Stefnumótun um starfsþróun og símenntun kennara
Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra á fundi 13. janúar 2012, um símenntun og starfsþróun kennara með stjórn KÍ,
stjórnum og skólamálanefndum aðildarfélaga og fulltrúum KÍ í stjórnum endurmenntunarsjóða.
Það er mér ánægja að hitta forystufólk KÍ á fundi þar sem mótuð er stefna sambandsins um símenntun kennarastéttarinnar og starfsþróun. Málefni kennarastéttarinnar eru miðlæg í allri umræðu um menntamál. Ég vil, eins og við öll, betra skólakerfi og öflugri menntun í þessu landi. Starfsþróun kennara er lykilatriði í þeirri þróun menntamála sem við viljum sjá á komandi árum.
Eins og þið vitið manna best hefur undanfarin ár staðið lífleg umræða á alþjóðavettvangi um mikilvægi kennarastéttarinnar. Þegar menn leita leiða til að efla kennarastéttina faglega hafa augu manna helst beinst að símenntun og starfsþróun.
Þegar rætt er um símenntun kennara eiga menn oft við viðbótar- og framhaldsmenntun, formlega og óformlega, sem kennurum stendur til boða að loknu formlegu kennaranámi til starfsréttinda. Í umræðum undanfarin ár hefur þó einkum verið fjallað um símenntun kennara sem ævimenntun; stöðuga starfsþróun, sem er fjölbreytt og einstaklingsbundin, en skipta má í nokkur stig.
Sumir ganga svo langt að segja að fyrsta stig kennaramenntunar hefjist áður en eiginleg formleg grunnmenntun hefst. Allir ganga í skóla og kynnast kennurum og starfsháttum þeirra sem nemendur. Sú reynsla er misjöfn, en hún hefur alltaf áhrif á hugmyndir manna um starf kennara og viðhorf til starfsins og stéttarinnar. Hver man ekki eftir uppáhalds kennaranum sínum? - Þessi reynsla mótar ótvírætt áhuga og hugmyndir þeirra sem síðan ákveða að mennta sig til kennarastarfa.
Næsta stig í símenntun eða starfsþróun kennara er grunnmenntunin sjálf. Þar öðlast kennaraefni innsýn í þau fræðasvið sem kennarastarfið hvílir á og fá hagnýta reynslu af starfsvettvangi kennarans frá sjónarhóli fagstéttarinnar. Með lögum um menntun og ráðningu kennara sem Alþingi samþykkti árið 2008 og tóku gildi sl. haust er einmitt leitast við að lengja og efla grunnmenntun kennara.
En kennaramenntun lýkur ekki með grunnmenntun stéttarinnar. Réttara væri að segja að raunveruleg fagmenntun stéttarinnar hefjist að loknu grunnnámi og standi síðan alla starfsævi kennarans. Í því ferli geta verið fjölbreyttar leiðir og mörg og ólík stig, allt eftir sérhæfingu kennarans, áhugasviðum og starfsvettvangi. Margar þjóðir hafa t.d. skilgreint sérstakt leiðsagnartímabil fyrir nýja kennara í upphafi starfsferils. Ekki er óalgengt að leiðsagnartímabilið standi 1-2 ár og ljúki jafnvel með formlegu kennsluréttindaprófi. Hugmyndir hafa verið hérlendis um slíkt leiðsagnartímabil nýrra kennara og jafnvel gerðar tilraunir í þá átt. Formlega hefur þó ekki verið skipulagt slíkt stig kennaramenntunar hérlendis enn sem komið er, en hugmyndin er vitanlega að brúa betur bilið milli kennaramenntunar og nýs veruleika kennarans á framtíðar starfsvettvangi.
Símenntun kennara getur hvort heldur sem er verið formleg; t.d. nám sem veitir prófgráður eða aukin starfsréttindi; eða óformleg; þ.e. fjölbreytt nám kennara, t.d. á styttri námskeiðum, ráðstefnum, í leshringjum, könnunum – nám sem miðað er við einstaklinga eða kennarahópa, og sem ætlað er að styrkja að mæta áhuga og þörf kennara til að þróa starfshæfni sína.
Þegar ég kom til starfa í mennta- og menningarráðuneytinu voru málefni kennarastéttarinnar mér hugleikin og það eru þau enn. Ný löggjöf um alla meginþætti menntakerfisins hefur verið samþykkt á undanförnum árum, m.a. um skólastigin öll og um menntun og ráðningu kennara. Ég geri mér grein fyrir því eins og fleiri að frómar óskir í lögum um öflugt skólakerfi og betri menntun þjóðarinnar eru lítið annað en orðin tóm ef fagfólkið og sérfræðingarnir í menntakerfinu leggjast ekki á árarnar til að breyta því sem breyta þarf og varðveita það sem vernda þarf í skólakerfinu. Ég vil því enn vinna þétt með kennurum og stjórnendum í menntakerfinu að því að móta þá menntastefnu sem mörkuð hefur verið í löggjöf síðustu ára og birtist skýrast í nýjum aðalnámskrám fyrir framhaldsskóla, grunnskóla og leikskóla.
Sú einstaklingsbundna starfsþróun hvers kennara, sem þeir öðlast í símenntun sinni og með faglegu sjálfstæði, þarf að fléttast saman við þróun skólakerfisins og mótun menntastefnu þjóðarinnar. Eitt meginviðfangsefni dagsins í dag er að skýra þessi tengsl starfsþróunar kennara og menntastefnu þjóðarinnar. Þegar ég skoða dagskrá þessa fundar og lít yfir salinn og það mannval sem hér situr kviknar von um að við séum komin nokkuð áleiðis í að þróa þessi tengsl. Um leið geri ég mér grein fyrir að ýmislegt þarf að skýra og margt þarf að lagfæra í símenntun kennara.
Í mars 2009 setti ég nefnd til að „að fjalla um mögulega endurskipulagningu endurmenntunar kennara í ljósi nýrra laga um leik-, grunn- og framhaldsskóla, laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda og væntanlegra breytinga á skipulagi kennaramenntunar.“
Í öðru lagi var nefndinni falið „að huga að samfellu í skólastarfi þar sem eitt skólastig tekur við af öðru, nánari tengingu endurmenntunartilboða við almenna kennaramenntun og möguleikum kennara á að sækja endurmenntun á fagsviði.“
Í þriðja lagi var óskað tillagna um heildstæða „útfærslu á endurmenntun sem nýtist kennurum á öllum skólastigum.“
Í nefndinni sátu fulltrúar kennarasamtakanna, háskólanna, Sambands sveitarfélaga og ráðuneytisins. Í skýrslu nefndarinnar, frá desember 2010, eru niðurstöður og tillögur um næstu skref. Nefndin setur meginniðurstöður sínar fram á fjórum aðgreindum sviðum, sem þó skarast víða. Þau eru:
- Þarfagreining og stefnumótun
- Viðhorf og verklag
- Skipulag og framkvæmd
- Símenntun þvert á skólastig.
Ýmsar gagnlegar upplýsingar koma fram í skýrslunni um símenntun kennara og framkvæmd hennar. Fram kemur að skilgreining símenntunar er óljós og framkvæmd hennar hefur breyst nokkuð á síðustu árum. Breytingarnar urðu e.t.v. mestar á grunnskólastiginu í kjölfar flutnings grunnskólanna til sveitarfélanna. Umgjörð símenntunar er mismunandi á skólastigunum þremur. Leikskólakennarar hafa fábreyttust tækifæri og þar virðist símenntunarkerfið veikast. Grunnskólakennarar búa við mjög dreifstýrða og brotakennda símenntun. Framhaldsskólakennarar hafa viðhaldið og þróað miðlægt kerfi símenntunar í góðu samstarfi Félags framhaldsskólakennara, ráðuneytisins og háskóla, sem mynda Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara (SEF) og nota Endurmenntun HÍ sem umsýslustofnum. Þeir hafa úr hlutfallslega mestu fjármagni að spila. Í skýrslu nefndarinnar kemur skýrt fram að símenntunar- og starfsþróunarkerfi kennara er ógagnsætt. Ekki er hægt að finna á einum stað upplýsingar um tilboð og framkvæmd símenntunar og erfitt er að glöggva sig á fjármögnun og streymi fjármagns í kerfinu. Sjóðir sem kosta og styrkja símenntun og starfsmenntun kennara eru dreifðir og ósamstæðir.
Niðurstöður nefndarinnar eru settar fram sem markmið, leiðir og tillögur um næstu skref. Lagt er til að mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, háskólarnir og kennarasamtökin gefi annars vegar út viljayfirlýsingu um samvinnu og þróun samstarfsvettvangs sem kortleggi þá símenntun kennara sem nú á sér stað og leggi línur um stefnumótun hennar til framtíðar. Hins vegar verði gerð viljayfirlýsing um samvinnu um símenntun kennara og þróun sameiginlegrar upplýsingagjafar á vefsvæði.
Á grundvelli þessarar skýrslu var stofnuð í júní sl. Samstarfsnefnd um símenntun/starfsþróun kennara. Hún fæst við símenntun og starfsþróun á öllum skólastigum neðan háskólastigs. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Kennarasamband Íslands, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa gert með sér samkomulag sem birtist í sérstakri viljayfirlýsingu um samstarf á sviði símenntunar sem þið þekkið sjálfsagt öll.
Helstu verkefni samstarfsnefndarinnar verða þessi:
- Að samræma og flokka upplýsingar um símenntunartilboð fyrir kennara og koma á laggirnar upplýsingaveitu um framboð símenntunar fyrir kennara.
- Að setja fram sameiginlegan skilning aðila á því hvað felst í símenntun/starfsþróun kennara og vinna að því að auðvelda kennurum á mismunandi skólastigum að sækja sömu símenntun/starfsþróun, að sækja sameiginleg námskeið, ráðstefnur og þróunarverkefni
- Vinna við að greiða leið kennara til að nýta sér námsframboð háskólanna samhliða vinnu.
- Að ræða þróun samræmdra aðferða við skráningu starfsþróunar
Samkomulagið er um vinnu að fyrrgreindum málefnum í eitt ár, frá 1. október 2011 til 30. september 2012 og ráðinn hefur verið starfsmaður í 50% starf til að vinna með stýrihópi og samstarfsnefnd. Allir aðilar samkomulagsins leggja fé af mörkum til starfsins.
Að frumkvæði samstarfsnefndarinnar hyggst ég funda með stýrihópi hennar nú í ársbyrjun um stefnu í símenntun og starfsþróun kennara, helstu verkefni framundan og fjármagn til þeirra. Vænti ég góðs af þessu samstarfi.
Ég óska ykkur góðs gengis á þessum fundi Kennarasambands Íslands hér í dag, sem ég veit að verður gagnlegur áfangi á þeirri vegferð sem við förum saman á næstu misserum.