Afhending Gulleggsins
Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag. Í dag fáum við að kynnast hugmyndum sem menn veðja á að eigi eftir að komast til framkvæmda .
2. apríl 2011, Háskólatorg
Ágætu gestir
Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag. Í dag fáum við að kynnast hugmyndum sem menn veðja á að eigi eftir að komast til framkvæmda . Hugmyndir byggja á vísindalegri þekkingu og í því samhengi þarf varla að minna þennan hóp, sem hér er staddur, á hversu vel íslenskir vísindamenn standa sig í birtingum greina og ekki síður í fjölda tilvitnana í birtum vísindagreinum. Íslendingar eru þar í allra fremstu röð meðal OECD ríkja. Slíkur árangur hjá fámennri þjóð er einstakur og eftir honum er tekið.
Hins vegar hefur komið fram gagnrýni á það að afrakstur þvílíks fjölda afbragðs vísindagreina sé minni en ætla mætti. Umsóknir um einkaleyfi eru mun færri en rannsóknarframlög og frammistaða Íslendinga í fræðilegum birtingum gefur tilefni til, sé miðað við aðrar þjóðir. Það er brýnt að huga að hagnýtingu rannsóknarniðurstaða, hvernig efla má nýsköpun og stuðla að stofnun sprotafyrirtækja, koma hugmyndum í framkvæmd og hvaða leiðir eru færar til að auka verðmætasköpun í þessum geira.
Rannsóknir og nýsköpun eru undirstöðuatriði í stefnu Vísinda- og tækniráðs sem snýst um hvernig megi efla þekkingarsamfélagið Ísland. Við verðum að tryggja að frumkvöðlar geti séð framtíð í því að skapa sér starfsvettvang á Íslandi.
Gulleggið snertir marga þætti í stefnu Vísinda- og tækniráðs. Meginmarkið þessarar frumkvöðlakeppni Innovit er að hjálpa hugmyndum að verða að veruleika og leitast við að finna frumkvöðla í samfélaginu til að segja okkur frá viðskiptahugmyndum sínum. Í því felst einnig að veita frumkvöðlum aðstoð til að breyta hugmyndum í viðskiptaáætlanir og skapa sjálfstæð sprotafyrirtæki. Nýtt fólk með nýjar hugmyndir fær tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri, að koma þeim í verð og fær um leið reynslu sem síðar meir mun nýtast þeim á sviði vísinda og nýsköpunar.
Góðir gestir
Sóknarfæri nýsköpunar og verðmætasköpunar felast í að þróa og bjóða upp á lausnir sem hvoru tveggja nýta ný markaðstækifæri og mæta þörfum nýrra notenda. Gulleggið – frumkvöðlakeppni íslenskra háskólanema og nýútskrifaðra er kærkominn vettvangur til að kynna sínar lausnir og sjá sköpun annarra. Ég veit að við eigum góða stund framundan við að kynnast frumlegum hugmyndum og nýjum lausnum.