Heimabyggðin mín
Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við verðlaunaafhendingu á vegum samtakanna Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni.
Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við verðlaunaafhendingu á vegum samtakanna Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni:
Ágætu verðlaunaþegar, aðrir gestir.
Ég óska verðlaunaþegum í þessari ritgerðasamkeppni innilega til hamingju svo og aðstandendum verkefnisins sem Landsbyggðavinir í Reykjavík og nágrenni standa fyrir.
Samtökin Landsbyggðavinir eru ekki gömul, stofnuð árið 2003, og fagna því 10 ára afmæli á næsta ári.
Þetta er merkilegt samstarfsverkefni borgar og byggðar, Heimabyggðin mín, og höfðar til ungmenna um land allt. Markmið verkefnisins er að örva áhuga og framtak unga fólksins til að láta sig eigin málefni skipta, koma þeim á framfæri á hófsamlegan hátt og fylgja málum eftir. Verkefnið varðar unglinga, heimabyggð þeirra og lýðræði í starfi og miðar að því að unglingarnir gaumgæfi málefni byggðar sinnar, velti fyrir sér framtíðarmöguleikum hennar og geri sér grein fyrir hvað þeir geti lagt af mörkum í því efni. Tilgangurinn er að það efli bjartsýni og styrki sjálfsmynd fólksins og þar með framgang atvinnu- og menningarlífs á hverjum stað og samfélagsins í heild.
Verkefnið er því vel til þess fallið að hvetja ungt fólk til þess að huga að sjálfum sér og umhverfi sínu á jákvæðan hátt og velta því fyrir sér hvað það er sem skiptir máli og hvað ekki.
Hvernig gerum við börn að virkum lýðræðisþegnum? Hvernig kennum við þeim að bera virðingu fyrir umhverfi sínu? Hvernig gerum við þau að góðum manneskjum?
Síðastliðið vor og sumar undirritaði ég nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þær höfðu verið í vinnslu í nokkuð langan tíma og voru búnar að fara í gegnum langt umræðu- og umsagnaferli.
Námskrárnar byggja á lögum um leikskóla, lögum um grunnskóla og lögum um framhaldsskóla sem öll voru sett á árinu frá 2008.
Í þeirri nýju menntastefnu sem birtist í aðalnámskrá er byggt á sex grunnþáttum menntunar sem gerðir hafa verið að leiðarljósi við námskrárgerðina. Þessir grunnþættir eru læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun og heilsu og velferð.
Almenn menntun stuðlar að hæfni einstaklingsins til að takast á við daglegt líf á hverjum tíma. Hún er bæði bundin einstaklingnum sjálfum og samfélaginu. Hvorki einstaklingur né samfélag getur án hins verið.
Grunnþættirnir, sem ég minntist á áðan, eru tilraun til að kortleggja þau svið almennrar menntunar, sem stefna ber að.
Ég sé ekki betur en þessir þættir tengist vel Heimabyggðinni minni.
Við búum í einu landi og allir hlutar þess eru mikilvægir. Við þurfum á öllu okkar unga fólki að halda ef við ætlum að halda áfram að búa í þessu landi með reisn.
Rætt hefur verið um og komið að máli við mig að tími sé kominn til þess að meta verkefnið Heimabyggðin mín og það er vel við hæfi. Ég tek þeirri málaleitan með jákvæðum hug.
Ég óska okkur öllum til hamingju með verkefnið Landsbyggðavini og megi það halda áfram að vaxa og dafna.