Inntak háskólastarfsemi og fjöldi stofnana
Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra á ráðstefnu Fræðagarðs um gildi háskólamenntunar, kosti og galla við sameiningu háskóla, sem haldin var í Reykjavík 15. nóvember 2.
15. nóvember 2011, Grand hótel, Gullteigur
Ráðstefna Fræðagarðs
Gildi háskólamenntunar
Sameingin háskólanna - kostir og gallar
Ágæta samkoma
Á Indlandi er starfræktur skóli sem ber hið sérstaka heiti „Barefoot college“. Forstöðumaður hans og stofnandi, Sanjib „Bunker“ Roy sagði nýlega að markmið skólans væri meðal annars að mennta fleiri sólarorkuverkfræðinga en nokkur annar skóli í heiminum. Hann er langt kominn á þessari braut – skólinn og nemendur hans hafa nú þegar lýst upp meira en þúsund þorp í Afríku. Sólarorkuverkfræðingarnir sem hér um ræðir eiga allir tvennt sameiginlegt – þeir eru allir ömmur og eru ólæsir og óskrifandi. Hann velur ömmur – því þær flytja ekki um leið og þær hafa öðlast menntun. Og þar sem að það tekur svo langan tíma að læra að lesa og skrifa þá sleppir hann bara þeim hluta lærdómsins. Enda hefur Sanjib, sem tímaritið Time hefur sett á lista yfir 100 áhrifamestu menn samtímans, lýst því yfir að hann vilji ekki með nokkru móti sjá háskólamenntað fólk í sínum skóla – því hver skóli hafi sinn tilgang og þessi hafi ekki þann tilgang að veita mönnum akademískar gráður.
Góðir gestir – þó að ólæsar ömmur séu varla markhópur íslenska háskóla – og hlutverk þeirra ekki að sólarorkuvæða samfélagið - vil ég hefja umfjöllun mína á þessu indverska innskoti til að undirstrika að hver háskólastofnun hefur sinn tilgang – sem vert er að hafa í huga þegar skeggrætt er um gildi háskólamenntunar og sameiningu háskóla – sem er yfirskrift þessarar ráðstefnu.
Frá því að yfir þessa þjóð reið efnahagskreppa, og reyndar nokkru fyrr, höfðu erlendir sérfræðingar léð máls á því að hér á landi væru of margar háskólastofnanir og æskilegt væri að sameina nokkrar þeirra til að tryggja samlegðaráhrif fjöldans sem talinn er nauðsynleg undirstaða fyrir öfluga háskóla- og rannsóknarstarfsemi. Nærtækast er við þetta tækifæri að vísa til svokallaðar Taxell-skýrslu sem unnin var fyrir íslensk stjórnvöld árið 2009. Þar er kveðið á um að þörf sé á ákveðinni hagræðingu innan háskólageirans.
Á þeim tæplega þremur árum sem eru liðin síðan skýrslan lá fyrir hafa stjórnvöld leitað allra leiða sem í boði eru til þess að greina hvaða möguleikar séu í boði til hagræðingar á háskólastiginu. Ég get fullvissað ykkur um að það er ekki til sá steinn eða vala í beitarhúsi íslenska menntakerfisins sem ekki hefur verið velt, handfjötluð og fægð í leit að hagkvæmustu lausnunum.
Því rétt eins og hjá ömmu-fræðaranum Sanjib er málið flóknara en svo að þetta snúist um að ráðherra mæti á staðinn, sameini tvær stofnanir, allir takist í hendur og ráðherra ríði svo glaðbeittur inn í sólarlagið.Þetta er flóknara verkefni en svo.
Sameiningar háskólastofnana eru svo sem ekkert nýtt fyrirbæri hér á landi. Háskóli Íslands varð til fyrir öld síðan við sameiningu nokkurra embættismannaskóla konungsveldisins, Kennaraháskóli Íslands átti sér langa sameiningarsögu að baki áður en hann varð hluti af Háskóla Íslands og Háskólinn í Reykjavík og Tækniháskólinn gengu í eina sæng fyrir ekki svo löngu síðan.
En ég vil halda því fram að þeir hagsmunir, sem við stöndum frammi fyrir í dag, eru annars eðlis. Samfélag nútímans verður æ flóknara og háskólar, sem samfélagsstofnanir, eru ekki lengur griðastaður hinna fáu heldur viðkomustaður fjöldans.
Til að undirstrika mikilvægi háskólanna í mótun nútímasamfélagsins hef ég á undanförnum árum beitt mér mjög fyrir því að efla sjálfstæði þeirra og ábyrgð á innri starfsemi. Horfið hefur verið frá því sem kalla mætti „dönsku leiðina“ með fjölda utanaðkomandi hagsmunaaðila í stjórn háskólanna, til sænsk-norsku leiðarinnar, sem felur í sér að sérhver háskóli hafi sjálfræði í innri málefnum sínum. Megintilgangur þessarar lagabreytingar hefur verið að tryggja akademískt sjálfstæði skólanna með því augnamiði að gera þá að þeim samfélagsspegli, sem þeir eiga að vera.
