Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. október 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Opnun sýningarinnar ÞÁ OG NÚ /THEN AND NOW

Ræða ráðherra 22. september 2011.

22. september 2011 Listasafn Íslands

Opnun sýningarinnar ÞÁ OG NÚ /THEN AND NOW sem tengist útgáfu 5 binda yfirlitsriti um íslenska listasögu frá síðari hluta 19. aldar til okkar tíma

Góðir gestir.
Við erum samankomin hér í Listasafni Íslands í dag af tvöföldu tilefni, eins og kunnugt er: til að fagna glæsilegri útgáfu Íslenskrar listasögu frá lokum 19. aldar til upphafs 21. aldar, sem nú er að koma út í 5 veglegum bindum, og til að opna sýninguna „ÞÁ OG NÚ“ sem efnt er til hér í sölum safnsins á þessum tímamótum.
Það á vel við að tala um tímamót í þessu samhengi því listunnendur hefur lengi dreymt um nýtt yfirlitsrit um íslenska myndlist. Eina heimildin af því tagi sem við höfum notið er rit Björns Th. Björnssonar, Íslensk myndlist á 19. og 20. öld, sem kom út í tveimur bindum 1964 og 1972, og hafa lengi verið nær ófáanleg.  Sú útgáfa var mikið þrekvirki á sínum tíma. En síðan er liðin nær hálf öld, og því hefur skort á að öll sú listsköpun sem átt hefur sér stað á myndlistarsviðinu frá þeim tíma hafi verið sett í nauðsynlegt samhengi, og eldri list endurmetin í ljósi nýrra heimilda, fræðilegra athugana og viðhorfa seinni tíma. Slíkt rit er nú loks komið fram, og verður vonandi til þess að auka skilning og áhuga á þessari flóknu listgrein, sem umbunar hverjum þeim svo ríkulega, sem leggur sig eftir að tengjast efni hennar og anda.  
Tveir málshættir koma upp í hugann af þessu tilefni: „Vel skal vanda það sem lengi á að standa“, og „Góðir hlutir gerast hægt“. Það er engum vafa undirorpið að það hefur verið afar vel staðið að því verkefni sem hér um ræðir, en það hefur tekið sinn tíma. Árið 2006 var fyrst veitt fé á fjárlögum til að vinna að undirbúningi ritunar listasögunnar undir handleiðslu Listasafns Íslands, og síðla sama ár var undirritaður útgáfusamningur um gerð Íslenskrar listasögu í fimm bindum. Ólafur Kvaran tók að sér ritstjórn verksins frá 2007, og á sama ári voru gerðir samningar við fjórtán höfunda, og nú, síðla árs 2011, er hin endanlega útgáfa að koma fyrir augu landsmanna.
Það er vert að minna á að Íslensk listasaga frá lokum 19. aldar til upphafs þeirrar 21. er yfirlitsrit fyrir íslenskan almenning, og sú skilgreining ræður öllu um efnistök og framsetningu efnisins. Hér er ekki aðeins fjallað um listafólk og listaverk, heldur einnig tengsl þeirra við íslenskt samfélag á hverjum tíma, sem og alþjóðleg tengsl, sem reynast hafa verið meiri en flestir gera sér grein fyrir. Hver höfundur nálgast viðfangsefni sín á eigin forsendum, og með fjölda þeirra má ætla að tryggð séu fjölbreytileg sjónarhorn á það efni, sem er til umfjöllunar.
Þakka ber öllum þeim fjölmörgu sem hafa komið að þessu viðamikla verkefni – ritstjórn, höfundum, ljósmyndurum, hönnuðum, þeim sem hafa séð um heimildaleit og skráningu, yfirlesurum, starfsfólki útgáfu og prentsmiðju; allir þessir aðilar hafa unnið sín verkefni af trúmennsku og stakri vandvirkni. Þeirra er heiðurinn, en nú er það íslenskrar þjóðar að njóta afrakstursins.
Það þarf kjark, víðsýni og bjartsýni til að ráðast í annað eins stórvirki. Þetta stórvirki á engan sinn líka á Íslandi og sennilega ekki í nálægum löndum heldur.
Sýningin „ÞÁ OG NÚ“, er byggð á þessu mikla verki. Í sýningunni er reynt að draga fram vendipunktana í framvindu íslenskrar listar á því tímabili sem Íslenska listasagan nær til. Ég er ekki viss um að það hefði endilega verið „grútleiðinleg nálgun“ að fylgja bindunum fimm eftir í þaula á sýningunni, eins og okkar ágæti safnstjóri orðar það í viðtali í gær, en það hefði sannarlega verið erfitt verk að fylgja jafn viðamikilli útgáfu eftir í einni sýningu. En það verður spennandi að sjá hvernig gamlar átakalínur listasögunnar horfa við okkur í dag, og því býð ég gestum að njóta þess sem fyrir augu ber um leið og ég óska öllum viðstöddum til hamingju með það upphaf nýrrar vitundar um íslenska myndlistar, sem vonandi er framundan.

Góðir gestir.
Frá því í vor hef ég gegnt starfi mennta- og menningarmálaráðherra og umhverfisráðherra samtímis. Það er gaman að velta því fyrir sér hvað þessir málaflokkar eiga sameiginlegt og það er margt við nánari athugun. Fátt er jafn sjálfbært og mennta og menningarstarf. Menningin gengur ekki á náttúruauðlindir heldur byggir fyrst og fremst á hugarorku og skapar gleðistundir ekki kílóvattstundir, þroskar andann og skapar æðaslátt mannlegs samfélags. Aldrei hefur verið kannað skipulega og í heild hverju menningin skilar til þjóðarbúsins í efnislegum verðmætum. Hitt vitum við að listsköpun og menningarstarf er oft einskis metið á hinum venjulegu kvörðum hagvaxtarins. Stundum þeim einu sem ná máli í pólitískri umræðu. Við vitum líka að markmiðið með menningarstarfi er ekki hagvöxtur heldur er markmiðið menningin sjálf.
Um leið og ég lýsi því yfir að þessi sýning er opnuð flyt ég aðstandendum nýrrar listasögu þakkir mínar og ríkisstjórnarinnar allrar fyrir afrekið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta