Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. október 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

50 ára afmæli Alþjóðlegra ungmennaskipta

1. október 2011, Ráðhús Reykjavíkur

Kæru gestir.

Ég vil þakka Alþjóðlegum Ungmennaskiptum (AUS) og öllu því góða fólki sem hefur starfað fyrir samtökin um áratuga skeið fyrir þeirra mikla og óeigingjarna starf, sem lagt hefur verið af mörkum til samfélagsins og hefur gefið ungmennum möguleika til að öðlast ný tækifæri og til að þroska sig, bæði sem einstaklinga og sem samfélagsþegna. Einnig fyrir að gefa ungu fólki víðsvegar úr heiminum tækifæri á að koma til Íslands og kynnast menningu okkar og landi. Saga samtakanna nær nú yfir fimmtíu ára tímabil, sem þið fagnið nú um þessar mundir.
Upphafið má rekja alveg aftur til loka síðari heimstyrjaldar þegar komið var á nemendaskiptum  milli Bandaríkjanna og Þýskalands. Markmiðið í upphafi var meðal annars  að auka skilning milli ólíkra menningarheima og skapa traust milli fólks. Þetta markmið er jafn mikilvægt nú um stundir  og jafnvel enn mikilvægara en nokkru sinni fyrr að við gerum allt, sem í okkar valdi stendur, til að auka umburðarlyndi, gagnkvæman skilning og virðingu fólks af mismunandi þjóðerni og menningarsvæðum.
Óhætt er að segja að við lifum nú á tímum nokkurrar óvissu, tímum sem við höfum ekki upplifað áður, tímum þar sem mikilvægi þeirra gilda sem liggja til grundvallar starfi í æskulýðs- og tómstunda hefur sjaldan verið meira. Á slíkum tímum þarf að gæta sérstaklega að unga fólkinu  og að velferð þess sé tryggð, hvort heldur er í skólum, íþrótta-, æskulýðs- eða tómstundastarfi.
Samkeppni um frítíma unga fólksins er mikil eins og marka má af stórauknu framboði á hvers konar afþreyingarefni, sem er afar misjafnt að gæðum. Það hefur komið fram í rannsóknum að þau börn og ungmenni, sem taka þátt í æskulýðs- og tómstundastarfi, eru síður líkleg til að lenda í erfiðleikum á þessum viðkvæma aldri. Það er því sífellt mikilvægari þáttur í uppeldi og þroskaferli barna og ungmenna að gefa þeim tækifæri til að taka þátt í skipulögðu félags- og tómstundastarfi, þar sem þjálfaðir og menntaðir leiðbeinendur vinna með þeim.
Æskulýðsrannsóknirnar Ungt fólk,  sem mennta- og menningar-rmálaráðuneytið hefur stutt við, sýna okkur ennfremur að það er ótvírætt að virk þátttaka barna og unglinga í æskulýðs- og tómstundastarfi hefur mikið forvarna- og uppeldislegt gildi, það skapar aukna festu í lífi þeirra og gerir þau hæfari til að takast á við hvers konar aðstæður sem þau kunna að hafna í. Ég tel að stjórnvöldum sé ljóst að það er mikilvægt að hlúa vel að starfsemi þeirra aðila, sem bjóða börnum og ungmennum upp á þroskandi og krefjandi starf.
Þá má ekki gleyma því þýðingarmikla hlutverki sem félags- og tómstundastarf skólanna gegna í þessu sambandi.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun áfram sem hingað til leitast við að styðja og efla stuðning við starf ykkar sem kostur er. Ráðuneytið veitti AUS 300 þús. kr. styrk fyrr á þessu ári til gefa út sögu samtakanna og nú hefur ráðuneytið ákveðið að styrkja AUS um 700 þús. kr. vegna afmælisins.
Starf ykkar sem vinnið með grasrótinni gegnir mikilvægu hlutverki við að hvetja og styðja börn og ungmenni til að takast á við lífið bæði í leik og starfi.
Mikilvægt er að þeir aðilar sem vinna að æskulýðsmálum stilli saman strengi, þannig má efla starfið enn meira. Það er von mín að starf ykkar verði árangursríkt og megi aukast í náinni framtíð, ungmennum þessa lands til gæfu.
Gangi ykkur vel í ykkar mikilvæga starfi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta