Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. janúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

"Góð myndlist opnar augu okkar"

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við opnun sýningarinnar „Í afbyggingu“ 13. janúar 2012 í Listasafni Íslands.   

Listasafn Íslands
Listasafn Íslands

Sem endranær var það mikill viðburður þegar íslenski sýningarskálinn á tvíæringnum í Feneyjum var opnaður í byrjun júní á síðasta sumri, í borginni þar sem listaheimurinn kemur saman annað hvert ár til að fagna því sem þykir áhugaverðast í myndlistinni á hverjum tíma.
Ísland hefur tekið þátt í Feneyjatvíæringnum um langt árabil eða allt frá árinu 1960, þó að ekki hafi verið um alveg samfellda þátttöku að ræða. Þátttaka í listsýningum og öðrum menningarviðburðum er jákvæð leið til samstarfs með öðrum þjóðum á alþjóðavettvangi og þátttaka Íslands í Feneyjatvíæringnum hefur á síðustu árum vakið verðskuldaða athygli og sannar að okkar listalíf stendur listalífi annarra þjóða fyllilega að sporði.
Feneyjatvíæringurinn hefur þannig öðlast fastan sess í íslensku listalífi og annað hvert ár fylgjast landsmenn náið með upphafi þessarar miklu alþjóðlegu myndlistarveislu. Hin síðari ár hefur hópur íslenskra listunnenda farið til Feneyja til að vera við opnun hátíðarinnar og fagna íslenska fulltrúanum á þessum alþjóðlegasta vettvangi myndlistarinnar. Það var ljóst að menn voru spenntir að sjá hvað þau Libia Castro og Ólafur Ólafsson, fulltrúar Íslands að þessu sinni, hefðu fram að færa – og nú fá þeir sem heima sátu á liðnu sumri að sjá það með eigin augum.
Sýning þeirra Libiu og Ólafs hefur hlotið yfirskriftina „ Í afbyggingu“, sem vísar til þeirra efnistaka, sem þau hafa tamið sér í verkefnum sínum hér heima og víða erlendis. Þau nýta sér fjölbreytta miðla innsetninga, myndbanda, gjörninga og samþættingar tónlistar, hljóðs og myndar í öllum hugsanlegum tegundum rýmis til að koma erindi sínu til skila. Oft renna verk þeirra út fyrir hið hefðbundna sýningarrými og hafa þannig á hrif á borgarlandslagið og stofna til umræðu við samfélagið í heild sinni. Það hefur lengi verið eitt helsta einkenni á listsköpun þeirra að í henni felast áleitnar spurningar um samfélagið og þau draga fram, sundurgreina og undirstrika ýmsa þætti þess, sem hafa verið taldir til hins almenna og viðurkennda, en vekja nýjar spurningar við nýjar aðstæður. Í ljós atburða síðustu ára er eðlilegt að í þessari sýningu hafa þau Libia og Ólafur beint sjónum sínum að þeim efnahagslegu og pólitísku áherslum, sem ríktu hér á landi og víðar til skamms tíma og varpa sínu eigin, listræna ljósi á þær aðstæður sem hafa komið upp í kjölfarið.
Þegar vel tekst til eru listamenn oftar en ekki í hlutverki litla barnsins í sögu H.C. Andersen um Nýju fötin keisarans – þeir spyrja óþægilegra spurninga eða setja fram fullyrðingar, sem enginn hefur haft orð á, en margir eiga innra með sér, þegar nánar er að gáð. Libia Castro og Ólafur Ólafsson hafa með fjölmörgum verkefnum sínum í gegnum árin tekið að sér þetta hlutverk. Fullyrðingar eins og „Landið þitt er ekki til“ og hvatningin „Ekki trúa sannleikanum“ veita hverjum þeim sem er opinn og leitandi í hugsun nýja og áður óþekkta möguleika til að meta umhverfi sitt og samfélag, og það er gjarna tekið sem eitt helsta merki góðrar listar að hún veiti þeim sem hennar nýtur slíka möguleika. Góð myndlist opnar augu okkar og þegar vel er gert, þá er eftir tekið.

Góðir gestir,
Nú fáum við að sjá með hvaða hætti þau Libia Castro og Ólafur Ólafsson takast á við samtímann, í framhaldi þess að myndlistarheimurinn kynntist þessari sýn þeirra í Feneyjum á síðasta ári. Með þessum orðum opna ég sýninguna     „Í afbyggingu“  hér í Listasafni Íslands.
Njótið vel.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta