Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. apríl 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

5. þing Kennarasambands Íslands - 7. apríl 2011

Ágætu þinggestir,
Mér þykir vænt um að fá að vera hér í dag og ræða við ykkur um menntamál í víðu samhengi. Ég vil byrja á því að þakka ánægjulegt samstarf við fráfarandi forystu en Eiríkur og Elna hafa verið öflug í sinni baráttu fyrir bættum kjörum kennara og öflugu skólastarfi í landinu og hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar í að standa vörð um grunnþjónustu menntakerfisins á krepputímum. Ég óska jafnframt nýrri forystu Kennarasambandsins velfarnaðar í sínum störfum og vonast eftir farsælu samstarfi milli ykkar og okkar í ráðuneytinu. Ég vil nota tíma minn hér til að fara vítt yfir sviðið og ræða um menntastefnu og hlutverk ykkar, kennarastéttarinnar, við mótun hennar.

Hvað er menntastefna?

Menntastefnu má skilgreina sem hugmyndafræði stjórnvalda og samfélagsins um menntamál hverju sinni. Segja má að lagasetningar, reglugerðir og aðalnámskrár séu formlegar birtingarmyndir menntastefnunnar. Menntastefna nær út fyrir skrifaðan texta og felur í sér hugmyndir okkar um menntun, nám og kennslu og hvers konar skipulag sem stuðlað getur að sem bestum árangri. Verklegi hluti menntastefnunnar er annars vegar í höndum stjórnvalda með því að skapa réttan aðbúnað til að hrinda stefnunni í framkvæmd og svo í höndum kennarastéttarinnar, skólastjórnenda og kennara sem hafa eflt með sér fagmennsku og sérhæft sig í að finna bestu leiðirnar til að mennta.  

Hver er menntastefnan?

En hver er menntastefnan sem við vinnum að um þessar mundir. Eins og áður sagði má finna hana víða með formlegum hætti. Fyrir hrun virtust flestir sammála um ágæti okkar menntastefnu en í kjölfar hrunsins, í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þjóðfundum og nú síðast í skýrslu þingmannanefndar hefur komið fram ákveðin gagnrýni á tiltekna þætti í ríkjandi menntastefnu, sem varða jafnvel mikilvæga þætti sem lengi hafa staðið í lögum, námskrám eða reglugerðum en ekki hefur tekist að rækta nægilega vel með þjóðinni.
Í þessum skýrslum er t.d. fjallað um nauðsyn þess að efla siðfræðimenntun, þjálfun í gagnrýnni hugsun, rökræðum og miðlalæsi í menntakerfinu og jafnframt talið að þessum þáttum hafi ekki verið nægilega vel sinnt fram að þessu. Þetta tengist m.a. áherslum á þætti sem hægt er að mæla og hlutgera.
Ýmsir hafa bent á að vandamálið felist m.a. í því að ekki sé gerður nægilegur greinarmunur á fræðslu og menntun. Sem dæmi leitast lýðræðismenntun við að hafa mótandi áhrif á gildismat á meðan fræðsla um lýðræði gerir ekki slíka kröfu. Sumir segja að varast beri að hafa áhrif á viðhorf nemenda, það sé einkamál þeirra. Mergur málsins er þó sá að í skólastarfi eru ýmis óformleg skilaboð (dulda námskráin) sem móta viðhorf nemenda um hvað sé mikilvægt, hvað virðingarvert, hvað hafi gildi og hvað sé marklaust. Skólinn er því ekki hlutlaus um verðmæti og lífsviðhorf, heldur hlutast hann beinlínis til um viðhorf og gildismat nemenda. Sú leikni og þau viðhorf sem varða beinlínis getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir eða hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi, þeim hefur að margra mati ekki verið sinnt með nægilega markvissum hætti. Fræðikonan og kennarinn Bell Hooks bendir einmitt á mikilvægi þess að menntun feli í sér frelsandi afl sem tengi saman viljann til að vita við viljann til að verða.
Strax í byrjun 20. aldarreyndi Guðmundur Finnbogason að innleiða þessa sýn hérlendis: Í bók sinni Lýðmenntun segir hann:  ... menntun hvers manns verður að metast eftir því hve hæfur hann er til að lifa og starfa í mannlegu félagi, lifa og starfa þannig að líf hans verði með hverjum degi meira virði fyrir sjálfan hann og aðra (Lýðmenntun bls. 33).
Hvað er hægt að læra af hruninu varðandi menntun og fræðslu? Sú spurning sem ég fæ hvað oftast á pólitískum fundum um land allt er að ný hafi flestir sem réðu för í aðdraganda hruns verið langskólagengnir og hverju menntunin hafi þá skilað fyrir samfélagið -  jafnvel hvort menntakerfið hafi brugðist.  Og það má spyrja hvort þeir hafi verið nægilega „menntaðir“

  • til að gagnrýna ráðandi strauma/orðræður,
  • til að byggja upp lýðræðislega stjórnunarhætti eða
  • til að greina á milli skammtímahugsunar og langtímaáætlana eða
  • til að taka ákvarðanir sem grundvölluðust á siðferðisþreki, ábyrgð og lýðræði og þátttöku bæði karla og kvenna.

Sú pólitíska stefna sem samfélagið meðtók undir lok 20. aldar sem hin eina mögulega nálgun með sterkri áherslu á einstaklingshyggju, afnám reglna og einkavæðingu var að stóru leyti innleidd án gagnrýni eða nokkurra efasemda um ágæti þessa. Hinn almenni borgari  var að sjálfsögðu virkur í að halda þessari meginstefnu lifandi sem birtist meðal annars í lítilli opinberri gagnrýni eða andstöðu. Það hlýtur að vera á ábyrgð stjórnvalda hverju sinni að mennta hinn almenna borgara nægilega vel svo hann geti veitt valdhöfum eðlilegt aðhald, hvar sem þeir standa í litrófi stjórnmálanna og hvaða hugmyndafræði sem þeir standa fyrir.
Mín viðleitni til að bregðast við þessu má finna í þeim fimm grunnþáttum sem lagðir eru til grundvallar í námskrám allra skólastiga. Þeir eru læsi í víðum skilningi, sköpun, sjálfbærni, jafnrétti og lýðræðismenntun með áherslu á siðfræði og mannréttindi. Í læsinu felst m.a. áhersla á gagnrýnið miðlalæsi sem þarf að vera samfaglegur þáttur í öllu námi, bæði í formlega skólakerfinu og innan fullorðinsfræðslunnar og efla þannig læsi á „hvers kyns áróður og innistæðulausa ímyndarsmíð“ (eins og segir í skýrslu þingmannanefndar). Í ráðuneytinu hefur komið til tals að bæta sjötta grunnþættinum við sem fjallaði þá um heilbrigði og velferð þar sem líkamlegt heilbrigði er ekki síður mikilvægt en hið félagslega og vitsmunalega en þessir þættir tengjast allir órofa böndum. Á tímum samdráttar er aldrei of oft minnst á mikilvægi almennrar velferðar.
Víkka þarf út hið þrönga sjónarhorn í ráðandi orðræðu um menntun
Margir fræðimenn hafa bent á að sjónarhornið í umræðu um menntun og skólastarf hafi beinst um of að einum meginþætti í samfélagsgerðinni, hagkerfinu, oft á kostnað samfélagslegra og menningarlegra þátta. Það hefur m.a. birst okkur þannig að inntak náms, sem þykir ekki líklegt til að auka hagvöxt eða skapa atvinnutækifæri með beinum hætti, er jaðarsett í menntaumræðunni. Í því sambandi má nefna tungumálanám, jafnvel nám í íslensku eða nám sem eingöngu er hugsað til að fegra mannlífið, göfga hugann, eða manneskjuna, t.d. það sem gerir okkur hæfari til að vera gagnrýnin eða lýðræðisleg.
Árið 2006 lagði Viðskiptaráð til eftirfarandi tillögur í skýrslunni, Ísland 2015:
Sjálfsagt er að árið 2015 verði ákveðnar námsgreinar í grunn- og framhaldsskólum kenndar á ensku og að bækur á ensku verði lagðar til grundvallar í kennslu eða sem ítarefni. Þannig má bæði auka námsframboð og víðsýni í ýmsum greinum án þess að þurfa að kosta til dýrrar útgáfu kennslubóka og annars námsefnis…. (Viðskiptaráð 2006, bls. 20).
Í þessari orðræðu var enska, með fullri virðingu fyrir því ágæta tungumáli,  var hugsuð sem „viðskiptatungumálið“ en iðulega lítið gert út menningarlegum og stjórnmálalegum tengslum okkar við Norðurlönd.
Þessi altumlykjandi orðræða hafði áhrif á mótun framhaldsskólalaganna því í þeim eru einungis íslenska, stærðfræði og enska skilgreindar í lögum sem kjarnagreinar í námi til stúdentsprófs og framhaldsskólum falið að byggja upp námsbrautir í heild sinni að öðru leyti. Áður voru fleiri námsgreinar, þar á meðal danska og þriðja tungumál og fleiri greinar skilgreindar sem kjarnagreinar til stúdentsprófs.
 Sama má kannski segja um orðræðuna um listir sem hefur svo sannarlega breyst eftir að við  létum vinna úttekt á skapandi greinum og verðmætasköpun þeirra til þjóðarbúsins og kom þá í ljós milljarðavelta, meiri velta en íslenski áliðnaðurinn getur stært sig af. Listgreinar eru einmitt meðal þeirra greina sem hafa átt erfitt uppdráttar í almenna skólakerfinu á framhaldsskólastigi og hafa fundið sér farveg utan þess, oftast í einkareknu sérnámi sem er afar kostnaðarsamt fyrir nemendur. Í ljósi þessa hef ég lagt á það áherslu að efla eigi listnám og skapandi starf (nýsköpun) sem nauðsynlegan hluta almennrar menntunar (sbr. Anne Bamford: Education through the Arts).
Í sama anda hafa síðustu áratugi orðið hægar en ákveðnar breytingar á verðmætamati í okkar samfélagi. Verðmætamat samfélagsins birtist m.a. í launum, starfsaðbúnaði, virðingu og umræðu um starfsstéttir. Ljóst er að sú þróun (hvað varðar laun og virðingu) hefur að mörgu leyti verið neikvæð fyrir kennara og því þarf að snúa til betri vegar. En erfitt er að leiðrétta rangt verðmætamat á krepputímum þegar sjóðir ríkisins hafa verið tæmdir!! Það er tvímælalaust langtímamarkmið hjá okkur að þessi skekkja verði löguð.
Þau menntakerfi sem búa vel að kennurum standa sterkt; eins og segir í skýrslu ráðherrafundar í New York í mars sl. Þar var fjallað um starfsmenntun kennara og umbætur á henni. Menn voru sammála um að í löndum þar sem aðstæður eru taldar góðar er mikil aðsókn að kennaranámi og þangað sækja nemendur sem vilja starfa sem sjálfstæðir fagmenn í menntakerfinu. En fólk sem vill sjálfræði (autonomy) og sveigjanleika í starfi laðast að vinnustöðum þar sem hægt er að hafa áhrif á stefnu, skipulag og aðgerðir - til að nýta þekkingu og hæfileika sína sem best. Skólakerfi víða hafa verið endurskipulögð með þetta í huga þar sem faglegt sjálfræði og ábyrgð eru órjúfanlegur hluti af fagmennsku og vinnufyrirkomulagi kennara. Þegar hugað er að auknu sjálfræði kennarans þarf  einnig að stuðla að auknu svigrúmi skólastjórnenda; að þeir geti krafið kennara um aukna þátttöku í stefnumótun og samræðum um fagleg málefni í kennslu og skólastarfi. Með því skapast svigrúm fyrir skólastjórnendur til að efla og nýta hæfileika kennara sem best þeir geta. Þannig muni hver skóli sinna hlutverki sínu best.
Þessi hugsun var innleidd í menntalögum frá 2008 en samkvæmt þeim þurfa kennarar almennt að vera vel að sér í námskrárgerð og skólaþróun. Til að mynda eiga framhaldsskólar að semja eigin námsbrautalýsingar og fá þær staðfestar af mennta- og menningarmálaráðuneytinuÞetta krefst breyttra vinnubragða, meiri þekkingar og þjálfunar í námskrárgerð og skólaþróun. Efla þarf stuðning við kennara og stjórnendur skólanna við  mótun skólastefnu því ekki er eðlilegt að ætlast til þess að kennarinn beri einn ábyrgð á framkvæmd skólastarfs.
Kennari er lykill að innleiðingu á menntastefnu og umbótum í menntakerfum
En aftur að menntastefnunni. Skólar eru í raun einu stofnanir samfélagsins sem gefa öllum þegnum samfélagsins tækifæri til að mæta ólíkum félagslegum aðstæðum og menningarheimum og læra að takast á við það. Það er einmitt þess vegna sem við ættum að kappkosta að í hverjum skóla á öllum skólastigum sé fjölbreytilegur hópur nemenda sem rúmast innan stefnunnar um skóla án aðgreiningar, eða skóla margbreytileikans. Því til viðbótar hafa athuganir leitt í ljós að blöndun ýtir almennt undir betri námsárangur. Þau lönd sem tryggja hvað mesta blöndun í sínum skólakerfum hafa einnig hæst hlutfall háskólamenntaðra, lægst hlutfall ólæsra og mestan hreyfanleika fólks milli stétta og menningarheima. Þetta hefur einkennt okkar leik- og grunnskóla en meiri aðgreiningu hefur mátt finna innan framhaldsskólans. Með lagaákvæði um fræðsluskyldu, jafngildi bók-, list- og verktengdra þátta í námi og ákveðinni forgangsröðun við innritun í framhaldsskóla, með nám við hæfi allra að leiðarljósi, er reynt að þróa framhaldsskóla í þessum anda.

Kennaramenntun/símenntun kennara

Til þess að geta tekist á við þetta gríðarlega mikilvæga verkefni hérlendis þurfa kennarar að fá menntun og þjálfun í að móta skólasamfélag í þessum anda. Á tímum hraðra samfélagsbreytinga eru gerðar auknar kröfur til fagstéttar kennara á öllum skólastigum. Það er t.d. talsverð áskorun fólgin í því að koma til móts við hóp fjölbreytilegra nemenda á einstaklingsgrunni en um leið skapa lýðræðislegt samfélag meðal bekkja eða námshópa og skapa með nemendum mikilvægri þekkingu og hæfni á hinum ýmsu sviðum. Ýmsar rannsóknir, s.s. TALIS rannsóknin, benda til þess að íslenskir kennarar séu ekki nægilega vel studdir til að takast á við þetta margþætta hlutverk en tryggja þarf að svo verði í nýrri skipan endurmenntunar og í mótun fimm ára kennaramenntunar.
Mér hefur nýlega (des 2010) borist skýrsla starfshóps um símenntun kennara (þar sem KÍ átti m.a. fulltrúa) þar sem gerðar eru tillögur um róttæka nýskipan í símenntun kennarastéttarinnar. Þessar tillögur er nú verið að útfæra nánar í samvinnu ráðuneytisins , Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandsins og háskólanna og vænti ég þess að hægt verði að nýta betur fjármagn sem ætlað er til endurmenntunar kennara til að innleiða menntastefnuna og samhæfa um leið betur framboð endurmenntunar. Þar eru fjölmörg tækifæri til að tengja betur kennara á öllum skólastigum með sameiginlegum námskeiðum sem gætu leitt til skólaþróunar á ýmsum sviðum..
Áhrif kreppunar – það sem við höfum og getum lært af Finnum
Við höfum þurft að kljást við niðurskurð og aukið álag í skólum um leið og við viljum efla skólakerfið, skapa fleirum tækifæri til framhaldsmenntunar og byggja upp nýjar námsleiðir. Á undanförnum misserum hafa stjórnvöld haft víðtækt samráð þar sem menntamálaráðuneytið, velferðarráðuneytið og forsætisráðuneytið hafa verið í samstarfi við fulltrúa á opinberum og almennum vinnumarkaði og stjórnarandstöðu til að bregðast við bráðavanda á vinnumarkaði og í menntakerfinu. Þar er m.a. lagt til að opna framhaldsskólana fyrir umsækjendum yngri en 25 ára en vegna fjárskorts á síðustu misserum hefur það ekki reynst mögulegt. Þessar tillögur verða vonandi kynntar formlega af ríkisstjórninni innan skamms. Þar höfum við tekið til fyrirmyndar viðbrögð Finna en þeir lögðu kapp á að skapa ríka samstöðu um aðgerðir til að bregðast við efnahagshruni í sínu heimalandi. En það sem Finnum tókst illa var að styðja við viðkvæmari hópa samfélagsins og skapa menntaúrræði fyrir atvinnulausa sem dygði þeim til virkni og velsældar í samfélaginu. Þar er talað um týndu kynslóðina og við þurfum að hafa þetta sérstaklega í huga í okkar viðbrögðum. Brottfall nemenda úr framhaldsskóla er vandamál í okkar samfélagi og verður það skoðað sérstaklega á næstu mánuðum hvernig best sé hægt að vinna gegn því. Þar eru engar töfralausnir í augsýn en mikilvægt að skoða það sem reynst hefur vel í þeirri baráttu.

Um hugsanlegar strúktúrbreytingar á skólakerfinu – Lög um skólakerfi

Einn mikilvægur hluti af mótun menntastefnu er að átta sig á hvaða skipulag stuðli best að góðri menntun. Menntakerfi er ekki náttúrulögmál heldur hugverk sem getur breyst og á að taka breytingum í takt við menntastefnu. Á menntaþingi sem við héldum á síðasta ári komu fram ýmsar hugmyndir og var niðurstaðan sú að skoða þyrfti betur hvert skólastig í samhengi við það sem á undan fer og það sem tekur við í skólakerfinu. Þessa hugsun þarf líka að byggja inn í nýja kennaramenntun.
Mikið hefur verið rætt um samþjöppun í skólakerfinu. Viljum við t.d. að háskólanám hefjist 1-2 árum fyrr en nú er? Viljum við að list- og verknámsnemendur hafi fleiri tækifæri til menntunar á háskólastigi? Viljum við horfa á menntun ungmenna í grunn- og framhaldsskólum sem eina heild þvert á skólastig þegar við ræðum um aðgerðir gegn brottfalli? Eða viljum við tryggja að öll 4-5 ára leikskólabörn verði leikskólaskyld (og tryggja þ.a.l. gjaldfrjálsan leikskóla fyrir þennan aldur) þannig að öll börn fái að njóta þeirrar menntunar sem fram fer í leikskólum landsins? Slíkar vangaveltur krefjast heildarsýnar á skólakerfið og hef ég vakið umræðu um kosti þess að móta ný lög um skólakerfi til að ná utan um slíka hugsun.

Lagabreytingar og fjárveitingar geta verið mikilvægar þegar breyta skal skólastarfi, en ekki það mikilvægasta. Það eru gömul sannindi að engin raunveruleg þróun verður í skólastarfi nema fyrir tilstuðlan kennara og skólastjórnenda. Það er sama hvaða lagfæringar eru gerðar á skipulagi, námsgögnum eða skólabyggingum, ef kennarar leiða ekki umbætur í skólakerfinu skila þær ekki árangri. Kennarinn er hjartað í skólastarfinu. Það er mikið lagt á kennara um þessar mundir; aukið vinnuálag á sama tíma og laun hafa rýrnað. Breytingar á skólastarfi byggja á viðhorfi og starfi ykkar. Innleiðing nýrrar hugsunar byggir á góðri samvinnu við samtök kennara og skólastjórnenda á öllum skólastigum og virkri þátttöku kennara víðs vegar um land.
Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til fráfarandi forystu Kennarasambandsins og óskir mínar til nýrrar forystu um velfarnaðar í mikilvægum störfum sínum.
Ég vona að við getum átt gott samstarf við þróun nýrrar menntastefnu og uppbyggingu menntakerfis sem þjónar þjóðinni allri á tímum endurreisnar samfélagsins.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta