„Að skrifa konur inn í söguna“
Ávarp Katrínar Jakobsdóttur á málþingi um hlutdeild og birtingarmyndir kynjanna í sögubókum, sem haldið var í Háskóla Íslands.
Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands efndi til málþings í samvinnu við Jafnréttisstofu, Sagnfræðistofnun og mennta- og menningarmálaráðuneytið um hlutdeild og birtingarmyndir kynjanna í sögubókum. Málþingið, sem bar heitið „Að skrifa konur inn í söguna“, fór fram 10. febrúar 2012 í Háskóla Íslands. Málþingið var haldið til að fylgja eftir þeirri umræðu sem skapaðist í kjölfar rannsóknar Jafnréttisstofu á hlutdeild kvenna í námsbókum í sögu haustið 2011. Hér á eftir fer ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.
„Að skrifa konur inn í söguna“, hlutdeild og birtingarmyndir kynjanna í sögubókum.
Ef við kjósum að líta á Landnámabók sem heimild um upphaf Íslandsbyggðar gæti sagan hljómað svona: Hallveig Fróðadóttir stýrði stóru búi í Noregi á ófriðartímum á 9. öld. Hún frétti af eyju í vestri og sendi mann sinn til að kanna málið ásamt föruneyti. Karlarnir höfðu þar vetursetu og komu síðan til baka. Eftir vandlega íhugun ákvað Hallveig að flytja yfir hafið með fjölskyldu, þræla, vinnufólk og búfénað, matarforða, fatnað og áhöld. Siglt var til Íslands þar sem hún nam land árið 874 á milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út með og hafði aðsetur í Reykjavík. Maki Hallveigar var Ingólfur Arnarson.
Svona er hins vegar ekki sagt frá í Landnámu og eins og kunnugt er stytta af Ingólfi á Arnarhóli en ekki af Hallveigu. Kyn er þó ekki eina breytan hér því hvorki Ingólfur né Hallveig eru persónur sem byggja á traustum heimildum og bæði teljast tilheyra yfirstétt. Kannski væri nærtækara að tala um þrælinn og ambáttina sem komu til Íslands með Náttfara, sem strauk frá Garðari Svavarssyni, sem fyrstu landnemana og fyrsta konan hafi þannig verið nafnlaus ambátt.
Landnáma lýsir atburðum sem gerðust um 250 árum áður en frásögnin var fyrst fest á blað. Ef miðað er við varðveitt afrit bókarinnar getur munurinn numið allt að 400 árum. Þar eru margar konur nafngreindar auk karlanna en Auður djúpúðga er nánast eina kvenmannsnafnið sem ratar á síður námsbóka.
Ýmis önnur dæmi má hins vegar finna í Landnámu. Hérna er til dæmis sagt frá snjöllum verslunarmanni meðal landnámsmanna: „Geirríður hét systir Geirröðar [á Eyri], er átt hafði Björn, son Bölverks blindingatrjónu; Þórólfur hét son þeirra. Þau Geirríður fóru til Íslands eftir andlát Bjarnar og voru hinn fyrsta vetur á Eyri. Um vorið gaf Geirröður systur sinni bústað í Borgardal, en Þórólfur fór utan og lagðist í víking. Geirríður sparði ekki mat við menn og lét gera skála sinn um þjóðbraut þvera; hún sat á stóli og laðaði úti gesti, en borð stóð inni jafnan og matur á.“
Konur gátu þannig verið frumkvöðlar á ýmsum sviðum, en ekki öllum. Þeim var t.d. bægt frá pólitískum völdum og um það á sagan að snúast, valdakerfi og formgerðir fortíðar, til dæmis þær sem leiddu til undirokunar eins kyns á öðru.
Námsbækurnar segja þannig mun meira um valdabaráttu og störf karla en kvenna sem fyrr á öldum unnu meðal annars við vefnað sem var dýrmæt útflutningsvara. Þar höfum við hins vegar dæmi um rannsóknir sem vert væri að greina frá eins og rannsóknir Helga Þorlákssonar á „voðaverkum“ kvenna sem sýna að mikilvægi fátækra kvenna fyrir utanríkisverslun var mikið á fyrstu öldum Íslandssögunnar.
Svo mæti líka nefna það að konur koma ekkert síður til greina en karlar sem skúrkar Íslandssögunnar. Til dæmis Guðrún Eggertsdóttir sem bjó í Saurbæ á Rauðasandi í lok 17. aldar. Sagt er að hún hafi þrautpínt leiguliða sína með svo hárri leigu að þeir lifðu í sárustu fátækt. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að margir leiguliðar hennar hafi ekki einu sinni átt grautarpott til að elda í. Þetta er gott að geta sagt þegar synir mínar spyrja mig til dæmis hvort það séu ekki til neinir kvenbófar eins og einn þeirra gerði um daginn!
Menningarsagan eins og hún birtist í námsbókum fjallar lítið um menningarminjar sem eignaðar eru konum eins og altarisklæði úr Hólakirkju frá miðri 16.öld eftir Helgu Sigurðardóttur og handaverk Sigurlaugar Gunnarsdóttur í Ási sem eru ein helstu listaverk 19. aldar. Hún saumaði skautbúninginn eftir teikningum karlmanns sem getið er fyrir vikið í sögubókum vegna hönnunar á meðan handaverkinu er slepp. Er ekki kominn tími til að við skrifum þessar konur inn í söguna og segjum frá því sem þær lögðu áherslu á? Handaverk á að meta jafnt sem hugverk því það sem skráð hefur verið í bækur um afrek karla eru ekki okkar helstu menningarminjar. Við erum svo heppin að eiga margar minjar um mikla sögu og um þessar mundir má til dæmis sjá kjólasýningu í Þjóðminjasafninu og eru listaverkin merkt þeim sem hönnuðu þau og saumuðu. En þar með er ekki sagt að framlag þeirra til menningar rati á spjöld sögunnar.
Í nýjum aðalnámskrám fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er ný menntastefna skilgreind á grundvelli sex grunnþátta menntunar. Þessir grunnþættir eru: Læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.
Grunnþættirnir eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf skólastiganna þriggja. Einnig er sótt til annarrar löggjafar þar sem finna má ákvæði um menntun og fræðslu í skólakerfinu, svo sem í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það. Þeir byggjast á þeirri hugmynd að ekki geti orðið virkt lýðræði án læsis á hvers konar táknkerfi og samskiptakerfi samfélagsins. Þeir eru einnig byggðir á því að virkt lýðræði þrífist aðeins ef jafnframt er stuðlað að hvers konar jafnrétti milli einstaklinga og hópa í samfélaginu. Mannréttindi allra verða ekki tryggð nema stuðlað sé að heilbrigði og velferð hvers og eins og baráttu gegn mismunun og hvers konar ofbeldi.
Niðurstöður rannsóknar á hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu á miðstigi grunnskóla, sem Jafnréttisstofa birti í haust, sýna að aðgerða er þörf til þess að tryggja megi að námsefni standist kröfur laga og námskráa um að kynjum sé ekki mismunað. Í skýrslunni er bent á dæmi úr námsefni í sögu, sem nú er notað í grunnskólum, þar sem umfjöllun vantar um störf kvenna og framlag þeirra til samfélagsþróunar. Þess er getið að fyrir 40 árum voru gerðar úttektir á lestrarbókum sem leiddu í ljós mjög mismunandi skilaboð til kynjanna. Og að í rannsóknum sem síðar hafa verið gerðar á kennslubókum, meðal annars í sögu, hafi verið bent á að mjög halli á konur, störf þeirra og framlag til samfélagsþróunar. Þessar rannsóknir og úttektir hefðu auðvitað átt að leiða til útgáfu sögubóka sem spegla sögu beggja kynja, allrar þjóðarinnar. Ráðuneytið telur þessar niðurstöður sýna að úrbóta er þörf og hefur farið fram á að Námsgagnastofnun endurskoðaði verkferla um námsefnisgerð og að skoðað verði hvað geti farið úrskeiðis þegar námsbók verður til.
Í 25. gr. grunnskólalaga kemur fram að setja skuli ákvæði um inntak og skipulag náms í jafnréttismálum sem og í öðrum námsgreinum sem taldar eru upp, þar á meðal íslensku og stærðfræði. Í aðalnámskrám kemur fram að leikskólastarf byggist á jafnrétti og að í þeim beri að stuðla að jafnrétti og virkri þátttöku barna í samfélaginu. Grunnskólum er ætlað að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu og ætlast er til þess að nemendur framhaldsskóla skilji hlutverk kyns og kyngervis í samfélaginu. Til þess að ná markmiðum námskránna verða konur, viðhorf þeirra og störf, að sjást í sögubókum til jafns við störf og viðhorf karla.
Um þessar mundir er mennta- og menningarmálaráðuneytið, ásamt menntastofnunum og kennurum, að innleiða nýjar námskrár. Fjallað um námssvið og námsgreinar og leiðir til að ná grunnþáttum menntunar. Jafnréttismál, siðfræði og heimspeki falla undir samfélagssvið og stýrir Páll Skúlason vinnu við greinanámskrá fyrir það. Þar verður meðal annars fjallað um leiðir til þess að ná hæfniviðmiðum um jafnrétti. Námsgagnastofnun stýrir vinnu við þemahefti um grunnþættina sex í menntun og mun gefa þau út. Ritstjóri þemaheftis um jafnrétti í víðum skilningi er Þórður Kristinsson kennari í Kvennaskólanum.
Kvenna- og kynjasaga er tiltölulega ung fræðigrein innan sagnfræðinnar sem hefur þróast mikið á síðustu áratugum. Hér má nefna mörg dæmi, svo sem rannsóknir Agnesar Arnórsdóttur, Auðar Magnúsdóttir, Sigríðar Matthíasdóttur, Erlu Huldu Halldórsdóttur og fleiri. Inga Huld Hákonardóttir skrifaði svokallaða „öðruvísi“ Íslandssögu en þessara rannsókna sér vart stað í námsefni á grunnskólastigi sem hefur endurspeglað mjög hefðbundna sögusýn. Kannski er það kjarni málsins – sagnfræðingar, ekki síst konur, hafa með rannsóknum sínum svo sannarlega varpað nýju ljósi á sögunni en mikilvægt er að þessar rannsóknir skili sér inn í námsbækurnar þannig að unga fólkið komist í kynni við ólíkar nálganir á Íslandssöguna og mannkynssöguna og öðlist þannig nýjan skilning á sögu og samfélagi. Þessar rannsóknir sem ég nefni hafa meðal annars snúist um menningarlega mótun kynhlutverka og valdastöðu kynjanna. Greining á samhengi sjálfsmyndar og samfélagsstöðu ásamt áleitnum spurningum um samspilið milli almennrar sögulegrar þróunar, þjóðfélagslegrar stöðu kynjanna og samfélagslegra hugmynda um karlmennsku og kvenleika ættu að hafa áhrif á hvernig sagan er sögð.
,,Öll saga er saga samtímans” – er fullyrðing franska fræðimannsins Michel Foucault. Þannig minnir hann á eðli og gildi sagnfræðinnar og sagnfræðilegra rannsókna. Við getum í raun aldrei vitað hvað gerðist á fyrri tíð í reynsluheimi þeirra sem lifðu og hrærðust á fyrri söguskeiðum, en við getum reynt að greina samhengi atburða, hugmynda, aðstæðna og persóna sem okkur finnst mikilvægt að skilja. Máli skiptir að geta lagt mælistiku sögunnar á atburði og hugmyndir líðandi stundar. Nauðsynlegt er að leita að hliðstæðum í sögunni og greina samhengi fortíðar, samtíðar og framtíðar. Þannig skiljum við betur okkar tíma og okkar samfélag.
Að lokum vil ég segja að mínu mati skiptir mestu að rannsóknir skili sér inn í námsbækurnar og þar með held ég að við fáum breytta sögusýn þar sem ekki aðeins er sagt frá konum heldur líka þeim þorra karla sem útilokaður er frá hinni hefðbundnu sögusýn. Þannig fá nemendur þá undirstöðu sem þeim er nauðsynleg til að skilja samfélag samtímans og geta tekið þátt í því á virkan lýðræðislegan hátt þar sem réttur og viðhorf allra eru virt, karla og kvenna.