Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. apríl 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Opnun sýningarinnar „Lífsverk Jóns Sigurðssonar“ í tilefni af 200 ára afmæli Jón Sigurðssonar

20. apríl 2011, Þjóðarbókhlaðan

„Öll framför mannkynsins er byggð á því að halda við því, sem einu sinni er numið, og láta það gánga frá einum knérunni til annars ; með því að ein kynslóð býr þannig undir fyrir aðra, verður því komið til leiðar, að mannkyninu fer alltaf fram, þegar á allt er litið, þó oft hafi verið farið afvega, og stundum sýnist það heldur reka en gánga.“ – segir í ritgerð Jóns Sigurðssonar Um skóla á Íslandi en segja má að Jón hafi lagt áherslu á þrennt sem hann taldi lykilatriði fyrir sjálfstæði Íslands og var það löggjafarvaldið, verslunarfrelsið og skólastarf.

Í ritgerð sinni lagði Jón fram mótaðar hugmyndir um hvernig hann vildi sjá skólakerfið á Íslandi vaxa – hvers konar skólar ættu að vera hér og hvað þeir skyldu kenna. Jón rökstuddi mál sitt skýrt: Skólunum var ætlað, hverjum á sínu sviði, að stuðla að framförum samfélagsins og mæta þörfum á hverri tíð og taldi Jón að menn mættu ekki skirrast við þeim kostnaðarauka sem kljúfandi væri því engum peningum væri varið heppilegar en þeim sem keypt væri fyrir andleg og líkamleg framför sem mest mætti verða.

Þegar Jón Sigurðsson fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð árið 1811 og ólst þar upp til 1829 bauðst honum ekki að ganga í skóla eins og nútímabörn gera. Jóni bauðst ekkert annað en að læra heima en á Hrafnseyri bjó hins vegar fólk sem þekkt var fyrir lærdómsþekkingu sína og fróðleiksáhuga. Þar voru menn sem áttu í fórum sínum gömul handrit sem gengið höfðu mann fram af manni á milli kynslóða, allt frá upphafi átjándu aldar og jafnvel fyrr. Þetta fræða- og handritaumhverfi hefur eflaust kveikt áhuga Jóns á íslenskum fræðum sem fylgdi honum alla ævi og mótað í senn fræðimanninn Jón og stjórnmálamanninn Jón sem ávallt byggði baráttu sínu á þekkingu og rökum.

Þannig stundaði Jón fræðistörf alla ævi samhliða sínu stjórnmálastarfi sem endurspeglast í áhuga hans á skólamálum og skilningi hans á menntun sem einum af hornsteinum sjálfstæðisins. Þessa sögu má sjá í Lífsverki Jóns Sigurðssonar – þeirri sýningu sem hér er sett upp og sýnir gríðarlegt ævistarf Jóns sem nú er komið á aðgengilegt stafrænt form fyrir alla Íslendinga. Við eigum Jóni mikið að þakka og Lífsverkið veitir okkur enn betri skilning á því starfi sem hann vann íslensku samfélagi og þjóð.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta