Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. mars 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Háskóladagur 2011

19. febrúar 2011, Háskólatorg

Kæru gestir

Í dag standa mörg ykkar frammi fyrir erfiðu vali. Dvölin í framhaldsskólanum styttist og við tekur alvara lífsins, val á vettvangi, menntun og framtíð. Við öll sem erum hér inni höfum örugglega einhvern tíma í barnæsku fengið spurninguna um hvað við ætluðum að verða þegar við erum orðin stór. Á tímabili átti ég mér drauma um að verða skurðlæknir eða poppstjarna - hvorugt rættist – kannski ekki skrýtið – sérstaklega ekki þetta með poppstjörnuna !

Ég er til að mynda nokkuð örugg á því að ég ætlaði mér ekki að verða menntamálaráðherra þegar ég var ung en ég get aftur á móti fullvissað ykkur um að sérfræðimenntun mín í glæpasögum nýtist alveg ágætlega á núverandi starfsvettvangi.

Ef við dveljum aðeins við ákvörðunina um að feta menntaveginn þá sjáum við hér í dag að skólakerfið hér á landi er ekki að gera okkur valið auðvelt. Sjö íslenskir háskólar bjóða okkur í dag upp á hátt í 500 námsleiðir. Þess til viðbótar er okkur boðið upp á kynningu á námsframboði nágrannalanda okkar í Danmörku og Svíþjóð.

Við skulum heldur ekki gleyma að það að tilheyra háskólasamfélagi er svo miklu meira en bara það eitt að sitja andaktugur við fótskör meistaranna og nema. Í háskólalífinu fellst ákveðin mótun, ögun og kennsla í faglegum og vönduðum vinnubrögðum og ekki síst mótun gagnrýnnar hugsunar, rökfestu og listarinnar í að efast.

Einu skulum við heldur ekki gleyma. Aukin menntun, hærra menntunarstig almennings í sérhverju landi leiðir yfirleitt til meiri velmegunar, verðmætasköpunar og þekkingarauka sem nýtist þjóðfélaginu í heild sinni. Bókvitið verður vissulega ekki í askana látið en bókvitið nýtist aftur á móti afar vel til þess að skapa næringargóða fæðu sem snæða má úr einhverju þægilegra og nútímalegra íláti.

Góðir gestir

Í stefnu vísinda- og tækniráðs til næstu tveggja ára, Byggt á styrkum stoðum má finna þrjú leiðarljós sem vert er að hafa í huga á þessum degi. Þessi leiðarljós eru „Samvinna og samnýting“, „Gæði og ávinningur“ og „Alþjóðleg vísindi og nýsköpun“. Undir þessum formerkjum vinnum við nú að því að nýta sem best þá krafta og aðstöðu sem byggð hefur verið upp víðs vegar um landið; - við vinnum að því leynt og ljóst að tryggja að vísinda og nýsköpunarstarf á Íslandi standist alþjóðlegar gæðakröfur og við ætlum okkur stóra hluti í sókn okkar í alþjóðlega rannsóknasjóði. Háskólar eru einmitt gróðrarstía þeirra rannsókna, vísinda og þekkingarsköpunar sem stefna vísinda og tækniráðs fjallar um.

Ég vil í þessu sambandi gera að umtalsefni stefnu um opinbera háskóla sem ég setti á ágúst síðastliðnum. Stefnt er að því að öflugt samstarfsnet opinberra háskóla verði starfandi á Íslandi árið 2012. Að slíku háskólaneti standa allir opinberu háskólarnir þ.e. Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli - Háskólinn á Hólum. Miðað er við að aðrar háskóla- og rannsókna- stofnanir geti tekið þátt í starfi netsins.

Háskólanetinu er m.a. ætlað að bjóða upp á fjölbreytt háskólanám á öllum helstu fræðasviðum. Skipulag náms og rannsókna miðast við að háskólarnir vinni náið saman og njóti krafta allra núverandi skóla sem starfi áfram undir eigin nafni. Þá er gert ráð fyrir að nemendur hafi aukin tækifæri til samsetningar náms með því að sækja námskeið í fleiri en einum skóla.Fjarkennsla verður notuð í auknum mæli til að bjóða upp á fjölbreytt nám víða á landinu með samstarfi við þekkingarsetur og símenntunarmiðstöðvar.

Að þessu vinnum við nú leynt og ljóst, nokkuð hefur miðað og ef fram vindur sem horfir munum við að nokkrum árum liðnum búa við ennþá betra þekkingarumhverfi hér á landi sem er reiðubúið til að mæta ströngustu kröfum þekkingarþyrstra og fróðleiksfúsra háskólanema á nútímalegan máta.

Góðir gestir

Njótið dagsins vel !

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta