Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. september 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Lærum hvert af öðru - málþing í Flensborg

Kæru málþingsgestir

Skóli á að vera hreyfiafl í samfélaginu. Til þess var hann stofnaður. Íslenski almenningsskólinn varð til og  þróaðist á félagslegum og pólitískum umbrotatímum. Hann var nauðsynlegur þáttur í þeirri endurnýjun efnahagskerfis, félagsgerðar og hugmyndafræði sem við köllum nútímavæðingu.  Þessar breytingar hér á landi voru að sjálfsögðu hliðstæðar breytingum sem áttu sér stað á Norðurlöndunum og öðrum nágrannalöndum, enda voru fyrirmyndir og hugmyndir óspart sóttar þangað.

Þeir aðilar sem stóðu að og leiddu stofnun almenningsskólans og uppbyggingu hans gerðu beinlínis ráð fyrir að hin nýja stofnum væri pólitískt og félagslegt hreyfiafl í nýju samfélagi. Nýi almenningsskólinn átti ekki eingöngu að fræða um nýtt samfélagsform og hugmyndir nútímasamfélagsins, heldur beinlínis stuðla að menntun þegnanna þannig að þeir gætu skilið hið nýja samfélag og tekið þátt í mótun þess og uppbyggingu.

Það er skemmtilegt að minnast þess að umræðan um gildi menntunar í nýju samfélagi átti sér ekki síst stað hér í Hafnarfirði. Flensborgarskólinn er með elstu starfandi skólum á Íslandi. Hann var upphaflega stofnaður sem barnaskóli árið 1877, en var breytt í alþýðu- og gagnfræðaskóla fimm árum síðar eða árið 1882. Í Flensborgarskóla var stofnað til fyrstu formlegu kennaramenntunar hérlendis 1891. Þegar skoðaðar eru skýrslur héðan úr Hafnarfirði frá þessum tíma kemur glöggt fram sama sjónarmið og annarsstaðar á landinu um mikilvægi almenningsskólans að útbreiða nýja þekkingu, nýjar hugmyndir og nýja hæfni sem auðveldaði fólki að taka þátt í nútímavæðingunni og þeirri samfélagsbyltingu sem hafin var.

Almenningsskólinn tók stórstígum breytingum á 20. öld. Forsendur skólahalds eins og þær birtast í stefnumótun, löggjöf, námskrám og skýrslum eru þó enn þær sömu: Lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og  jafnrétti þegnanna. Framsetning þessara grunnþátta menntunar og skólahalds hefur þó breyst og þróast í takt við samfélagsbreytingar og nýja þekkingu. Hugmyndir um lýðræði og jafnrétti hafa breyst, einnig hugmyndir um menntun, þekkingu og hæfni.

Mörg stærstu vandamál samtímans eru þess eðlis að þau munu lenda með auknum þunga á komandi kynslóðum. Félagsleg vandamál verða ekki greind frá efnahagslífi og umhverfismálum. Loftslagsbreytingar af manna völdum, aukinn ágangur á auðlindir jarðar, ósjálfbær neysla og lifnaðarhættir eru dæmi um þá hættulegu stefnu sem viðgengist hefur víða um heim að eðlilegt sé að ganga á auðlegð heimsins og taka ótæpilega að láni frá komandi kynslóðum. Þessum hugsunarhætti þarf að breyta og ein leið til þess er að auka meðvitund unga fólksins um umhverfi sitt og hvernig við stuðlum að sjálfbærri þróun. Við þurfum að gera nemendur dagsins í dag hæfa til að takast á við samfélag framtíðar.

Áherslan á hæfni nemenda er í takt við breyttar áherslur í menntamálum víðs vegar um heiminn. Hún segir okkur að það er ekki nóg að einblína á hvaða námsgreinar eru kenndar eða hvað nemendum er kennt innan hverrar námsgreinar; heldur hvernig þeir geta nýtt þekkingu sína og leikni, yfirfært og tengt við daglegt líf, störf og kröfur næsta skólastigs. Markmið með námi í skólum snýst þannig ekki einungis um að auka þekkingu, leikni og hæfni í mismunandi námsgreinum heldur að stuðla að alhliða þroska allra nemenda, gera þá læsa á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru, þannig að þeir búi yfir framtíðarsýn, getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélaginu, breyta því og þróa áfram.

Nýjum námskrám er meðal annars ætlað að gera komandi kynslóðir betur í stakk búnar til að takast á við þær miklu áskoranir sem fram undan eru. Liður í þessu er áhersla á sex grunnþætti menntunar: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og sköpun.

Á þessu málþingi, Lærum hvert af öðru - virkjum grunnþættina, verður fjallað um þá nýju menntastefnu sem fólgin er í nýrri aðalnámskrá. Sérstök áhersla verður á innleiðingu grunnþáttanna í skólastarf og skapað tækifæri til að miðla hugmyndum og reynslu milli skóla og skólastiga.

Það gleður mig að sjá hvað þið eruð mörg hér samankomin til að taka höndum saman um að læra hvert af öðru og finna leiðir til að virkja grunnþættina í skólastarfi. Á eftir inngangserindum verða málstofur sem bjóða upp á samræður þvert á skólastig, innan ákveðinna aldursflokka, skólastiga. Auk þess verður rætt hvernig grunnþáttavinnan snýr að nemendum, stjórnendum og námsmati.

Hér í Flensborg eru samankomnir yfir 450 kennarar, stjórnendur og námsráðgjafar úr leik-, grunn- og framhaldsskólum auk fulltrúa nemenda, skólaskrifstofa, fræðsluskrifstofa, félagasamtaka og stéttarfélaga. Það er því mikið mannvit sem hér er samankomið og áhugavert hvaða hugmyndir koma fram í lok dags. En málþingið er ekki bara haldið í Flensborg. Inngangserindin eru samnýtt víða um land og fylgt eftir með málstofum í heimabyggð. Ég býð þátttakendur á Ísafirði, Reykjanesbæ, Grindavík, Dalvík, Akraneskaupstað velkomna og aðra þá sem fylgjast með á netinu. Eftir málþingið verða upptökur aðgengilegar á vef málþingsins og því möguleiki að skipuleggja svona málþing við tækifæri. Ég hef t.d. heyrt af þannig fundi í október á Suðurlandi og vona að fleiri nýti sér þann möguleika.

Við gerum okkur öll fulla grein fyrir að þróun skólakerfisins er vandasamt verk. Ekki nægir að breyta texta í löggjöf og námskrár til að breyta skólastarfinu. Þar þurfa að koma til nýjar hugmyndir og markvissar áherslur í starfi kennara og skólastjórnenda. Möguleikar skólanna til að verða raunverulegt hreyfiafl í samfélaginu byggjast  fyrst og fremst á starfi kennaranna, fagmennsku þeirra, áhuga og sköpunarmætti.

Ráðuneytið vinnur nú að innleiðingu nýrra námskráa en ljóst er að í svo viðamiklu verkefni þurfa margir aðilar að leggjast á árar og samstarf milli sem flestra aðila er lykillinn að því að vel takist til. Á næstunni munu koma út sex þemahefti um alla grunnþættina sem ætlað er að vera til leiðbeiningar fyrir skólastjórnendur og kennara um innleiðingu þáttanna í skólanámskrá og kennslu. Von er á að þrjú heftanna (læsi, lýðræði og mannréttindi og sköpun) komi út í september og hin þrjú í nóvember.

Það er ánægjuefni að við undirbúnings þessa málþings hefur náðst afar gott samstarf við Samband sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands. Vil ég þakka þeim kærlega fyrir þeirra þátt í þessu þingi. Einnig þakka ég Flensborgarskóla fyrir að veita okkur aðgang að húsnæði sínu og taka höfðinglega á móti okkur á þessum stað sem er svo mikilvægur í menntasögu okkar. 

Ég vona að innleggin og umræður í málstofum verði gott vegarnesti við vinnu ykkar við að virkja grunnþættina úti í skólunum. Við skulum læra hvert af öðru.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta