Ávarp ráðherra við formlega opnun vefs fyrir Samþætta leitargátt fyrir Ísland
11. nóvember 2011, Þjóðmenningarhús
Ágætu tilheyrendur
Þegar að fram líða stundir er líklegt að 21. öldin verði skilgreind sem „öld stafrænna upplýsinga“. Við erum nú stödd við upphaf þess tíma þegar algjör aðgangur allra, að allri þeirri þekkingu og öllum upplýsingum sem samfélagið getur boðið upp á, verður mögulegur.
Það er mikið verk og kostnaðarsamt fyrir allar þjóðir að koma þeim menningararfi, sem þær byggja tilveru sína á, yfir í þær tæknilegu formgerðir, sem gera slíkan aðgang mögulegan. Það hefur verið mikil umræða í flestum löndum um þessi málefni, og staðan er vissulega sú, að sumar þjóðir eru komnar lengra á veg en aðrar – hafa getað veitt meiri fjármunum til verkefnisins en þær, sem skemmra eru komnar.
Við Íslendingar eigum enn langt í land með að færa þann arf sem íslensk vitund byggir á og er að finna í menningarstofnunum, söfnum af öllu tagi, háskólum og hirslum ríkis og sveitarfélaga um allt land, í það stafræna form, sem er undirstaða þess aðgangs sem hér um ræðir. Við erum komin nokkuð á leið og sífellt miðar í rétta átt; þar nægir að nefna stafræna endurgerð blaða, tímarita og handrita, stöðuga skráningu bókasafna, skjalasafna, minjasafna og listasafna í stafrænt form, og stöðugt vaxandi vinsældir slíks efnis, meðal skólafólks, fræðimanna og alls almennings.
En, eins og allir þekkja, þá eru upplýsingar lítils virði ef enginn getur nálgast þær. Stafræn endurgerð og skráning efnis er aðeins önnur hliðin á þessu máli; hin er að gera aðgang að öllu slíku efni eins auðveldan og hægt er fyrir sem flesta, og það hefur reynst ekki síður erfitt viðfangsefni.
Það hefur lengi verið draumur margra að hér á landi, líkt og víða annars staðar, verði til ein leitargátt fyrir allt það efni, sem er að finna í íslenskum menningarstofnunum, hvort sem er bókasöfnum, skjalasöfnum, minjasöfnum, listasöfnum, ljósmyndasöfnum, kvikmyndarsöfnum og þannig mætti lengi telja. Við slíka upptalningu koma líka fjársjóðir í geymslum RÚV upp í hugann og einnig mætti nefna kvikmyndaarfinn okkar. Til þess að þetta verði hægt þarf að komast yfir ýmsar hindranir – tæknilegar, lögfræðilegar og ekki síst fjárhagslegar.
En þessi vegferð er hafin, og við erum hér stödd í dag til að fagna stórum áfanga á þeirri leið til framtíðar sem í henni felst; opnun á hinum nýja leitarvef, leitir.is. Nafnið Leitir er sótt il þess viðburðar sem á sér stað að hausti er bændur halda til fjalla og smala saman búpeningi sínum. Þeir fara í leitir. Á vefnum leitir.is fara menn einnig í leitir og smala saman niðurstöðum. Það er margt sem þar kemur í leitirnar. Á vefnum eru menn sínir eigin leitarstjórar. Förum í leitir!
Ég vil óska Landskerfi bókasafna til hamingju með þennan merka áfanga, en þetta merka fyrirtæki, í eigu ríkis og sveitarfélaga, hefur tekist á við þetta verkefni af fagmennsku, framsýni og dugnaði, sem einnig hefur einkennt alla grunnstarfsemi þess frá upphafi.
Hér verður hægt, í gegnum eina leitargátt, að finna efni sem nú er í alls átta gagnasöfnum – og það er ljóst að eftir að þessum áfanga er náð er hægt að fjölga til muna þeim gagnasöfnum sem tengjast þessum leitarvef. Ég er þess fullviss að margir bíða óþreyjufullir eftir því að geta hafist handa við að leita að því efni sem þeir hafa mestan áhuga á, hvort sem þeir eru staddir í Kópavogi eða á Kópaskeri, eða þess vegna í Kaupmannahöfn eða Kuala Lumpur; stafrænt aðgengi að menningararfi þjóða er einhver mesta aðgerð til jöfnunar á aðgangi manna að menningarverðmætum sem hægt er að bjóða á 21. öld, sem fer þá að standa undir nafninu „öld stafrænna upplýsinga“ hér á landi sem annars staðar.
Ég bíð þess full tilhlökkunar að hefja eigin vegferð í boði hins nýja leitarvefs, og býð öllum sem áhuga á að koma í þá vegferð með mér.
Takk fyrir.