Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við fyrstu skóflustungu að 5. áfanga bygginga Háskólans á Akureyri
Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við fyrstu skóflustungu að 5. áfanga bygginga Háskólans á Akureyri 9. júní 2012.
Ágæti rektor og aðrir gestir
Það er mér mikið ánægjuefni að taka fyrstu skóflustunguna, og þá fyrstu sem ég tek í embætti, að fimmta áfanga að háskólabyggingu Háskólans á Akureyri.
Við sem erum saman komin hér í dag lifum á tímum aðhalds og ígrundunar í fjármálum. Það þarf að horfa í hverja krónu og spá í hvernig henni skuli varið svo farsælast sé fyrir þjóðina. Að fjárfesta í menntun er ætíð vænlegasti kosturinn , enda verið að fjárfesta til framtíðar, ekki bara fyrir okkur heldur einnig komandi kynslóðir.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Háskólinn á Akureyri tók til starfa í lánshúsnæði og með á þriðja tug nemenda. Í dag er skólinn flaggskip æðri menntunar á Norðurlandi, - skóli sem skýrt hlutverk og sterka tengingu við nærsamfélag sitt. Hér við Sólborg hefur hann sitt varnavígi og hefur með fimmta áfanga er enn bætt við aðstöðu hans til að veita menntun og rannsóknum forstöðu hér á Akureyri. En ég vil ennfremur minna viðstadda á að hér er ekki aðeins verið að reisa hús fyrir Norðlendinga heldur alla þá sem leggja stund á háskólanám við opinbera háskóla hér á landi. Því Háskólinn á Akureyri er virkur þátttakandi í neti opinberra háskóla, sem starfar samkvæmt stefnu sem ég setti fyrir einum tveimur árum.
Eitt af markmiðunum með þeirri stefnu er að byggja upp traust net háskólastofnana til að tryggja að nemendur eigi ætíð völ á því besta sem býðst í námi við opinbera háskóla hér á landi, óháð því hvar þeir eru skráðir til náms. Hús háskólans á Ákureyri er því einnig byggt til að tryggja að þeir nemendur sem stunda nám við hina skólana þrjá sem eru aðilar að netinu geti komið til Akureyrar og notið þess að taka hér áfanga sem þeir kjósa við þennan skóla.
Góðir gestir – hér er mikið verk fyrir höndum, heilir 730 fermetrar sem eiga hér að rísa, og því hef ég aðeins hugsað mér að taka eina skóflustungu en láta fagmenn um framhaldið.