Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Gildi fornleifaverndar fyrir íslenskt samfélag

Ávarp menntamálaráðherra 18. nóvember sl. um stöðu fornleifaverndar á Íslandi á málþingi um fornleifavernd, sem Fornleifavernd ríkisins stóð fyrir í tilefni af 10 ára afmæli stofnunarinnar.

Ágætu ráðstefnugestir.
Viðfangsefni þessa málþings er staða fornleifaverndar á Íslandi og hvort hún teljist kvöð eða kostur.  Hér verður fjallað um gildi fornleifaverndar fyrir íslenskt samfélag, skyldur og ávinninga framkvæmdaaðila af fornleifavernd, umgegni þeirra við land og sögu auk þess sem við heyrum um þýðingu menningarsögunnar fyrir ferðaþjónustuna.
Það verður fróðlegt að heyra af því hvernig frændur okkar Norðmenn standa að sínum verndunarmálum og fjármögnun til þeirra. Þeir hafa áratuga reynslu í að lifa í sátt við sínar menningarminjar og auðvitað fjármagnið til að koma málum í framkvæmd í samræmi við áætlanir. Það er einnig full ástæða til að spyrja sig hvort vernd og varðveisla fornleifa sé óþarfa kvöð á samfélaginu eða hvort í minjum felist ónýtt tækifæri og ómæld verðmæti og fróðlegt verður að frétta af niðurstöðum vinnuhópa.  
Tilefnið til að staldra við og líta um öxl er að nú eru liðin 10 ár frá því að gildandi þjóðminjalög voru sett og tvær stjórnsýslustofnanir á sviði minjaverndar settar á laggirnar, þ.e. Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd. Hver er árangurinn af starfi þeirra í áratug?
Það kann að virðast hálf undarleg afmælisgjöf frá mér sem ráðherra menningarmála til viðkomandi stofnana að ég hef lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um menningarminjar, þar sem lagt er til að Fornleifavernd og Húsafriðunarnefnd verði báðar lagðar niður og sameinaðar í einni öflugri stjórnsýslustofnun um minjavernd, Minjastofnun Íslands. Ég tel brýnt að málefni húsaverndunar og fornleifaverndunar komist undir einn hatt, og að með því ætti að fást heildstæð yfirsýn yfir málaflokkinn og öll stefnumótun innan hans markvissari. Er það von mín að frumvarpið verði að lögum á yfirstandandi þingi og að hin nýja stofnun taki til starfa í byrjun árs 2013.
Eins og forstöðumaður Fornleifaverndar hefur bent á í ágætri blaðagrein þá hefur því miður ekki tekist að veita því fjármagni í verndun fornleifa og rannsóknir á þeim, sem æskilegt væri. Það er þó ekki vegna þess að ráðuneyti menningarmála hafi ekki barist fyrir málstaðinn í hinum árlegu átökum um fjármagnið við gerð fjárlaga. En það hefur ekki tekist að vekja skilning annarra ráðuneyta eða löggjafans á því hversu mikilvægt það sé að efla lögbundna minjavernd, og því búum við þá stöðu sem ríkir í dag.
Alþingi hefur hins vegar verið duglegt við að veita fé til ýmissa verkefna á sviði minjavörslu, en þá oftast í tengslum við menningartengda ferðaþjónustu.  Það virðist nefnilega vera svolítil árátta okkar Íslendinga að búa til minjar í þeirri von að þær dragi að ferðamenn, en láta okkur litlu skipta að hinar eiginlegu minjar drabbist niður og skemmist.
Það er margt að varast á þessu sviði og margt getur gerst þegar ekki er farið fram af varkárni eða með heildarsýn yfir minjagildi sögustaðar að leiðarljósi. Ég ætla ekki að hleypa mér af stað í þessari umræðu – ég gæti þá haldið áfram í allan dag, af nógu er að taka; ég vil hins vegar óska ykkur góðs málþings og treysti á stuðning ykkar til allra góðra verka á sviði fornleifaverndar á Íslandi í framtíðinni. Verkefnin eru næg, en það verður áfram barátta að tryggja þeim fjármagn og faglegan framgang.
Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta