Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. mars 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Kynningarfundur um mótun hönnunarstefnu í Tjarnarbíói,  25. febrúar 2011

Góðir gestir

Eins og iðnaðarráðherra sagði þá stendur fyrir dyrum að móta hönnunarstefnu. Er vel að slíkt verði gert þar sem hvers konar hönnun hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum og er ein þeirra listsköpunargreina sem margir setja traust sitt á í þeirri endurreisnarvegferð sem íslenskt samfélag er í. Og eins og úttektin á hagrænum áhrifum skapandi greina gaf til kynna, þá er full ástæða til að ætla að mikillar verðmætasköpunar sé að vænta á þessum vettvangi í náinni framtíð. Úttektin leiddi í ljós að listsköpun og þær atvinnugreinar sem spretta af henni eru ein af undirstöðuatvinnuvegum okkar Íslendinga og vega þungt í hagkerfinu.
Hönnun er breitt hugtak og nær til ólíkra þátta. Í bókinni Hönnun – auðlegð til framtíðar sem Listaháskóli Íslands gaf út á árinu 2007 er t.d. minnst á skynræna hönnun, atferlishönnun, rökræna hönnun, viðmótshönnun, þjónustuhönnun og stefnuhönnun auk listrænnar hönnunar. Það er því að ýmsu að hyggja. Sóley Stefánsdóttir, annar höfundur þessa rits, verður fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis í stefnumótunarhópnum.
Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins er nú starfandi hópur sem hefur það verkefni „að meta hvernig hægt sé að bæta starfsumhverfi skapandi greina og nýta þau tækifæri sem til staðar eru, efla rannsóknir, menntun og stefnumótun og styðja við útflutningsstarfsemi“. Ég vænti mikils af þessum hópi enda er mikilvægt að kortleggja aðstæður og skapa styrkari grunn fyrir atvinnugreinar á sviði hvers konar listsköpunar.
Það eru einkum fjórir þættir sem snúa að ráðuneyti mennta- og menningarmála hvað snertir hönnun: menntamál, starfslaun, varðveisla og kynningarmál.
Fyrst vil ég nefna menntamálin. Ég er sannfærð um að tilkoma hönnunarbrauta í framhaldsskólum á 10. áratugnum jók áhuga á hönnun og ýtti undir þá miklu grósku sem síðar hefur orðið á vettvangi hönnunar hér á landi. En stofnun hönnunarnáms við Listaháskóla Íslands fyrir um áratug hefur þó gert gæfumuninn. Í dag býður Listaháskólinn upp á hönnunarnám á fjórum námsbrautum til B.A. gráðu: grafískri hönnun, vöruhönnun, fatahönnun og arkitektúr. Vonandi verður hægt að hefja meistaranám á sviði hönnunar fyrr en seinna þegar birta tekur til í ríkisfjármálum. Einnig er æskilegt að skjóta styrkari stoðum undir rannsóknir á þessu sviði.
Margir hönnuðir og arkitektar hafa stundað nám við erlendar menntastofnanir og munu eflaust margir halda því áfram. Það er okkur líka mikilvægt til að fá sem fjölbreyttasta strauma og stefnur inn í greinina og á þann hátt skjóta styrkari stoðum undir námið og starfsgreinina hér á landi.
Hönnunarnám er listnám enda byggir hönnun á listrænni fagurfræði og samtvinnun hennar við hagnýtt gildi sem síðan leiðir oft til framleiðslu á tilteknum hlut.
Í öðru lagi vil ég nefna starfslaunin. Þar sem hönnun er listgrein var rökrétt að mati ráðuneytisins að hönnuðir fengju einnig möguleika á að njóta starfslauna eins og aðrir listamenn. Við endurskoðun á lögum um listamannalaun var því komið á fót launasjóði hönnuða þó að ekki væru allir á eitt sáttir um það. Ég er þess fullviss að með því var stígið ákveðið gæfuspor þó að vissulega komi ekki mörg mánaðarlaun í hlut hönnuða. En mjór er mikils vísir og vonandi tekst síðar að efla launasjóð hönnuða eins og aðra launasjóði. Það var ekkert sjálfgefið að það tækist skömmu eftir hrunið að fá samþykki Alþingis fyrir því að starfslaunum listamanna fjölgaði úr 1200 mánaðarlaunum í 1600 á næsta ári. En það tókst sem betur fer.
Starfslaunin gefa hönnuðum kost á að helga sig ákveðnu verkefni í tiltekinn tíma og þannig fá ráðrúm til að skapa eitthvað nýtt og leggja grunn að frekari þróun og vonandi verðmætasköpun.
Í þriðja lagi vil ég nefna varðveisluþáttinn. Hönnunarsafni Íslands var komið á fót á tíunda áratugnum. Það var fyrst deild í Þjóðminjasafni Íslands en er nú sjálfstætt safn sem Garðabær rekur á grundvelli samnings við ráðuneytið. Safnkosturinn eykst jafnt og þétt og eru augu fólks sífellt að opnast betur fyrir mikilvægi þess að varðveita íslenska hönnun. Sem stendur er í safninu glæsileg og áhugaverð sýning á húsgögnum sem Gunnar Magnússon, húsgagnahönnuður, hannaði á sjöunda og áttunda áratugnum. Metnaður Garðabæjar stendur til þess að skapa safninu sem bestar aðstæður og er ég þess fullviss að bærinn mun reisa safninu glæsilegt húsnæði þegar betur fer að ára í íslensku samfélagi. Ráðuneytið mun leggja sín lóð á þá vogarskál.
Í fjórða lagi eru það kynningarmálin en ráðuneytið hefur ásamt iðnaðarráðuneyti stutt starfsemi Hönnunarmiðstöðvar Íslands fjárhagslega og þar taka þessi ráðuneyti höndum saman.
Nú á að leggja í þá vegferð að móta íslenska hönnunarstefnu – stefnu sem nær til ólíkra þátta hönnunar:  hönnunar sem listgreinar – listsköpunar og hönnunar sem atvinnugreinar sem leggur sitt af mörkum til þjóðarhagsins. Ég vil því að lokum fara fáeinum orðum um hugtakið stefnu.
Í fyrra fékk ég Hauk F. Hannesson, listrekstrarfræðing, til að semja drög að menningarstefnu. Hann getur þess að höfuðásinn í notkun á hugtakinu liggi „frá algjöru stefnuleysi á öðrum enda ássins yfir í niðurnjörvaða aðgerðaáætlun í hinum endanum“. Hvað snertir menningarstefnu leggur Haukur áherslu á rammastefnumótun. Menningarstefna í mannvirkjagerð er líka dæmi um slíka stefnu. Og hann segir: „Hlutverk ríkisins er að sjá til þess að á Íslandi sé til rammi um menningarmál þannig að menningarlíf geti þrifist hér og þróast, en ekki að menningarstefnan sé niðurnjörvuð aðgerðaáætlun þar sem markmiðasetning í smáatriðum stjórnar og bindur hendur ríkisins í aðkomu að menningarmálum eða heftir frelsi fagaðila og/eða almennings í landinu í menningarstarfi og sköpun.“ Ég tel að hliðstætt gildi einnig um mótun hönnunarstefnu. Hún verði ekki of niðurnjörvuð heldur móti rammann fyrir þróun greinarinnar, verði leiðarljós og dragi fram þær forsendur sem þurfa að vera til staðar svo að íslensk hönnun nái að dafna og þroskast. Á henni verði svo hægt að byggja áætlun um markvissar aðgerðir í þágu stefnunnar.
Ég óska öllum sem munu koma að verkinu velfarnaðar í starfinu og hlakka til að fá hönnunarstefnuna í hendur þegar líða tekur á sumar og haust heilsar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta