Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra, á málþingi í tengslum við stofnun sameinaðrar stoðstofnunar á Austurlandi
Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á málþingi í tengslum við stofnun sameinaðrar stoðstofnunar á Austurlandi, 8. maí 2012 á Egilsstöðum.
Ágætu málþingsgestir
Sá ánægjulegi viðburður varð í dag að stofnuð var sjálfseignastofnunin Austurbrú ses. Austurbrú varð til við sameiningu Þekkingarnets Austurlands (ÞNA), Þróunarfélags Austurlands (ÞFA), Menningaráðs Austurlands (MRA) og Markaðsstofu Austurlands (MA) auk þess að taka við starfsemi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA).
Með þessu eru Austfirðingar að taka að sér hlutverk frumherjans, ríða fyrstir á vaðið með því að leita nýrra leiða til að takast á við vandasöm viðfangsefni – en það hafa þeir svo sem gert áður. Að þessu sinni er leitað nýrra leiða að auka samþættingu, bæta þjónustu og auka skilvirkni og samstarf á sviðum nýsköpunar, á sviðum menntunar, starfsþróunar, starfsfræðslu, menningar- og listalífs og skapandi greina til heilla fyrir alla slíka starfsemi á Austurlandi.
Markmið Austurbrúar ses. er að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga og stofnana á Austurlandi og veita samræmda þjónustu í góðum tengslum við atvinnulífið, menntastofnanir og alla menningarstarfsemi í fjórðungnum.
Um er að ræða fyrstu stofnun sinnar tegundar á Íslandi og er stofnun hennar í góðum takti við stefnumótun ríkisins um Ísland 2020. Með henni hefur vonandi orðið til öflugur vettvangur fyrir samstarf og jafnvel frekari samþættingu á þjónustu sveitarfélaganna, vettvangur sameiginlegrar stefnumótunar í málefnum landshlutans á öllum sviðum og um leið öflugur samskiptaaðili við ríkisvaldið.
Austurbrú er ætlað að vera í forsvari fyrir þróun atvinnulífs, samfélags, stjórnsýslu, háskólanáms, símenntunar, rannsókna, þekkingar- og menningarstarfs á Austurlandi. Stofnunin mun í tengslum við Sóknaráætlun 2020 fyrir landshlutann leggja sérstaka áherslu á stefnumótun og forgangsröðun verkefna í atvinnumálum, velferðarþjónustu, menntamálum og samgöngumálum.
Gott samstarf og traust samskipti eru lykillinn að því að hægt sé að breyta rannsóknum og þróunarvinnu í raunverulega nýsköpun, vöruþróun, viðskiptatækifæri og samfélagsumbætur sem leiða til aukinnar velferðar og þeirrar lífsánægju íbúanna, sem er markmið allrar slíkrar vinnu. Öflug samskipti og farsælt samstarf þeirra sem vinna að slíkum markmiðum eru þannig jafn mikilvæg og fjárfestingar í rannsóknum og þróun. Án þess fyrrnefnda kann hið síðarnefnda að vera unnið fyrir gýg, því að það er vel þekkt að forsenda skilvirks nýsköpunarkerfis í þekkingarsamfélagi nútímans er flæði þekkingar á milli fyrirtækja, háskóla og rannsóknastofnana.
Það endurspeglar vel þetta mikilvægi samstarfs og góðrar samþættingar kraftanna að yfir þrátíu aðilar koma að stofnun Austurbrúar. Meðal þeirra ber að nefna öll sveitarfélögin á Austurlandi, alla háskólar landsins, helstu fagstofnanir, stéttarfélög og hagsmunasamtök atvinnulífsins, framhaldsskóla og þekkingarsetur á Austurlandi. Þetta er öflugur hópur, sem getur látið margt gott af sér leiða og um leið skapað fyrirmynd fyrir aðra landshluta um hvernig sé best að gera hlutina. Stofnun Austurbrúar er fyrsti áfanginn í endurskoðun á stofnanaumhverfi landshlutans, og stjórnarráðið horfir ákveðið til þess að fleiri verkefni muni renna til hinnar nýju stofnunar í framtíðinni.
Það er vel þekkt og viðurkennt í öllum fræðunum að flæði tækni og upplýsinga á milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana er forsenda nýsköpunar. Nýsköpun og tækniþróun er árangur flókinna tengsla þátttakenda í kerfinu þar sem þátttakendur eru m.a. fyrirtæki, háskólar og opinberar rannsóknarstofnanir. Með þeirri víðtæku samþættingu verkefna, sem stofnun Austurbrúar felur í sér, er stigið stórt skref í þátt átt að tryggja þetta flæði eins vel og kostur er hér á Austurlandi.
Byggja þarf upp rannsóknir, nám og samfélagstengsl í háskólum í samræmi við skýra nýsköpunarstefnu, enda er sterkt og sveigjanlegt háskólasamfélag nauðsynlegur bakhjarl og uppspretta nýsköpunar, því þangað sækja frumkvöðlar öðru fremur faglegan stuðning og mikilvæga þjónustu. Háskólanetið er því mikilvægur liður í því samhengi sem hér um ræðir, og öflugt háhraðanet skapar ómæld tækifæri fyrir þá sem sækja nám á háskólastigi frá sinni heimabyggð auk þess sem sérfræðiþekking stofnanna á landsbyggðinni getur nýst í ríkara mæli til kennslu háskólastigi fyrir tilstilli tækninnar.
Því hefur verið haldið fram að varasamt sé að flokka atvinnuvegina sem nýja og gamla, framsækna eða úrelta, því að það sem úrslitum ráði um árangur í atvinnulífinu og samkeppnisstöðu sé miklu frekar hvernig staðið er að hlutunum heldur en endilega í hvaða atvinnuvegi er unnið. Upplýsinga- og þekkingarsamfélagið tekur til allra atvinnugreina, bæði þeirra hefðbundnu og þeirra nýju. Þekkingin er og verður um ókomna framtíð mikilvægasta auðlind hverrar þjóðar og mikilvægi náttúruauðlinda, peninga og fólks felst aðallega í þeim skorðum sem þær setja nýtingu þekkingarinnar. Því er það ef til vill úrelt fyrirkomulag að binda samkeppnisjóði eða stoðkerfi atvinnulífs ákveðnum atvinnugreinum, því það er samþættingin og heildaráhrif hverrar nýjungar, sem skiptir mestu fyrir mikilvægi hennar.
Á málþingi þessu verður áhersla lögð á umræðu um svæðisbundna stefnumótun og áætlanagerð, og þar skiptir miklu máli að byggt sé á svæðisbundnum styrkleikum eða sérkennum. Aukin forysta landshlutasamtaka og forgangsröðun heimamanna við slíka vinnu er í anda sóknaráætlunar landshluta. Miklu skiptir að þeir sjálfir taki ákvarðanir um hvernig skuli nýta tækifærin, því að frumkvæði og sóknarvilji íbúa ásamt aukinni skilvirkni í samskiptum ríkis og sveitarfélaga um málefni landshlutans eru hvorutveggja lykilatriði til aukins árangurs.
Góðir gestir,
Með stofnun Austurbrúar og því samræmingarferil sem gerði þá stofnun mögulega eru íbúar Austurlands að skapa sér tækifæri til að bæta undirstöður sjálfbærrar þróunar með auknum stuðningi við nýsköpun, frumkvöðlastarf, skapandi viðskiptaumhverfi, lítil fyrirtæki, auðlindastjórnun o.s.frv. Hvernig til tekst með að móta, þróa og framkvæma aðgerðir sem stuðla að árangri til langs tíma í bættum búsetuskilyrðum með hagnýtingu fyrirliggjandi aðstæðna til nýsköpunar og þróunar á Austurlandi, hvort sem litið er til þeirra möguleika sem umhverfið, auðlindirnar eða félagslegir þættir veita er nú undir Austfirðingum komið. Með stofnun Austurbrúar hafið þið stigið stórt og markvert skref í rétta átt. Gangi ykkur sem best með framhaldið.
Takk fyrir.