa orðað þetta með þeim hætti að akademískt frelsi sé ekki bannað en því sé þröngur stakkur skorinn. Mikill þrýstingur er á önnur Evrópuríki að fara sömu leið.

Breska Brown-skýrslan sem mikið hefur verið rætt um í erlendum fjölmiðlum verður til í þessu umhverfi og er í raun eðlilegt framhald af fyrri breytingum. Ráðgert er að skera niður framlög til háskólamála um 40% á næstu fjórum árum og hætta að úthluta fjármunum til kennslu í hugvísindum, félagsvísindum og listum en ríkið muni áfram greiða fyrir kennslu í raunvísindum, verk- og tæknigreinum og stærðfræði (sem raunar mætti kalla hugvísindi). Eingöngu nám sem leiðir til hálaunastarfa mun fá aukið fjármagn og háskólar þurfa að sinna atvinnulífinu og útvega þá starfsmenn sem hálaunafyrirtækin sækjast eftir. Háskólar eiga að stjórnast af svokölluðum neytendakröfum og áherslum á markaði. Eitt af því afdrifaríkasta fyrir breska háskólamenntun er verulegur niðurskurður til kennslu í ákveðnum greinum sem leiðir eiginlega til endurskilgreiningar á háskólamenntun og ábyrgð ríkisins á henni.

Í skýrslunni birtist þröngur skilningur á hlutverki háskólamenntunar en þar segir: Háskólamenntun er mikilvæg vegna þess að hún knýr áfram nýsköpun og efnahagsþróun. Háskólamenntun styður við hagvöxt sem skilar sér svo í aukinni þjóðarframleiðslu.

Háskólar eru þá ekki menntastofnanir í víðum skilningi þar sem hlutlæg þekkingarleit óháð hagvexti er aðalatriðið. Háskólastofnanir eru ekki hugsaðar til að bæta almannahagsmuni og stuðla almennt að uppbyggingu samfélags og einstaklings. Ráðgert er að innleiða námslánakerfi þar sem nemendur fá lánað fyrir skólagjöldum til að geta valið sér „þjónustuveitanda“ sem býður upp á besta kostinn og þannig er því stjórnað hvaða háskólar og háskóladeildir lifa af. Stærstur hluti fjárframlaga fylgir nemendum.

Í Bandaríkjunum er svipað upp á teningnum: Hugvísindi þykja falla illa að nýja kerfinu. Ríkisháskólinn New York fylkis í Albany lokaði fimm námsleiðum núna í haust: í miðaldafræðum (classics), frönsku, ítölsku, rússnesku og leikhúsfræðum. Sagnfræðideildinni var á dögunum lokað í háskóla Pennsylvaniu, heimspeki í Indiana háskóla, stjórnmálafræði í Baker háskóla, þýsku, frönsku og ítölsku í Nevada háskóla og svona mætti áfram telja. Þetta eru greinar sem teljast ekki nógu arðbærar og sinna því ekki „nútímaþörfum“ háskóla og samfélags. Háskólarektor Cornell háskóla brást við með því að tilkynna að Cornell háskóli ætlaði að beita sér fyrir landsátaki í hugvísindum og listum. En vegna neikvæðrar umfjöllunar um þessar greinar þora æ færri nemendur að feta „óhagnýta“ menntabraut.

En hvernig hafa mál þróast hér á landi? Við sjáum teikn um að málabrautir í framhaldsskólum séu að deyja út og nemendum er ráðlagt að velja raungreinabrautir hvort sem þeir hafa einhverja hæfileika á þeim sviðum eða ekki. Og þessi þróun hefur líka skilað sér í umræðu um háskólastigið og einmitt þess vegna skiptir máli að ræða um mál á borð við akademískt frelsi, stofnanalegt sjálfræði, fjölbreytni í námsframboði og mikilvægi þekkingarsköpunar fyrir framþróun samfélags, vísinda, einstaklings og hagkerfis.

Ég spurði hér í upphafi: Hvernig stöndum við vörð um gæði háskólastarfs og akademískt frelsi á krepputímum?

Í fyrsta lagi hefur eru akademískt frelsi og gæði í háskólastarfi aldrei sjálfgefin — hvorki á góðæristímum né krepputímum. Hins vegar má tryggja ákveðna þætti í löggjöf með því að leggja áherslu á hlutverk háskóla, akademískt frelsi og sjálfræði skólanna. Efla má samvinnu og samstarf til að standa vörð um gæði og það erum við að gera með samstarfsneti opinberra háskóla. Það skiptir máli að efla líka hin alþjóðlegu tengsl og það höfum við gert með nýju alþjóðlegu gæðaráði þar sem sitja erlendir sérfræðingar sem allir eru framúrskarandi á sínu sviði og mun það sjá um skipulag gæðaeftirlits með háskólastarfi.

Aðalatriðið er að hér sé kerfi þar sem menntun er ekki skilgreint þröngt heldur nauðsynlegur grunnur lífvænlegs samfélags þar sem tækifærin leynast á ólíkum sviðum, hvort sem um er að ræða raunvísindi eða listir, heilbrigðisvísindi eða hugvísindi. Mín skoðun er sú að það sé mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað hefur verið að gerast og varast vítin; aðeins þannig getum við staðið vörð um akademískt frelsi háskóla.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta