Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. júní 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Hátíðarsamkoma til að minnast þess að 100 ár eru liðin frá stofnun Háskóla Íslands í Alþingishúsinu

 

17. júní 2011, Alþingishúsið

Ágæta samkoma!

Þegar gengið er um skuggsæl undirgöng og sólrík torg í Bologna þar sem háskóli á sér þúsund ára sögu, sólbakaðar hæðir Forn-Grikkja í Aþenu eða jafnvel enn fjarlægari slóðir í tíma og rúmi verður íslenskum ferðalangi ljóst að hundrað ár í sögu háskóla og þjóðar eru ekki endilega langur tími. Íslendingar eru ung þjóð og Háskóli Íslands er þegar allt kemur til alls enn að slíta barnsskónum. Frá öðrum sjónarhóli og á minni skala er saga Háskólans aftur á móti bæði löng og margslungin, kyrfilega samofin ævintýri fátækrar þjóðar sem á rúmri öld hefur risið úr öskustónni eins og kolbítur, tekist á hendur að ráða sér sjálf og lyft hverju grettistakinu á fætur öðru. Á þeirri leið eru margir merkir áfangar og þræðirnir liggja víða, líka langt aftur í aldir þegar grannt er skoðað.

Þegar við, á þessum sumardegi og sumpart kalda vori, horfum aftur um hundrað ár og setjum okkur í spor þeirra sem á sínum tíma stóðu að stofnun Háskóla Íslands skynjum við fljótt að þar var slegið á nýja strengi og lagður grunnur, ekki að hverri annarri stofnun heldur þjóðskóla landinu til heilla. Háskólinn varð frá byrjun vagga fræða og vísinda þar sem tekist var á við þekkingu í alþjóðlegu ljósi og henni miðlað á íslenska tungu. Með stofnun skólans var stigið eitt stærsta skrefið á vegi þjóðar til sjálfstæðis. Hafnarháskóli stóð Íslendingum opinn um alda skeið og framlag hans til íslenskrar menningar er óumdeilt en hann var líka hluti útlends valds. Með því halda einn háskóla í Kaupmannahöfn mátti tryggja valdatauma og einingu ríkisins. Við stofnun Háskóla Íslands lauk langri baráttu þjóðarinnar fyrir eigin menntastofnun á alþjóðlegum grunni, háskóla á heimavelli þar sem íslensk tunga og íslensk sjónarmið takast á við innlendan arf og erlenda strauma.

Erindi Háskóla Íslands var mikið fyrir hundrað árum og er síst minna í dag. Háskólasamfélagið á Íslandi hefur stækkað stórum skrefum á liðnum árum, rannsóknir gegna æ mikilvægara hlutverki og fjöldi námsbrauta á grunn- og framhaldsstigi háskólamenntunar fer sífellt vaxandi. Háskóli Íslands er langstærstur menntastofnana á háskólastigi og miðstöð vísindastarfs á ótal fræðasviðum. Hann er enn sem fyrr varnarþing íslenskrar tungu, íslenskra bókmennta, sögu og þjóðfræða og þar er glímt við reginöfl íslenskrar náttúru sem aftur og aftur hafa minnt  rækilega á sig.

Margt hefur breyst á langri vegferð Háskólans frá stofnun fyrir eitt hundrað árum. Ein ánægjulegasta breytingin snýr að jafnrétti til náms og áhrifa í íslensku samfélagi hvort sem litið er til félaglegrar stöðu eða kynja. Árið 1911 stundaði ein kona nám við skólann, nú eru þær mikill meirihluti nemenda. Fyrir nokkrum árum urðu líka þau tímamót að kona tók við kefli rektors. Háskólinn hefur vaxið hratt fram á síðustu áratugum og enginn þarf að velkjast í vafa um metnað hans og framsýni. Hann er burðarás íslenskrar háskólamenntunar og skipar verðugan sess í alþjóðlegu samfélagi vísinda og fræða. Rannsóknir, nám og kennsla við þessa stærstu menntastofnun landsins hafa vaxið og dafnað og skólinn sinnir hlutverki sínu æ betur með ári hverju. Mikilvægi þeirrar þróunar verður ekki síst ljóst á tímum eins og okkar þegar tekist er á um grundvallargildi og þjóðin öll stendur á krossgötum.

Háskólans bíða fjölþætt og mikil viðfangsefni við uppbyggingu og þróun íslensks samfélags á ögrandi tímum. Íslendingar og mannkynið allt standa frammi fyrir krefjandi verkefni og margvíslegri ógn þar sem enn reynir á Háskóla Íslands, afl hans og skapandi þekkingarleit. Ég óska Háskóla Íslands til hamingju með daginn og íslensku þjóðinni til hamingju með Háskóla Íslands.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta