Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. apríl 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Samstarf á sviði minjavörslu

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á vorfundi Þjóðminjasafns Íslands, 13. apríl 2012, með fulltrúum byggða- og minjasafna af öllu landinu.

Vorfundur höfuðsafna 2012

Góðir áheyrendur

Nú er að hefjast þriðji vorfundur Þjóðminjasafns Íslands með fulltrúum byggða- og minjasafna af öllu landinu.

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast úr hæfilegri fjarlægð með sífellt auknu samstarfi safna á sviði minjavörslu á undanförnum árum. Það samstarf hefur birst almenningi í ýmsum samstarfsverkefnum á sviði fræðslumála, skráningarmála, í samstarfi um sýningar, millisafnalánum og í faglegu starfi af ýmsu tagi. Það er ljóst að slíkt samstarf á eftir að aukast á komandi árum og bæta varðveislu menningarminja, þjóðinni og gestum hennar til fræðslu og skemmtunar.

Vorfundir Þjóðminjasafnsins eru kjörinn vettvangur fyrir söfn á þessu sviði til að bera saman bækur sínar. Af dagskrá fundarins að þessu sinni má sjá að áhersla verður lögð á að greina stöðu mála og með hvaða hætti aukin samvinna getur orðið til að efla starfsemi þeirra aðila er vinna á þessu sviði. Ég vænti þess að hér verði fluttar margar fróðlegar kynningar á fjölbreyttum verkefnum, sem vísað er til í dagskrá fundarins.

Á fundum síðustu ára hefur óhjákvæmilega verið rætt um breytingar á lagaumhverfi á þessu sviði og annað er lýtur að starfsumhverfi safna.  Þær lagabreytingar hafa tekið lengri tíma en ætlað var, en nú eru í höfn þrír áfangar af fjórum, ef svo má segja. Á liðnu ári voru samþykkt á Alþingi ný safnalög, ný lög um Þjóðminjasafn Íslands og ný lög um skil menningarverðmæta til annarra landa; þá hefur Alþingi til afgreiðslu frumvarp til laga um menningarminjar, og verði þau samþykkt fyrir þinglok má segja að heildarpakkinn, sem beðið hefur verið eftir, sé kominn. Fjallað verður nánar um þessi lög hér á eftir, en ég vil minna á að með þeim sjáum við loks fyrir endann á margra ára ferli við endurskoðun gildandi laga, þar sem leitað hefur verið álits fjölda aðila auk þess sem almenn kynning og samráð við hagsmunaaðila hefur haft veruleg áhrif á gerð þeirra, vonandi til hins betra. Stefnt er að því að öll þessi lög taki gildi um næstu áramót, og verður fróðlegt að meta að nokkrum árum liðnum reynsluna af þeim breytingum sem í þeim felast.

Orðið hefur önnur mikilvæg breyting á starfsumhverfi safna á þessu ári vegna breytinga sem urðu í fjárlögum ársins á veitingum styrkja til ýmissa verkefna, m.a. á sviði menningarmála. Fjárlaganefnd Alþingis hafði um árabil gert tillögur um bein framlög til verkefna á fjárlögum, og námu slík framlög orðið oft hundruðum milljóna króna. Nú varð að samkomulagi að leggja þetta fyrirkomulag af, en að beina umræddu fé til viðeigandi sjóða, menningarsamninga eða til ráðuneyta til að tryggja eftir því sem kostur er að faglega væri staðið að úthlutun framlaga. Þessi breyting þýddi m.a. að framlag til safnasjóðs jókst um 30% milli ára, og er það fagnaðarefni á tímum almenns samdráttar í fjárveitingum ríkisins á öllum sviðum. Það er mín skoðun að slíku fé til verkefna á sviði menningarmála eigi að beina í auknum mæli inni í faglegt úthlutunarferli sjóðanna.

Að lokum vil ég nefna að innan ráðuneytisins er nú unnið að mótun sérstakrar menningarstefnu. Oft hefur verið bent á að í reynd hafi menningarstefna stjórnvalda legið fyrir alla tíð, og hafi komið fram í lögum, reglugerðum og fjárveitingum á þessu sviði. Engu að síður tel ég rétt að slík stefna verði skilgreind sérstaklega, þar sem staðan verði metin, en einnig verði litið til framtíðar og gerðar nokkrar áætlanir um hvert skuli stefna, án þess þó að þar verði um að ræða langa óska- eða loforða lista um fé og framkvæmdir gagnvart þeim fjölmörgu aðilum sem starfa á menningarlista í landinu.

Ég vænti þess að þegar fyrstu drög að þessu skjali liggi  fyrir á næstu mánuðum og að einnig geti skapast frjó og jákvæð umræða um þessi mál, sem geti orðið grundvöllur góðar samstöðu um hvert skuli haldið á þessum sviðum á komandi árum.

Það eru því næg viðfangsefni framundan á sviði menningarmála, og spennandi tímar framundan fyrir söfn landsins. Söfnin gegna veigamiklu hlutverki í sjálfsmynd þjóðarinnar og ennfremur í þeirri mynd sem við sínum heiminum.

Ég vil því óska ykkur góðs gengis við þau verkefni sem verða tekin fyrir á þessum vorfundi Þjóðminjasafns Íslands 2012 sem og í framtíðinni. 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta