Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. maí 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Opnunarhátíð Hörpu

13. maí 2011, Harpa

Í Reykjavík eru mörg hús. Borgin hefur að geyma íbúðarhús, skólahús, sjúkrahús, verksmiðjuhús, verslunarhús, íþróttahús, veitingahús, kvikmyndahús, leikhús, safnahús, hesthús, skrifstofuhús, fiskvinnsluhús, bílahús, iðnaðarhús og dómshús – og þannig mætti lengi telja áfram allar þær fjölbreyttu tegundir húsa, sem saman skapa umhverfi höfuðborgarinnar.

En, líkt og góður maður benti á fyrir margt löngu, hefur þó vantað hér eitt hús. Hér hefur vantað tónlistarhús. Nú erum við saman komin til að fagna því að það hús, Harpa, er loks risið hér í hjarta höfuðborgarinnar, þar sem það mun gleðja bæði borgarbúa, þjóðina alla og þá sem sækja okkur heim um langa framtíð.

Að baki Hörpu liggur áratugalöng saga, þar sem skipst hafa á vonir og vonbrigði, skammsýni og framsýni, gleðistundir og mótlæti. Það voru mikilvægir áfangar á þessari leið þegar ríkið og Reykjavíkurborg ákváðu 1999 að beita sér fyrir byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar og undirrituðu samnings þess efnis árið 2002. Frá þeim tíma hafa allar hindranir verið yfirstignar um síðir af miklum metnaði, þrátt fyrir efnahagsleg áföll og efasemdir um gildi hússins á okkar tímum.

Þeir sem komið hafa að þessu verki öllu eiga miklar þakkir skildar, bæði stjórnmálamenn, starfsfólk og stuðningsaðilar, hugmyndasmiðir og hönnuðir, verktakar og verkamenn. Við erum stödd hér í dag vegna framtaks og dugnaðar fjölda fólks, sem við getum öll verið stolt af.

En hús er lítils virði í sjálfu sér; gildi þess felst í þeirri starfsemi, sem þar fer fram. Upphaf starfsemi í Hörpu lofar vissulega góðu. Við bjóðum Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku óperuna og alla aðra tónlistarflytjendur velkoma í húsið. Sem tónlistarunnendur og ráðstefnugestir eiga landsmenn allir og erlendir gestir okkar eftir að njóta þeirrar starfsemi sem hér fer fram í glæsilegri umgjörð, sem þegar hefur vakið athygli á alþjóðavettvangi.

Mér finnst við hæfi að rifja upp orð Schopenhauers sem sagði að tónlistin væri bein eftirmynd viljans – í tónlistinni fengjum við tímabundið samband við veruleikann eins og hann er og værum undanskilin þeirri þjáningu sem líf í stöðugri blekkingu leiddi af sér. Ég er viss um að við komumst í slíkt samband hér í Hörpu.

Góðir gestir, Íslenskt vögguljóð eftir Halldór Laxness á vel við á þessari stundu, og má taka sem heillaóskum til þjóðarinnar og Hörpu í senn:

Ég skal vaka og vera góð – vininum mínum smáa, – meðan óttan rennur rjóð – roðar kambinn bláa, – og Harpa sýngur hörpuljóð – á hörpulaufið gráa.

Til hamingju með daginn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta