Vísindavaka á Degi evrópska vísindamannsins
Vísindavakan er árlegt stefnumót almennings og vísindamanna, sem haldið er samtímis um alla Evrópu á Degi evrópska vísindamannsins, sem er síðasta föstudagur í septembermánaðar ár hvert. Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi og eins og gefur að líta hér frammi í anddyri Háskólabíós kennir ýmissa grasa.
Fyrir ríflega þrjátíu árum komst Stefán Snævarr, heimspekingur og ljóðskáld, þannig að orði að það væri vísindanna að skilja heiminn, stjórnmálanna að breyta honum og listamanna að skapa nýjan heim. Við skulum láta pólitíkina liggja milli hluta en hitt er óumdeilt að vísindin færa okkur sífellt nær skilningi á heiminum og sterk staða menntunar, vísinda og nýsköpunar er hverri þjóð lífsnauðsynleg. Gildir þá einu hvort litið er til samfélagslegra eða þjóðhagslegra þátta því vel menntað samfélag getur af sér vöxt í rannsóknum og nýsköpun sem aftur leiðir af sér aukna verðmætasköpun og hagsæld.
Hér í dag ætlum að hitta marga þá sem standa í eldlínunni í rannsóknum og nýsköpun hér á landi, enda markmiðið með Vísindavökunni að færa rannsóknir og nýsköpun nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við tjöldin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og nýsköpunarstarfs í nútímasamfélagi. Vísindavakan sýnir okkur svo ekki verður um villst að þekkingarmiðlun til almennings er orðin mikilvægur þáttur í vísindastarfi.
Annað ljóðskáld, að þessu sinni Bretinn Wystan Hugh Auden, sagði eitt sinn að prófessor væri sá sem talaði (yfir?) svefni annarra (og dró þar með upp mynd af kennslustofu þar sem nemendur svæfu undir lágstemmdu mali kennarans) en Vísindavakan ber einmitt vitni um hið þveröfuga, enda iðar allt af lífi og fjöri hér frammi og fullyrða má að allir, ungir sem aldnir, finni eitthvað við sitt hæfi og hver veit nema í hópi hinna yngri gesta leynist einmitt vísindamenn framtíðarinnar.
Hér að lokum er mér svo heiður að veita viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun fyrir árið 2012. Að þessu sinni koma verðlaunin í hlut Háskólalestarinnar.
Háskólalestin ferðaðist um landið í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands 2011. Lestin heimsótti alls níu áfangastaði og stoppaði tvo daga á hverjum stað. Lögð var áhersla á lifandi vísindamiðlun til fólks á öllum aldri með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Viðtökur voru með eindæmum góðar og má segja að með Háskólalestinni hafi vísindin og fræðin verið færð til fólksins í landinu.
Háskólalestin byggðist upp á fjölþættum vísindaviðburðum þar sem margir lögðust á eitt við að uppfræða og skemmta samtímis. Í lestinni voru vísindamenn háskólans, kennarar og framhaldsnemendur og var lestin byggð á sjálfstæðum einingum sem mynduðu eina heild.
Helstu einingarnar sem ferðuðust með lestinni voru Háskóli unga fólksins, þar sem grunnskólanemar fá að kynnast um stund háskólanámi, vísindum og rannsóknum; Vísindavefurinn, sem svarar spurningum um allt milli himins og jarðar og er einn fjölsóttasti vefur landsins; Sprengjugengið, sem er hópur efnafræðinema úr Háskóla Íslands sem vakið hefur mikla athygli fyrir kröftugar og litríkar tilraunir á sviði efnafræðinnar og loks Stjörnutjaldið, þar sem mátti fræðast um fyrirbæri alheimsins.
Háskólalestin var farin í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni en samstarfsaðilar voru einnig grunnskólar á landsbyggðinni, sveitarfélög og fleiri.
Í lestinni var boðið upp á vísindaleiki, létta en markvissa kennslu, fjör og gríðarlega fjölbreytt fræði sem oft voru sniðin að sérkennum þess staðar sem var heimsóttur. Áhersla var lögð á að auka skilning þátttakenda á vísindum, en í þeim hópi var almenningur; börn, unglingar og fullorðnir. Einnig var leitast við að sýna fram á mikilvægi rannsókna, vísinda almennt og nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag. Alls staðar tóku vísindamenn beinan þátt í viðburðum lestarinnar.
Vil ég biðja aðstandendur Háskólalestarinnar, þau Björgu Magnúsdóttur, Jón Örn Guðbjartsson og Katrínu Sigurðardóttur frá Háskóla Íslands, að koma og veita viðtöku viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun.
Um leið ég óska aðstandendum til hamingju með þennan heiður lýsi ég yfir því yfir að Vísindavaka árisins 2012 er hafin.