Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. ágúst 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Ávarp við setningu málþings um Guðrúnu frá Lundi

13. ágúst 2011, Ketilási í Fljótum

Kæru gestir, ágætu skipuleggjendur þessa málþings um Guðrúnu frá Lundi.

Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að vera hérna með ykkur í dag og opna málþingið, sem haldið er í annað sinn nálægt heimahögum Guðrúnar hér að Ketilási í Skagafirði. Í fyrra komu hér saman ríflega 350 manns til að ræða verk hennar en málþingið heppnaðist í alla staði einstaklega vel og fyrirlestrunum var síðan útvarpað á Rás 1 fram eftir vetri við mikinn fögnuð landsmanna. Katrínu Jakobsdóttur, sem þá opnaði málþingið, varð að orði að það væri alltaf sama sagan með Guðrúnu, hún slægi öll met. Ég óska skipuleggjendum innilega til hamingju með daginn og ber málþinginu kveðju Katrínar.

Málþing um Guðrúnu frá Lundi og hennar verk leiðir hugann að mörgum áhugaverðum spurningum. Spurningum um tækifæri lítillar þjóðar í stóru landi, spurningum um möguleika og framlag kvenna á öllum tímum, spurningum um sambúð manns og náttúru en minnir líka á fjölbreytileika mannlífsins og allar sögurnar í hversdagslífinu, smáar og stórar.

Það eru ekki margir rithöfundar sem byrja að gefa út bækur sínar um sextugt og verða um leið metsöluhöfundar eins og Guðrún – og það án þess að heimilisfólkið vissi að hún væri að fást við skriftir. Sjálf segir hún frá því að hún hafi í raun aldrei getað verið án þess að skrifa því hana hafi alla ævi langað til þess. Sumum eru ritstörf í blóð borin og þannig var því svo sannarlega farið með Guðrúnu. Hún skrifaði stórbrotnar sögur og gat gert einfaldleika hversdagslífsins í bændasamfélagi 19. aldarinnar að hinni bestu skemmtun fyrir fólkið sem flutt var á mölina.

Í bókum Guðrúnar er náttúran séð frá sjónarhóli bóndans. Og góður bóndi er stoltur af landi sínu, hann þekkir það í hörgul, ræktar það, lifir af því en gengur ekki á gæði þess. Þessi hugsun gleymist alltof oft í nútímasamfélagi hraða og neyslu. Vera okkar hér í dag í fallegri sveit við ysta haf leiðir líka hugann að þessu samhengi. Hér er næði til að hugsa, njóta og hlusta.

Ágætu gestir

Hér á eftir bíða okkar skemmtilegir og fræðandi fyrirlestrar og erindin eru úr öllum áttum. Við munum heyra um skagfirska sagnamenningu, um konu sem fer undir vatn, hér verður sýndur leikþáttur og ekki má gleyma hjónabandssælunni. Það er því ekki annað hægt en að njóta dagsins með svona fjölbreytta dagskrá framundan. Og ekki spillir rammi málþingsins, Ketilás og umhverfi hans.

Þar sem sköpunargleði Guðrúnar frá Lundi er í hávegum höfð er gaman að vera.

Góða skemmtun!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta