Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Norræni loftlagsdagurinn

Ræða ráðherra á norræna loftslagsdeginum 11. nóvember.

11. nóvember 2011, Norræna húsið

Sæl öll og velkomin á þessa hátíðardagskrá sem haldin er í tilefni af norræna loftslagsdeginum sem haldinn er í þriðja sinn. Dagurinn er sameiginlegt verkefni norrænu menntamálaráðherranna og er markmið hans meðal annars að stuðla að þátttöku nemenda í umræðu um loftslagsmál og efla norrænt skólasamstarf á sviði loftslagsmála. Þema loftslagsdagsins í ár er matur og loftslag.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf í vor út nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Í þeim er kveðið á um sex grunnþætti sem lita skuli skólastarf skólastiganna þriggja. Þeir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir eiga að hafa áhrif á efnisval og inntak náms, starfshætti, aðferðir og vinnubrögð. Hugtakið sjálfbærni felur í sér áherslu á skilning og vilja til að skila umhverfinu til afkomendanna í ekki lakara ástandi en við tókum við því og að við leitumst við að mæta þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Í sjálfbærnimenntun felst að skapa samábyrgt samfélag, þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarbúa; náttúru og umhverfi; lýðræði, mannréttindum og réttlæti; jafnrétti og fjölmenningu; velferð og heilbrigði; og efnahagsþróun og framtíðarsýn.
Umræða um lofslagsmál er einn þáttur sjálfbærnimenntunar. Að tengja umræðu um loftslag við mat er liður í að draga fram þá staðreynd að fræðsla um sjálfbærni er ekki á ábyrgð einnar námsgreinar, þ.e. náttúrufræði eða raungreina. Sjálfbærnin, jafnt sem aðrir grunnþættir, eiga að lita inntak og umræðu í skólastarfi þvert á námsgreinar.
Loftslagsvænn matur hefur marga snertifleti. Hver er uppruni matarins? Hvernig er hann unninn? Hvernig er hann pakkaður, fluttur og eldaður?  Og hvað verður um afgangana í lokin? Allt eru þetta gildar spurningar, sem hægt er að tengja mörgum námsgreinum og vert er að hafa í huga þegar við veljum okkur matvöru.
Í tilefni norræna loftslagsdagsins hefur ýmislegt verið gert í ár. Í síðustu viku hélt Menntaskólinn í Kópavogi keppni um hollasta skyndibitann. Ráðuneytið hvatti grunn- og framhaldsskólakennara til að fá nemendur til að ræða spurninguna: „Hvaða matur er loftslagsvænn og af hverju?“. Náttúruskóli Reykjavíkur hélt námskeið fyrir kennara um loftslagsmál, mat og fæðuöflun og loks birti Námsgagnastofnun á vef sínum ítarefni um loftslagsmál bæði ætlað kennurum og nemendum.
Norræn samkeppni er haldin í þriðja sinn í tengslum við loftslagsdaginn. Keppnin er á vegum norrænu menntamálaráðherranna og er í ár um nýjan norrænan skyndibita. Bæði kennarar og nemendur í grunnskólum og framhaldsskólum geta tekið þátt en tímafrestur til að skila inn verkefnum er á miðnætti í kvöld.

En nú ætlum við að halda daginn hátíðlegan. Við fáum að heyra í fyrirlesurum sem ræða um loftslag og mat, nemendaverkefni kynnt og veitt verða verðlaun. Ég vona að við eigum góða stund saman og göngum út fróðari og meðvitaðri um okkar getu til að taka virkan þátt í sjálfbærara samfélagi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta