Ræða ráðherra á afmælishátíð menntaáætlunar ESB
25. nóvember 2010, Ráðhús Reykjavíkur
Góðir gestir
Það er ánægjulegt að vera með ykkur á þessari afmælishátíð Menntaáætlunar Evrópusambandsins hér í dag.
Íslendingar hafa tekið virkan þátt í starfi menntaáætlunar ESB frá árinu 1995 og náð mjög góðum árangri. Það er full ástæða til að óska okkur öllum til hamingju með það og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka starfsmönnum Landsskrifstofu menntaáætlunar ESB fyrir frábært starf. Ég ætla ekki að rekja neina tölfræði í þessu sambandi því ég veit að Ágúst Hjörtur Ingþórsson forstöðumaður Landsskrifstofunnar mun fara ítarlega yfir það hér á eftir.
Á sínum tíma fórum við Íslendingar inn í þetta samstarf á grundvelli EES samningsins og er athyglisvert að sjá hversu miklum árangri við höfum náð á þeim forsendum. Ísland hóf þátttöku í Comet, samstarfi háskóla og atvinnulífs þegar árið 1990, Erasmus stúdentaskiptin hófust árið 1992 og Sókrates- og Leonardó - áætlanirnar fóru af stað árin 1995-1999.
Núverandi menntaáætlun ESB fyrir tímabilið 2007 – 2013 sameinar undir einum hatti stuðning Evrópusambandsins við menntun á öllum stigum, frá leikskóla til háskóla og fullorðinsfræðslu. Enskt heiti áætlunarinnar, Lifelong Learning Programme, ævimenntun, vísar til þess að menntun sé verkefni sem vari frá vöggu til grafar. Almennt markmið áætlunarinnar er að stuðla að þróun öflugs þekkingarsamfélags í Evrópu. Sérstök áhersla er lögð á samstarf og samnýtingu reynslu og þekkingar um menntun og þjálfun í þátttökulöndunum.
Í þessu sambandi langar mig að nefna að Mennta- og menningarmálaráðuneytið tekur mikinn þátt í alþjóðlegu samstarfi sem miðar allt að því að opna leiðir fyrir Íslendinga til þess að sækja sér nám og starfsþjálfun til annarra landa. Menntunarramminn (national qualification framework) er samheiti yfir kerfi þar sem allt nám sem fram fer hér á landi er metið til eininga sem verða gjaldgengar hvar sem er í Evrópu. Starfsmenntunin er vitaskuld erfiðust þar sem hún er ólík á milli landa en okkur miðar samt hægt og ákveðið í rétta átt. Europass eða Evrópupassinn er safnheiti yfir staðlaða menntunar- og starfshæfnimöppu sem er eitt af þeim tækjum sem nýtist í þessu sjónarmiði. Meginmarkmiðið með er að auka gegnsæi menntunar og starfsreynslu, bæði heima og að heiman og að auðvelda samhæfingu prófskírteina og viðurkenninga og þar með auðvelda samanburð menntunar og reynslu yfir landamæri í Evrópu.
Áhugi skóla hérlendis á að taka þátt í erlendu samstarfi vex með ári hverju vegna þess að forráðamenn þeirra gera sér grein fyrir að það er ekki bara sjálft námið sem menn sækja til annarra landa heldur einnig dýrmæt reynsla af því að búa fjarri fósturjörðinni um tíma og þurfa að standa á eigin fótum.
Hér hjá okkur hefur hugsunin um ævimenntun verið römmuð inn í áætlun sem felst í því að öll meginsvið menntakerfisins hafa verið tekin til endurskoðunar og ný löggjöf verið sett á öllum stigum menntakerfisins.
Í nýrri menntastefnu hefur verið lögð áhersla á fimm grunnþætti. Þeir eru læsi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi starf. Þeir tengjast allir innbyrðis og er ætlað að fléttast inn í allt fræðslu- og skólastarf með markvissum hætti. Grunnþættirnir snúast um skilning á samfélagi, umhverfi og náttúru á líðandi stund þannig að einstaklingar læri að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um að ungir sem aldnir öðlist þekkingu, getu og vilja til að hafa jákvæð áhrif á samfélag sitt.
Framangreind atriði geta vel fallið inn í heildarramma áætlunar ESB um ævimenntun, Lifelong Learning Programme. Við eigum að ganga fram í Evrópusamstarfinu með þessar áherslur sem okkar framlag til þróunar öflugs þekkingarsamfélags í Evrópu. Þær eiga vel heima í samstarfi og samnýtingu reynslu og þekkingar um menntun og þjálfun í þátttökulöndunum
Góðir áheyrendur
Landsskrifstofa menntaáætlunar Evrópusamstarfsins á Íslandi hefur haldið utan um hið öfluga starf undir hatti áætlunar ESB um ævimenntun sem fram hefur farið hér á landi. Nú er afmælishátíð og full ástæða til að fagna góðum árangri. Fjöldi Íslendinga hefur fengið tækifæri til að taka þátt í verkefnum og fara til annarra Evrópulanda. Þar hefur fólk kynnst nýjungum og aflað sér þekkingar sem er mikilvæg fyrir okkar samfélag. En við eigum einnig að miðla af okkar reynslu og leggja okkar stefnu hiklaust fram sem hluta af alþjóðlegu samstarfi.
Til hamingju með afmælið.