En um leið hefur samfélagsleg ábyrgð háskóla verið aukin. Við gerum meiri kröfur um að háskólar þjóni hagsmunum samfélagsins í heild, ekki aðeins atvinnulífsins. Þessari kröfu fylgir líka ábyrgð. Við slítum ekki háskóla úr þeim samfélagslegu tengslum sem við höfum áskapað þeim. Það er nefnilega verulegur prófsteinn á sameiningu stofnana að meta hvaða gildi hún hefur fyrir nærsamfélag sitt. Þetta á ekki síst við um þær háskólastofnanir sem staðsettar eru á landsbyggðinni, þar sem þær eru gjarna þungamiðja samfélagsins í smærri byggðarkjörnum. Hér gilda sömu rök og oft voru notuð fyrir því að reyna að halda úti fiskvinnslu í smærri byggðarlögum; - ef háskólinn er sameinaður öðrum eða honum lokað er stórhætta á því að byggðarlagið líði undir lok ellegar hljóti þvílíkt holundarsár að þess bíði aðeins langdregin banalega. Ruðningsáhrif háskólastofnana eru nefnilega oft vanmetin, ekki síst sá mannauður sem fylgir starfsemi háskólanna og samlegðaráhrif hans á nærsamfélagið.
Eftir þennan málflutning gæti einhver spurt sig af hverju við fjölgum þá ekki bara háskólum og setjum einn í hvert byggðarlag? En hér komum við að annarri hlið starfseminnar sem eru hagsmunir nemenda og gæði þeirrar starfsemi sem verið er að bjóða upp á. Háskólar eru ekki aðeins æðstu menntastofnanir landsins og eins og áður sagði, viðkomustaður fjöldans á leið sinni um æviskeiðið. Háskólar eru líka í eðli sínu alþjóðlegar stofnanir sem keppa um fjármagn og nemendur á alþjóðavettvangi og til að hver og einn sé samkeppnisfær á þeim vettvangi verður hann að uppfylla það skilyrði – sem jafnframt eru grundvallarréttindi nemendanna- að bjóða upp á menntun og rannsóknir, sem uppfylla alþjóðlegar kröfur um gæði.
Ari Kristinn Jónsson fjallaði hér að framan um mikilvægi óháðs gæðamats í háskólastarfi. Ég ætla því ekki að hafa mörg orð um mikilvægi gæðastarfs í háskólum en langar að minnast aðeins á stofnun gæðaráðs háskólanna, sem komið var á fót fyrir rúmu ári síðan. Eitt af meginhlutverkum ráðsins er einmitt að ábyrgjast að haft sé formlegt og samhæft gæðaeftirlit með háskólum hér á landi, - framkvæmt að færustu sérfræðingum og á þann máta að leitast við að tryggja að íslensk háskólastarfsemi standi jafnfætis því sem gerist í örðum löndum. Nýlega var gæðahandbók fyrir íslenska háskólakerfið gefin út en henni er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir háskóla hér á landi og þá um leið að virka í þá átt að samræma almennar kröfur um gæði og eftirlit með þeim við allar háskólastofnanir hér á landi.
Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur undanfarin ár stór hluti af þeirri starfsemi er varðar háskólakerfið, snúið að möguleikum samvinnu og sameiningar eininga innan háskólakerfisins hér á landi.
Stór áfangi á þeirri leið að koma á öflugara samstarfi á milli háskóla og efla tenginu við samfélagið í heild sinni, var að kortleggja þá þekkingarstarfsemi, sem á sér stað á landinu. Niðurstaða þeirra vinnu hefur sýnt okkur að fjöldi stofnana sem sinnir þannig starfsemi er gríðarlegur og er nú unnið að því að auka samstarf þekkingarsetra við hefðbundna háskóla svo að nýta megi þennan mannauð og þessa þekkingu sem þessar stofnanir búa yfir, á gagnkvæman máta.
Meginþunginn í vinnu við að efla inntak háskólamenntunar og samstarf háskóla hefur samt fallið á svokallað net opinberra háskóla.
Í ágúst árið 2010 var mörkuð stefna um opinbera háskóla. Markmiðið hennar er að standa vörð um starfsemi opinberu háskólanna með því að stofna samstarfsnet þeirra með hugsanlega sameiningu í huga. Markmiðið er þríþætt: Í fyrsta lagi að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun til styrktar framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags. Í öðru lagi að hagræða í rekstri háskólanna þannig að fjármunir nýtist sem allra best. Í þriðja lagi að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar á landinu.
Stefnt er að því að öflugt samstarfsnet opinberra háskóla verði starfandi hér á landi á næsta ári. Að netinu standa allir opinberu háskólarnir, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – háskólinn á Hólum. Eins og ég minntist á í sambandi við skýrsluna um þekkingarsetrin áðan, þá er ekkert því til fyrirstöðu að aðrar háskóla- og rannsóknarstofnanir geti tekið þátt í starfi netsins, óháð rekstrarformi.
Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins er stofnun nets opinberu háskólanna nauðsynlegt til að standa vörð um fjölbreytt námsframboð og öflugar rannsóknir á sviðum sem eru veigamikil fyrir íslenskt samfélag. Slíkt netsamstarf er jafnframt nauðsynlegur undanfari sameiningar á háskólastiginu, standi vilji til þess á síðari stigum.
Frá því að samþykkt var að koma áðurnefndu neti háskólanna á fót hefur mikið vatn runnið til sjávar. Tugir starfsmanna skólanna hafa verið virkjaðir í hugmyndavinnu. Verkefnisstjórn samstarfsins, þar sem meðal annar sitja allir rektorarnir fjórir, hefur hist reglulega og hrundið af stað ýmsum verkefnum.
Mig langar hér að stilka á stóru yfir það helsta sem þetta samstarfsnet hefur áorkað á þessu rúmu ári sem liðið hefur frá því að stefnan var sett.
Rammasamningur um samstarf á sviði stoðþjónustu var undirritaður í maí 2011. Samningurinn hefur leitt af sér tvö verkefni sem nú er unnið að. Annað verkefnið miðar að því að taka upp samræmdan hugbúnað fyrir upplýsingar um nemendur og fyrir rafrænt kennsluumhverfi. Byggt er á kerfi sem hefur verið í þróun í um 10 ár á vegum Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Stefnt er að því að þessi hugbúnaður verði innleiddur við alla opinberu háskólana í júní 2012.
Í hinu verkefninu er unnið að samræmingu á því gæðakerfi sem snýr að akademískum starfsmönnum. Nú þegar er árlegt mat framkvæmt á sama hátt fyrir HÍ og HA, og ætlunin er að víkka þetta út þannig að nýráðningar og framgangur verði unnin á sama hátt.
Áformað er að semja um samstarf á fleiri sviðum stoðþjónustu, t.d. kennslufræðilega þjónustu og þróun, skjalavistunarmál, stoðþjónusta og gæðaeftirlit framhaldsnáms, lögfræðiþjónustu og sitthvað fleira.
Í haust var leitað til kennara skólanna eftir hugmyndu,m að nýjum eða endurnýjuðum samstarfsverkefnum á sviði kennslu, og voru boðnir svokallaðir hvata- og þróunarstyrkir til að standa straum af kostnaði við slík verkefni. Sautján umsóknir bárust um þessa styrki, og var alls sótt um meira en 70 milljónir króna. Umsóknirnar eru allar sprottnar úr grasrótinni, þar sem akademískir starfsmenn hafa tekið sig saman þvert á skólana. Stefnt er að því að úthluta allt að 35 milljónum fyrir lok þessa mánaðar. Aftur verður auglýst eftir umsóknum á komandi ári og umsóknarfrestur settur til 1. mars. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að aðrir háskólar en þeir fjórir, sem heyra undir hið opinbera, geta verið aðilar að þessum styrkjum, svo fremi sem það sé í samstarfi við opinberu skólana.
Á næstu vikum er áformað að undirrita samning um gagnkvæman aðgang nemenda að námskeiðum við alla fjóra skólana. Drög að samningi liggja fyrir og er stefnt að undirritun í byrjun desember. Þegar þetta gerist munu nemendur geta farið án kostnaðar og sérstakra hindrana á milli þessara skóla, svo fremi að námskeið, sem þeir taka við móttökuskólann, séu samþykkt af þeirra heimaskóla og geti orðið hluti af þeirra prófgráðu þar.
Opinberu háskólarnir hafa ennfremur ákveðið að vera með sínar kynningar í Háskólabíói á stóra háskóladaginn, og verður þar jafnframt kynning á samstarfi opinberu háskólanna, ekki síst á þessum samningi um aðgang nemenda.
Þá hefur verið fjárfest í tæknilegum innviðum - fjarfundabúnaði og þráðlausum netum- til stuðnings samstarfi á milli skólanna og hefur sú fjárfesting nýst afar vel.
Hugbúnaður til varnar ritstuldi verður á næstunni keyptur í samstarfi allra sjö háskóla landsins. Stofnaður hefur verið tengiliðahópur til að annast þá innleiðingu.
Loks má nefna að merkjanleg hugarfarsbreyting hefur orðið hjá starfsfólki opinberu háskólanna, sem er farið að horfa meira til hvers annars þegar leitað er lausna á hinum ýmsu vandamálum, sem skólarnir þurfa að leysa úr.
Góðir gestir
Af ofansögðu má ráða, að margs ber að gæta þegar rætt er um inntak háskólastarfsemi og sameiningu háskóla. En í ljósi þess sem hefur verið áorkað undanfarin misseri sé ég enga ástæðu til annars en bjartsýni.
Takk fyrir