Opnun listahátíðarinnar 700IS Hreindýraland, 19. mars 2011, Sláturhúsið Egilsstöðum
Listin á sér margar birtingarmyndir en kvikmyndir og myndmiðlun eru að margra mati einn áhrifamesti menningarmiðill nútímans. Þó má segja að nú á tímum séu ekki svo skýr skil milli listgreinanna – flæði milli þeirra eykst jafnt og þétt og gamlar skilgreiningar á listformum eru oft á tíðum orðnar úreltar. Vídeóverk geta líkst málverkum, danssýningin minnt helst á leikhús og myndlistarverkið er sýnt með hljóði. Það segir líka sína sögu um samruna og nýjar birtingarmyndir listarinnar að við njótum hennar hér í gömlu sláturhúsi sem á sér eflaust blóði drifna sögu.
Alþjóðlega kvikmynda- og vídeóhátíðin 700IS Hreindýraland er nú sett í sjötta sinn en þemað á hátíðinni í ár er gagnvirk list og verður Sláturhúsið að mér skilst fullt af skemmtilegum verkum þar sem áhorfandinn verður sjálfkrafa þátttakandi í listinni.
Hluti af verkunum í ár er afrakstur samstarfs Listaháskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur en heitið á námskeiðinu sem um ræðir var: „Vaxandi og uppáþrengjandi rými“ – gagnvirk rafvélræn list“. Hljómar mjög spennandi!
Samstarfsverkefnið „Alternative Routes“ sem Hreindýraland er aðili hlaut Evrópustyrk til þriggja ára árið 2009 og lýkur því verkefninu nú á árinu. Verkefnið er unnið í samstarfi fjögurra hátíða í jafn mörgum Evrópulöndum. Afrakstur þeirrar vinnu, og samstarfs verður til sýnis og hér á eftir verður kynning á listafólkinu sem vann „Alternative Routes“ verðlaunin.
Oft er vitnað til þess að lítil þúfa velti þungu hlassi, en það má segja að máltækið eigi einkum vel við þessa framsæknu hátíð sem á upphaf sitt og framgang að þakka ungum listamanni og eldhuga, Kristínu Scheving. Kristínu fannst skorta tækifæri til að sýna og koma list sinni á framfæri á Íslandi, fékk þessa snjöllu hugmynd og fylgdi henni eftir af krafti fyrir sex árum síðan með stuðningi frá forsvarsmönnum Fljótsdalshéraðs.
Hátíðinni hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg á þessum árum og tekist vel upp við það markmið sitt að efla sjónlistir og þá sérstaklega tilraunakennda kvikmyndalist.
Innsendum verkum eftir íslenska listamenn hefur fjölgað jafnt og eru mörg þeirra frá íslenskum listamönnum búsettum erlendis sem hafa nú vettvang til að sýna verk sín í heimalandinu.
Fyrir utan það fagnaðarefni að opna hátíðina nú í sjötta sinn er sannarlega ástæða að fagna með ykkur tilnefningu hátíðarinnar til Eyrarrósarinnar. Eyrarrósin er sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni og með tilnefningunni er hátíðinni sýndur mikill heiður.
Í umsögn valnefndar Eyrarrósarinnar segir m.a. um hátíðina :
„Áhersla er lögð á að sýna tilraunakennda kvikmyndalist og á hátíðin í góðu samstarfi við skóla á Fljótsdalshéraði sem og innlendar og erlendar menningarstofnanir. Virk þátttaka Héraðsbúa sem og öflugt Evrópusamstarf gefur hátíðinni mikið gildi og skipuleggjendur hafa unnið frumkvöðlastarf í kynningu myndbanda- og vídeólistar. 700IS Hreindýraland er áhugaverður bræðingur listgreina sem auðgar menningar- og mannlíf á Austurlandi sem og alla ferðaþjónustu á svæðinu, með því að laða að erlenda og innlenda listamenn og gesti utan hefðbundins ferðamannatíma“.
Það er gömul saga og ný að menning og listir auðga samfélagið og það vekur athygli hve fjölbreytt og blómlegt lista- og menningarlíf er hér á Austurlandi. Sérstaklega er sýnileg nýsköpun og gróska í starfsemi sem ungir listamenn standa fyrir. Munum að samfélög eru sjaldnast dæmd af efnahagsstöðu eða hernaðarmætti, fyrst og fremst eru þau dæmd af framlagi sínu til menningarinnar og mannfélagsins.
Ég vil sérstaklega þakka öllum aðstandendum hátíðarinnar fyrir frábært starf og vonandi njóta sem flestir þess sem 700IS Hreindýraland býður uppá í ár.
Gleðilega hátíð!