Verzlunarskóli Íslands hlaut Gulleplið í ár
Heiðraða samkoma!
Í dag verður Gulleplið afhent í annað sinn. Gulleplið er sérstök viðurkenning til þess framhaldsskóla sem talinn er hafa skarað fram úr í heilsueflingu á undangengnu skólaári. Haustið 2010 var hleypt af stokkunum sérstöku samstarfsverkefni um slíka heilsueflingu í framhaldsskólum. Að átakinu standa Lýðheilsustöð, velferðarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, félög framhaldsskólanema, Félags íslenskra framhaldsskóla og Ráðgjafarnefnd um æskulýðsrannsóknir.
Í kjölfar fyrsta skóalaárs heilsueflingar var Gulleplið svo veitt Flensborgarskólanum í Hafnarfirði vorið 2011, en sá skóli varð fyrstur framhaldsskóla til að verða heilsueflandi skóli.
Heilsuefling í framhaldsskólum er sameiginlegt verkefni stjórnenda, starfsmanna og nemendasamfélags hvers skóla. Það miðar að því að bæta heilsu og líðan allra þeirra sem starfa og nema við skólann. Það er stefna skólanna að tryggja góða og heilsusamlega vinnuaðstöðu. Þá eru nemendur og starfsmenn hvattir til virkrar þátttöku og aukinnar meðvitundar um gildi bættrar heilsu.
Skólarnir setja sér gjarnan sérstök markmið er lúta að aukinni hreyfingu, forvörnum gegn streitu og andlegu álagi, hollu matarræði, áfengis-, tóbaks- og vímuefnavörnum, ásamt því að stuðla að öryggi í skólanum.
Heilbrigði ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Eins og segir í nýrri aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem kom út í fyrra byggist heilbrigði á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Mikilvægt er því að allt skólastarf leggi áherslu á jákvæða sjálfsmynd, hreyfingu, næringu, hvíld, andlega vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilning á eigin tilfinningum og annarra.
Það er mér sérstakt fagnaðarefni að frá því að Flensborgarskólinn reið á vaðið sem fyrsti heilsueflandi framhaldsskólinn, haustið 2010, hefur verkefnið breiðst hratt út og nú eru lang flestir framhaldsskólar landsins aðilar að því og teljast þar með heilsueflandi framhaldsskólar. Það er því sem betur fer mjög vaxandi samkeppni um Gulleplið sem við ætlum að veita hér í dag.
Í ár bárust umsóknir um viðurkenninguna fyrir síðast liðið skólaár frá átta framhaldsskólum. Dómnefnd á vegum landlæknisembættisins fór yfir umsóknirnar og tjáðu mér að valið hafi verið erfitt. Sýnir það að margt aðdáunarvert og athyglisvert er að gerast í þágu hollustu og heilsueflingar í framhaldsskólum landsins. Á endanum var það þó árangur Verzlunarskóla Íslands við að tryggja aðgengi nemenda og starfsmanna að hollustu sem stóð þar upp úr að mati dómnefndarinnar. Það er því Verzlunarskóli Íslands sem hlýtur Gulleplið árið 2012. Um leið ég óska Versló hjartanlega til hamingju með þessa viðurkenningu vil ég þakka öðrum þátttakendum í verkefninu um hinn heilsueflandi framhaldsskóla kærlega fyrir þeirra mikilvæga framlag.
Ég vil nú biðja skólameistara Verzlunarskóla Íslands, Inga Ólafsson og Hrafnkel Ágeirsson forseta Nemendafélagsins að koma hingað og taka við Gulleplinu árið 2012. Skólinn mun varðveita það í eitt ár nemendum sínum og starfsfólki, svo og öðrum framhaldsskólum, til enn frekari dáða og hvatningar í hinni mikilvægi heilsueflingu.
Til hamingju, Versló !