Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda 2011
Forseti Íslands, unga hugvitsfólk, foreldrar, kennarar og aðrir gestir.
Í dag er góður dagur, við höfum gott tilefni til þess að fagna góðri uppskeru.
Velkomin á uppskeruhátíð nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda sem nú er haldin í 20. árið í röð. Tuttugu ár er langur tími og á honum hafa 35 þúsund hugmyndir frá íslensku hugvitsfólki á aldrinum 5 – 16 ára verið sendar til keppni. Fyrsta árið voru þær um 70 en árið 2008, þegar þær voru flestar, voru þær rúmlega 3.500.
Þó ekki öðlist allar þessar hugmyndir framhaldslíf eru þær samt allar mikilvægar. Það er mikilvægt ungmenni fái tækifæri til þess að setja fram hugmyndir, móta þær og þróa. Sú færni sem af því hlýst mun síðan skila sér út í samfélagið og leiða af sér fleiri hugmyndir.
Í ár komu 1.872 hugmyndir frá nemendum í 46 grunnskólum. Þó ég muni hér á eftir eftir afhenda þeim skólum sem höfðu besta þátttöku nemenda viðurkenningar er megintilgangur okkar hér í dag auðvitað að gleðjast yfir árangri allra sem tóku þátt.
Að vanda fá þrír viðurkenningu fyrir þátttöku. Í ár eru það Brúarskóli í Reykjavík, Brúarásskóli á Fljótsdalshéraði og Hofstaðaskóli.
Brúarskóli í Reykjavík hlýtur brons viðurkenningu. Af 27 nemendum tóku 21 þátt, eða 51%.
Hér er einnig um að ræða lítinn skóla sem er að fóta sig í nýsköpunarmálum. Það er mín ósk að þessi viðurkenning verði skólanum og öðrum hvatning.
Ég bið Andra Snæ Þorvaldsson smíðakennara að taka við viðurkenningu fyrir hönd skólans.
Brúarásskóli á Fljótdalshéraði hlýtur silfur viðurkenningu. Nemendur við skólann eru rúmlega 49 talsins og tók 78% þátt í keppninni í ár.
Ég vil biðja Sigríði Tinnu Sveinbjörnsdóttur að koma hérna upp og taka við viðurkenningum fyrir hönd skólans. Ég vek sérstaka athygli á að hér er á ferðinni skóli sem hefur lagt mikið til nýsköpunarmenntar við skólann og er mikilvirkur nýsköpunarskóli og til fyrirmyndar á þessu sviði.
Að lokum er komið því að afhenda farandbikarinn. Þriðjar árið í röð fellur hann í skaut Hofstaðaskóla, sem þýðir að hann hefur unnið hann til eignar. Af 420 nemendum skólans tóku 382 þátt í keppninni í ár, eða rúmlega níu af hverjum tíu.
Til að taka á móti bikarnum vil ég bjóða þrjá nemendur skólans, þau Birgi Guðlaugsson, Katrínu Elvu Elíasdóttur og Kristínu Heklu Örvarsdóttur að koma hér upp og taka við farandbikar Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda til eignar.
Hofstaðaskóli hefur unnið stórvirki í nýsköpunarmálum og eiga allir sem þar vinna hrós skilið fyrir þeirra framlag. Ég vona að þið komið til með að halda áfram á sömu braut og að aðrir skólar fylgi ykkar fordæmi.
Um leið og ég óska ykkur öllum til hamingju með þennan frábæra árangur, þá óska ég líka öllum sem tóku skrefið og sendu inn hugmyndir sínar í keppnina til hamingju með árangurinn.