Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. september 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

30 ára afmæli Félags talkennara og talmeinafræðinga

 

10. september 2011, Grand Hótel

Ágætu gestir

Gleðilega hátíð og til hamingju með afmælið. Það er mér ánægja að fá að heiðra samkomu ykkar á þessum tímamótum. Þrjátíu ár eru drjúgur tími í sögu félags sem þó á sér lengri sögu í þeirri mikilvægu starfsemi sem talkennsla og talmeinafræði eru. Á árunum 1953 og 1954 komu fyrstu talkennararnir til starfa í Reykjavíkurskólahéraði eins og skólaumdæmið hét þá. Höfðu þeir sótt menntun sína til Danmerkur, Noregs og Englands. Talkennarar tóku þátt í starfsemi Félags íslenskra sérkennara (FÍS) upp úr árinu 1969 en um miðjan áttunda áratuginn fóru þeir að huga að stofnun eigin félags. Hinn 11. september 1981 var Félag talkennara og talmeinafræðinga formlega stofnað og þremur árum seinna kom út fyrsta tölublað málgagns félagsins, Talfræðingurinn. Um svipað leyti hófu talkennarar baráttu fyrir réttindum sínum og löggildingu starfsheitisins og tók löggilding starfsheitisins talmeinafræðingur gildi árið 1987. Það er svo einnig mikið gleðiefni að næsta vor muni útskrifast í fyrsta sinn á Íslandi, talmeinafræðingar úr þverfaglegu meistaranámi frá Háskóla Íslands. Ættu því að vera forsendur fyrir bjartari tímum með aukinni þjónustu og styttri biðlistum.

Verksvið talkennara og talmeinafræðinga er vítt og sérhæfingin mikil og því er afar dýrmætt fyrir þá einstaklinga sem þjónustunnar njóta hve víða í kerfinu þeir starfa. Má þar nefna talþjálfun ungra barna, þjálfun vegna þroskafrávika og sértækra lesraskana, raddþjálfun og meðferð við stami. Í upptalningu á markmiðum meðferðar þessara starfstétta má sjá marga snertifleti við markmið sem sett eru fram í menntakerfi okkar. Þar má nefna að auka málskilning, máltjáningu, málfærni og málvitund, styrkja hljóðkerfisvitund og ritmál og að vinna með óhefðbundnar tjáskiptaleiðir.

Mikilvægt er að hafa í huga að forsenda góðrar menntunar og velferðar barna og ungmenna í skólum er sameiginlegt verkefni margra aðila og þarf samstarfið að byggjast á virðingu, trausti, samábyrgð og gagnkvæmri upplýsingamiðlun.

Ráðuneytinu bárust, fyrir gildistöku gildandi laga um leikskóla og grunnskóla, ábendingar frá foreldrum og öðrum hagsmunaaðilum skólamála um stoðþjónustu nemenda með sérþarfir. Ábendingarnar lutu m.a. að því að vegna sjúkraþjálfunar, iðjuþjálfunar og talþjálfunar og -kennslu í þágu barna og ungmenna, þyrfti að sækja á marga staði. Það hefði mikið óhagræði og kostnað í för með sér fyrir börn, nemendur og fjölskyldur þeirra, auk þess að slíta í sundur skóladaginn að þurfa að fara með börnin milli þjónustuaðila utan skóla. Þær ábendingar urðu m.a. til þess að með lögum um leikskóla og grunnskóla árið 2008 og síðar við gerð reglugerða við lögin, var lögð aukin áhersla á að marka menntastefnu sem felur í sér að öll börn eigi að njóta uppeldis og menntunar við hæfi. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar um er að ræða börn með ýmiss konar sérþarfir. Þessi réttindi er skýr í gildandi lögum um leikskóla og grunnskóla í dag. Leik- og grunnskólar eru skólar án aðgreiningar og er sérfræðiþjónusta skólastiganna skilgreind betur en áður með það að markmiði að öll börn og ungmenni eigi rétt á viðeigandi þjónustu þeim að kostnaðarlausu og að sveitarfélög og skólar leitist við að samræma hana við sérfræðiþjónustu á vegum annarra aðila, t.d. félagsþjónustu sveitarfélaga og heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lögunum á að stuðla að því að sérfræðiþjónustan geti farið fram innan skólanna eftir því sem aðstæður leyfa. Gert er ráð fyrir að greining og ráðgjöf séu á hendi sérfræðiþjónustu sveitarfélaga og skólanna en að þjálfun og meðferð við skilgreindum sjúkdómum sé á hendi heilbrigðiskerfisins.

Í nýútgefnum aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla eru sex grunnþættir lagðir til grundvallar menntastefnu. Einn þeirra er læsi í víðum skilningi og fjallar um persónulega sköpun og viðbrögð nemenda við því sem þeir skynja og lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á. Í svokölluðum leiðarljósum leikskólastigsins er lögð áhersla á að virða rétt allra sem sækja leikskóla óháð kynferði, bakgrunni, aðstæðum eða getu og leitast við að koma til móts við þarfir allra. Einnig að stuðla að því að börn þrói með sér jákvæða sjálfsmynd með því að virða sérstöðu og sjónarmið hvers einstaklings. Námssvið leikskólans eiga að taka mið af félags- og tilfinningalegum þáttum náms, efla áhuga barna á námi og hvetja þau til að læra og auka þekkingu sína, leikni og hæfni og stuðla að sterkri sjálfsmynd og sjálfsþekkingu. Það gefur augaleið að barn sem býr við málgalla eða slakan málþroska þarfnast stuðnings og þjálfunar til að ná megi fram slíkum markmiðum. Getur talþjálfun og stuðningur við þau börn því skipt sköpum um möguleika barnanna til að ná þeim markmiðum.

Annar mikilvægur þáttur í aðalnámskrá leikskóla fjallar um mat á námi og velferð barna. Er þar um að ræða ferli sem á að vera samþætt daglegu starfi leikskólans og fela í sér skipulagningu, skráningu, mat og ígrundun á námi, þroska og velferð barna. Einnig á það að tryggja að starfsemi leikskóla sé í samræmi við lög og reglugerðir og að réttindi barna séu virt. Matið þarf að vera einstaklingsmiðað og til þess gert að efla hvert barn. Í þessu samhengi er því rétt að geta um rétt barna á sérfræðiþjónustu í leikskóla samkvæmt reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla. Þar er kveðið á um að stuðlað skuli að jafnrétti til náms og vellíðan allra barna með tiltækum ráðum innan skólans og í samstarfi við sérfræðiþjónustu sveitarfélagsins.

Í aðalnámskrá grunnskóla kemur m.a. fram að við framkvæmd sérfræðiþjónustu skuli sveitarfélög leggja áherslu á forvarnastarf til að stuðla markvisst að almennri velferð nemenda og til að fyrirbyggja vanda. Snemmtækt mat á stöðu nemenda og ráðgjöf í kjölfarið er mikilvæg til að starfsfólk skóla geti brugðist sem fyrst við námslegum, félagslegum og sálrænum vanda og skipuleggja kennslu og stuðning þannig að það hæfi hverjum nemanda í skóla án aðgreiningar. Sérfræðiþjónustan á að mótast af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni nemenda óháð starfsstéttum sérfræðinga og hver veitir þjónustuna. Þannig skal velferð nemandans ávallt höfð að leiðarljósi.

Það er ekkert launungarmál að þrátt fyrir oft og tíðum metnaðarfull lagamarkmið getur á stundum reynst erfiðleikum bundið að uppfylla þau til fulls. Skýringa þar að baki getur m.a. verið að leita í því að ábyrgðar- eða kostnaðarskipting aðila er ekki nógu skýr. Talþjálfun grunnskólabarna virðist vera dæmi um slíkt en rétt er þó að taka fram að framkvæmd talþjálfunar, þ.m.t. hver ber kostnað af slíkri þjálfun, fer fram með misjöfnum hætti í sveitarfélögum.

Að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa málefni talþjálfunar barna á grunnskólaaldri verið rædd á fundum með fulltrúum ráðuneyta mennta- og velferðar og Sjúkratrygginga Íslands. Hvatinn þar að baki kemur til af ákveðinni óvissu við framkvæmd og kostnað við talþjálfun grunnskólabarna þar sem nokkur sveitarfélög hafa óskað eftir íhlutun Sambandsins í einstökum málum. Sú staða virðist benda til þess að enn hafi ekki tekist að eyða ákveðnu gráu svæði í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hvað málefni talmeinaþjálfunar grunnskólabarna varðar.

Viðfangsefnið er að skoða að hvaða marki talmeinaþjónusta, sem fyrir flutning grunnskólans var á ábyrgð ríkisins, var hluti samninga um grunnskólann við flutning hans til sveitarfélaga en um það ríkir ekki sameiginlegur skilningur aðila. Þá þarf einnig að leggja mat á það að hvaða leyti þjónustuþættir hafa breyst frá 1996 þegar grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaga og hvort umfang þjónustu samkvæmt tilfærslunni svari til þeirra viðmiða sem núgildandi reglugerð um greiðsluþátttöku vegna talmeinaþjálfunar kveður á um. Til stendur að taka það mál aftur upp þegar fyrir liggur úttekt á stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun sem mennta- og menningarmálaráðuneyti mun fara af stað með á næstu vikum í samstarfi við Háskóla Íslands. Í þeirri úttekt verður aflað upplýsinga um þá þjónustu og úrræði sem í boði eru fyrir börn með tal- og/eða málþroskafrávik, mat á þjónustunni og samanburð eftir landshlutum, samvinnu velferðar- og menntakerfis í þágu þessara barna og ábyrgð á málaflokknum. Einnig verður skoðað hvernig fjármagni til þjónustunnar er varið og hvernig nýta megi það betur. Er það von mín að niðurstöður úttektarinnar verði notaðar málaflokknum til framdráttar og til að auka og bæta þjónustu við börnin. Niðurstöður ættu að liggja fyrir í lok þessa árs.

Góðir gestir. Samkvæmt nýjustu fréttum hafa Sjúkratryggingar Íslands gert nýjan rammasamning um talmeinaþjónustu sem hlýtur að vera mikið gleðiefni fyrir stéttina og ekki síst fyrir þá einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda. Þar með hefur þokast í þá átt að börn njóti lögbundinnar þjónustu á þeim tíma sem mikilvægast er að grípa inn í vegna tal- og/eða málþroskafrávika. Með úttekt á málaflokknum og aukinni vakningu og umræðum, bind ég vonir við að við sjáum fram á betri tíð og bjartari, börnum og fjölskyldum þeirra til handa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta