„Þeir fiska sem róa “ málþing um verndun, smíði og nýtingu trébáta
6. maí 2011, Víkin – Sjóminjasafn
Kæru gestir
Nú eru söfn landsins að undirbúa starf sumarsins, og fyrr í þessari viku voru haldnir vorfundir safna á öllum sviðum undir forystu höfuðsafnanna þriggja, þ.e. Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Þetta málþing, sem helgað er trébátum, er þannig vel tímasett. Hér verður fjallað um málefni sem er mörgum kært, þ.e. verndun, smíði og nýtingu trébáta, sem eru vissulega mikilvægur þáttur í okkar menningararfleifð, en hafa ef til vill ekki notið þeirrar athygli og umhyggju sem vert væri.
Það þarf ekki að hafa mörg orð við þá sem hér eru staddir um mikilvægi trébáta fyrir íslenska þjóðarsögu. Fiskiróðrar héldu lífi í þjóðinni í gegnum aldirnar ásamt landbúnaði, og sköpuðu þau verðmæti sem landsmenn höfðu helst í skiptimynt við erlendar þjóðir til að fá þær vörur sem þá vanhagaði um. Byltingin sem síðan varð í útgerð á 20. öld og sú aukna verðmætasköpun sem henni fylgdi varð undirstaða þess þjóðfélags sem við byggjum í dag.
Í framfarasókn 20. aldar sást landsmönnun hins vegar lítt fyrir, og því fóru forgörðum mikil verðmæti í minjum og samhengi sögunnar rofnaði að talsverðum hluta á þessu sviði. Það var ýmist fyrir sinnuleysi, eins og margar áramótabrennur liðinna áratuga eru til vitnis um, eða fyrir áföll eins og þegar bátasafn Þjóðminjasafns Íslands varð eldsvoða að bráð.
Sem betur fer hefur orðið vitundarvakning á þessu sviði undanfarinn áratug, og nú er vaxandi áhugi meðal þjóðarinnar á verndun báta. Helsta spurningin er hvernig má best virkja þennan áhuga og efla til framtíðar, þannig að verndun þessa merka þáttar í íslenskri menningarsögu verði sem best fyrir komið.
Söfn og áhugafólk hafa verið í fararbroddi á þessu sviði, og það væri heppilegast ef að slíkir aðilar gætu sameinast um stefnumörkun og framkvæmdaáætlun í þessum málum sem næði til alls landsins í senn, frekar en að hver og einn einblíndi á þrengri hagsmuni, hvernig sem þeir verða skilgreindir. Þetta málþing er kjörinn vettvangur til að hefja slíka umræðu, og síðan er Samband íslenskra sjóminjasafna eðlilegur farvegur til að fylgja málinu fram.
Peningar eru vissulega aflvaki ýmissa framkvæmda. Það er athyglisvert að sjá að í fjárlögum síðustu sjö ára, frá 2005 til 2011, hafa framlög til endurgerðar og verndunar skipa og báta verið nær tvöfalt hærri en framlög í fornleifasjóð á sama tímabili, svo dæmi sé tekið, eða nær 200 m.kr. Þessi framlög hafa hins vegar flest verið á svonefndum safnliðum Alþingis, og ef til vill byggst meira á áhuga einstakra þingmanna á verkefnum en faglegu mati á gildi þeirra, en leggja eigi að síður grunninn að því að hægt sé að beina slíkum fjárframlögum í faglegri farveg í framtíðinni.
Undanfarin ár hafa áhugasamir þingmenn ítrekað lagt fram tillögur til þingsályktunar um stofnun skipa- eða bátafriðunarsjóðs í þeim tilgangi að auka fjárveitingar á þessu sviði. Nú eru til á vegum ríkisins eða annarra aðila alls nítján sjóðir á sviði menningar-, æskulýðs- og íþróttamála, sem njóta framlaga úr ríkissjóði. Ég tel að það sé ekki endilega leiðin fram á við í málaflokknum að stofna einn sjóðinn enn – það ætti fremur að huga að því að nýta betur þá sjóði sem til eru og beina fjármagni sem nú er veitt með öðrum hætti í þann faglega farveg, sem felst í þessum sjóðum. Nú hefur Alþingi til umfjöllunar frumvarp til nýrra laga um menningarminjar, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að núverandi fornleifasjóði verði breytt, og hann nefndur fornminjasjóður, sem hafi einnig heimild til að veita styrki til verndunar báta og skipa, en slík heimild hefur ekki verið fyrir hendi áður. Ég bind vonir við að með þessari breytingu verði hægt að efla þennan sjóð til muna á næstu árum, þannig að framlög úr honum, sem byggjast á faglegu mati umsókna, geti orðið mikilvæg lyftistöng frekari þróunar á sviði verndunar trébáta í framtíðinni.
Góðir gestir,
Það er vissulega rétt að þeir fiska sem róa. Mér þykir athyglisvert að þetta málþing er ekki aðeins helgað verndun trébáta, heldur einnig smíði þeirra og nýtingu, og tel að þar sé snert á lykilþáttum í málinu. Það þarf að viðhalda verkþekkingu og breiða út fagnaðarerindið, og þar er nýting slíkra báta í framtíðinni grundvöllur þess að hægt sé að auka áhuga manna á þeim. Ég tel að mikill áhugi landsmanna á húsafriðun helgist öðru fremur af því að menn hafa séð ýmis tækifæri til nýtingar eldri húsa, sem er vel við haldið eða þau endurgerð með glæsilegum hætti. Hið sama gæti átt við um trébáta; í stað þess að þeysa um vötn og sjó í plasthólkum sem knúnir eru háværum hundruðum hestafla væri óskandi að áhugi landsmanna beindist í vaxandi mæli að því að líða um vatnsflötinn fyrir afli vinds eða eigin vöðva í marrandi trébátum sem gerðir eru með sama lagi og forfeður okkar notuðu. Við sjáum slíkan áhuga leggja grunn að blómstrandi atvinnu við bátasmíði í Noregi og víðar, og það er engin ástæða til að ætla annað en slíkt verði einnig mögulegt hér á landi.
Takk fyrir.