Ræða ráðherra á haustþingi Rannís 2010 – Frá rannsóknum til nýsköpunar
25. nóvember 2010, Hótel Saga
Haustþing Rannís 2010 – Frá rannsóknum til nýsköpunar
Á haustþinginu að þessu sinni verður stefnumótun ESB til lengri tíma í rannsóknum, menntun og nýsköpun sett í samhengi við umræðuna sem á sér stað hér á landi og rætt um mikilvægi tengingar milli grunnrannsókna og nýsköpunar í atvinnulífi.
Ágæta rannsóknaþing
Í ljósi þess að yfirskrift þessa málþings er stefnumótun ESB til lengri tíma í rannsóknum, menntun og nýsköpun langar mig til að gera þátttöku Íslands í erlendu samstarfi á þessum sviðum að leiðarljósi.
Þó að við glímum nú við ýmsa drauga fortíðarinnar er óhætt að segja að við Íslendingar stöndum að mörgu leyti framarlega í rannsóknum og nýsköpun, ef marka má alþjóðlega mælikvarða. Íslenskt vísinda- og nýsköpunarsamfélag hefur með öðrum orðum alla burði til að keppa á alþjóðlegum vettvangi og við erum nú þegar að því.
Hins vegar eigum við nú í gífurlegum efnahagsþrengingum. Við erum knúin til að draga úr opinberum framlögum til háskóla og opinberra rannsóknastofnana, við berjumst af megni fyrir því að hlífa framlögum til opinberra samkeppnissjóða og glímum svo á öðrum vígstöðvum við að innflutt aðföng til rannsókna hækka vegna gengis íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum og íslenskum fyrirtækjum veitist erfiðara nú en á undanförnum árum að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun.
En þessum samdrætti í innlendri fjármögnun má að ákveðnu marki mæta með aukinni sókn í alþjóðlegar samstarfsáætlanir sem Ísland á aðild að og greiðir í.
Gott fólk, við og engir aðrir, getum tryggt að sá uppgangur sem hefur verið í háskólanámi, rannsóknum og nýsköpun undanfarin ár fari ekki forgörðum.
Í stefnu Vísinda- og tækniráðs til næstu ára, sem ber einmitt nafnið Byggt á styrkum stoðum, er fjallað um alþjóðlegt rannsókna- og nýsköpunarsamstarf sem verðugt er að líta nánar á. Þar segir meðal annars að Vísinda- og tækninefndir skuli taka virkan þátt í samráði um mótun og útfærslu vísinda- og nýsköpunarstefnu á Norðurlöndum og í Evrópu sem og að umfang, skuldbindingar og tækifæri í alþjóðlegu rannsókna- og nýsköpunarsamstarfi verði metin.
Tíund alls þess, sem hið opinbera leggur í rannsóknir og þróun í ár, fer í aðildargreiðslur til evrópskra, norrænna og annarra alþjóðlegra samstarfsáætlana og stofnana. Upphæðin, þessir tæplega tveir milljarðar, er ekki mikið lægri en sú upphæð sem ríkið leggur í opinbera samkeppnissjóði eins og Rannsóknasjóð, Tækniþróunarsjóð og aðra slíka. Það er því mikils vert að þetta fé gagnist íslensku samfélagi.
Einfaldasti mælikvarðinn á vegferð þessa fjár er hvort meira fé skilar sér til landsins en við greiðum út. Hingað til höfum við fengið meira fé út úr þessum ráðahag en við leggjum í búið. Þannig námu styrkir sem veitt var til íslenskra aðila í evrópskum áætlunum rúmlega tveimur milljörðum árið 2009. Til viðbótar koma styrkir úr norrænum áætlunum og sjóðum. Því er óhætt að fullyrða að frá þeim sjónarhóli hefur árangurinn verið góður. Bilið fer hins vegar minnkandi og margt bendir til að það verði erfiðara að fá fjármagn til landsins á næstu árum en verið hefur hingað til.
Þátttaka í alþjóðasamstarfi snýst þó um annað og meira en fjármuni eingöngu. Háskóla-, vísinda- og nýsköpunarstarf er í eðli sínu alþjóðlegt og þátttaka í alþjóðlegum áætlunum gefur Íslendingum tækifæri til að byggja upp menntun og rannsóknir sem standast samanburð við það besta sem gerist í heiminum. Það veitir okkur líka aðgang að meiri þekkingu og reynslu en við gætum annars byggt upp. Stefna Vísinda- og tækniráðs er að efla alþjóðlegt samstarf í vísindum og nýsköpun. Til að ná því marki þarf að hlúa vel að alþjóðlegum samstarfsáætlunum.
Alþjóðlegar samstarfsáætlanir sem Ísland á aðild að og sem Íslandi býðst að taka þátt í eru sífellt að breytast. Stundum er um að ræða áherslubreytingar svo sem þegar nýsköpunarhlutinn var tekinn út úr rammaáætlun ESB um rannsóknir og þróun árið 2002 og settur ásamt fleiri áætlunum inn í eina samkeppnis- og nýsköpunaráætlun. Í öðrum tilfellum hafa áætlanir verið sameinaðar svo sem gerðist með samruna Sókrates og Leonardó da Vinci áætlananna í menntaáætlun ESB árið 2007 og með samþættingu níu áætlana á sviði orku, upplýsingatækni og nýsköpunar í samkeppnis- og nýsköpunaráætlun ESB.
Í undirbúningi eru nokkrar nýjar samstarfsáætlanir og ber það ef til vill helst að nefna Joint Programming sem Ísland þarf að taka afstöðu til. Markmiðið með þessari áætlun er að koma á auknu samstarfi milli landsbundinna sjóða og áætlana í Evrópu um samfjármögnun rannsóknaverkefna þannig að það fjármagn sem veitt er til rannsókna- og þróunar í Evrópu nýtist betur og meiri árangur náist. Slíkar áætlanir eiga að taka á stærri vandamálum í Evrópu sem hvert land um sig á erfitt með að ráða við, s.s. öldrun, sýkursýki og umhverfisvá.
Það má gera ráð fyrir frekari breytingum á rannsóknar- og nýsköpunarmálum í Evrópu eftir 2013. Ég vil hér nefna sérstaklega tillögu framkvæmdastjórnar ESB um Nýsköpunarsambandið (Innovation Union) sem lögð var fram þann 6. október síðastliðinn. Nýsköpunarsambandinu er ætlað að breyta hugmyndum í störf, grænan hagvöxt og félagslegar framfarir. Hér hefur í fyrsta sinn verið mótuð samþætt heildarstefna um nýsköpun fyrir Evrópu. Markmiðið er að bæta aðbúnað og aðgengi að fjármunum fyrir rannsóknir og nýsköpun í Evrópu og tryggja að nýjar hugmyndir og nýjar vörur komist á markað. Nýsköpunarsambandið mun einbeita sér að mikilvægum málum eins og loftlagsbreytingum, orkumálum, fæðuöryggi og heilbrigðum lífstíl. Stefnt er að því að sem flestir hafi möguleika á að taka þátt í þessari áætlun og er nýsköpunarsambandinu ætlað að styðja við frumkvöðla í atvinnulífi sem og í opinberri þjónustu.
Rammaáætlanir Evrópusambandsins um rannsóknir og þróun eru stærstar þeirra sem Ísland tekur þátt í. Þátttakan hófst árið 1995, en frá þeim tíma hafa orðið umtalsverðar breytingar á inntaki og umfangi áætlananna. Rammaáætlunin sem nú er í gangi – sú sjöunda – rennur út árið 2013 en undirbúningur að áttundu rammaáætluninni er þegar hafinn.
Fjárveitingar Evrópusambandsins til 7. rammaáætlunarinnar hafa farið hækkandi í evrum talið en framlag Íslands mun að öllum líkindum lækka á næstu árum í takt við lækkandi þjóðarframleiðslu. Gert er ráð fyrir að greiðslur vegna rammaáætlunarinnar verði rúmlega 1 milljarður kr. á fjárlögum 2010, en til samanburðar má geta að framlag í Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð sama ár er samtals 1,5 milljarðar. Árlegt meðaltal styrkja sem úthlutað hefur verið til íslenskra aðila síðustu þrjú árin (2007-2009) er um 6,5 milljónir evra og ljóst er að herða þarf sókn í áætlunina ef hún á áfram að skila meiru í styrkjum en greitt er í aðildargjald.
Mig langar líka aðeins að minnast á menntaáætlun Evrópusambandsins (Lifelong Learning Programme). Áætlunin nær til allra skólastiga frá leikskóla til háskóla. Skuldbindingar vegna þátttöku Íslands á árinu 2009 námu 1,3 milljónum evra, um 230 milljónum króna en til baka fengust rúmlega 2,7 milljónir evra í styrki til landsins, um 480 milljónir króna á núverandi gengi. Þetta er ótrúlegur árangur.
Góðir gestir,
Þátttaka okkur í áætlunum ESB byggist á samningi okkur um Evrópska efnahagssvæðið. Samstarf í rannsóknar- mennta- og nýsköpunarstarfi gegnir nú þegar veigamiklu hlutverki sem ein af máttarstoðum íslensks þekkingarsamfélags. Við kostum miklu til að taka þar þátt og við fáum ríflegan ávöxt ef vel er haldið á málum.
Við í mennta- og menningarmálaráðuneytinu höfum undanfarin misseri unnið að stefnumótun um þátttöku Íslands í alþjóðlegum samstarfsáætlunum. Á næstu misserum og árum er mikilvægt að miða þann takmarkaða stuðning sem í boði er við sjóði og áætlanir sem eru líklegastar til að skila okkur árangri. Til að þetta megi gerast þarf ákveðna forgangsröðun sem verður að byggja á góðri yfirsýn yfir tækifæri, sókn og árangur Íslands í alþjóðlegum samstarfsáætlunum.
Góðir gestir – ég er þess fullviss að þetta rannsóknaþing mun verða gjöfult innlegg í þessa umræðu framtíðarinnar.