Haustráðstefna Hjallastefnunnar
Ágæta starfsfólk og stjórnendur Hjallastefnunnar og aðrir gestir.
Á haustin lifna skólarnir við. Allt fer á fullt þegar þessir stóru og mikilvægu vinnustaðir ræsa vélarnar. Kennarar og nemendur stilla saman strengi með það fyrir augum að miðla og læra.
Einn af föstum liðum haustsins er ráðstefna starfsfólks Hjallastefnunnar. Hér er stefnt að því að ræða sérstaklega um möguleika kynjaskipts skólastarfs. Ég geri einnig ráð fyrir að þið ræðið komandi skólaár, nýjar aðalnámskrár og hvernig að innleiðingu þeirra verði staðið í skólum Hjallastefnunnar.
Það kom í minn hlut að láta semja reglugerðir og aðalnámskrár í tengslum við lög þau sem hlutu samþykki á Alþingi árið 2008. Þá voru í fyrsta sinn samþykkt heildstæð lög fyrir öll skólastig, leik-, grunn- og framhaldsskóla. Í framhaldi af því var mótuð ný menntastefna með hliðsjón af lögunum.
Aðalnámskráin er rammi um skólastarfið á þessum þremur skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún er ætluð stjórnendum skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún nemendum, foreldrum þeirra, opinberum stofnunum, félagasamtökum, aðilum atvinnulífsins og almenningi upplýsingar um tilgang og starfsemi skóla. Gert er ráð fyrir að einstakir skólar aðlagi skólanámskrár sínar og starfshætti að ákvæðum aðalnámskrár á þremur árum eða til ársins 2015. Ég vænti þess að þið takið fullan þátt í því að innleiða þessar nýjar aðalnámskrár í leik- og grunnskóla sem reknir eru á vegum Hjallastefnunnar.
Í aðalnámskránni eru ýmsar róttækar nýjungar. Lögð er áhersla á virka þátttöku nemenda í skólastarfinu, grunnþættir menntunar eru dregnir skýrum dráttum og minnt er á að námsgreinar skólans eru ekki markmið í sjálfu sér, heldur hjálpartæki til að stuðla að merkingarbæru námi allra nemenda og ná markmiðum skólastarfsins. Í aðalnámskránni er barnið sett í brennidepil og lögð áhersla á námið frekar en námsgreinar og námsefni. Skilgreindir eru sex grunnþættir í menntun - læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun - sem eiga að fléttast inn í nám og kennslu á öllum skólastigum, móta efnisval og inntak náms, kennslu og leik.
Í lok ágúst sl. stóð ráðuneytið fyrir málþinginu, Lærum hvert af öðru - virkjum grunnþættina, þar sem fjallað var um þá nýju menntastefnu sem fólgin er í nýrri aðalnámskrá. Sérstök áhersla var lögð á innleiðingu grunnþátta í skólastarf og miðlun hugmynda og reynslu milli skóla og skólastiga. Hátt í 500 manns tóku þátt í þinginu og jafnframt var bein útsending á netinu. Enn má nálgast efni þingsins á vef ráðuneytisins og hvet ég ykkur til að skoða það.
Í samhengi við áhersluatriði fundarins ykkar hér í dag, þ.e. kynjaskipt skólastarf, langar mig aðeins að fjalla um grunnþáttinn jafnrétti.
Þó að fjallað hafi verið um jafnrétti og jafna stöðu karla og kvenna í lögum á Íslandi í mjög langan tíma er enn á brattann að sækja þó að auðvitað hafi líka heilmikið áunnist. Jafnlengi hefur það verið eitt af meginhlutverkum skóla að búa bæði kynin undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Ég tel að enn standi upp á okkur að skipa jafnréttisfræðslu þann sess sem við kjósum að sjá almennt í skólastarfi þótt vissulega séu dæmi um gott jafnréttisstarf í skólum. Þótt áherslur um jafnrétti megi finna bæði í lögum um skólastarf og í aðalnámskrám þarf að tryggja betur að þær nái fótfestu í skólastarfi – að þær nái til kennaranna, inn í kennslustofuna þar sem „hjartað slær“ í skólastarfinu.
Það er m.a. af þessum ástæðum sem ég beitti mér fyrir því að gera jafnrétti að einum af grunnþáttum almennrar menntunar í aðalnámskrám. En það er ekki nóg að læra um grunnþætti eins og jafnrétti heldur þarf að gefa nemendum tækifæri líka til að læra jafnrétti í sínum daglegu samskiptum. Það þarf að ræða og ástunda þetta mikilvæga atriði sem við viljum efla í samfélaginu á sem flestum sviðum.
Í nýjum aðalnámskrám felur jafnréttishugtakið í sér breiða tilvísun svo sem til aldurs, búsetu, fötlunar, kyns og kynhneigðar og vísar til inntaks kennslu, námsaðferða og námsumhverfis. Menntun til jafnréttis er skilgreind þannig að hún felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna fólki að greina aðstæður sem leiða til að sumum er mismunað á meðan aðrir njóta forréttinda.
Markmið jafnréttismenntunar er þannig að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis.
Með aukinni alþjóðavæðingu hefur fjölbreytileiki nemendahópsins aldrei verið meiri. Mikilvægt er vinna með nemendum að því að rækta sjálfsskilning og umburðarlyndi. Kynferði er einna fyrirferðarmesti þátturinn í sjálfsmyndarsköpun einstaklings. Nemendur þurfa að læra um mismunandi ímyndir um karlmennsku og kvenleika í sögulegu samhengi og í samtímanum, út frá ólíkum menningarheimum og í gegnum ólíka miðla. Mikilvægt er að brjóta þessar ímyndir upp og skoða í gagnrýnu ljósi. Láta ekki úreltar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika stjórna vali á viðfangsefnum og þekkingarleit drengja og stúlkna, líkt og skólakerfið sé á sjálfstýringu. Námsframboð skólans og starfshættir þurfa að endurspegla þessi markmið - ekki síst á þeim tímum þar sem valfrelsi í skólum hefur verið aukið. Nú reynir á að jafnréttissýn skóla sé skýr.
Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og aðalnámskrám eru skýr ákvæði um að á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. sé lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Þá búa ýmsir við margþætta mismunun þar sem fleiri þættir tvinnast saman, til dæmis kyn og fötlun, kynhneigð og þjóðerni, aldur og búseta. Þar getum við litið til rannsókna í kynjafræðum, hinseginfræðum, fjölmenningarfræðum og fötlunarfræðum.
Mig langar að vekja athygli á þingsályktun um áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Í áætluninni felast 43 verkefni og eru 9 þeirra á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Ég nefni sérstaklega verkefnið um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum. Ég geri ráð fyrir að það verkefni fari af stað nú í haust og vil ég hvetja Hjallastefnuskólana til að taka virkan þátt.
Leiðir að sameiginlegu markmiði geta hins vegar verið fjölbreytilegar og eru Hjallastefnuskólar dæmi um það. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á mismunandi hliðum kynjaskipts skólastarfs og sýna þær ólíkar niðurstöður. Þörf er á fleiri rannsóknum á áhrifum af kynjaskiptu skólastarfi hér á landi og er það áhugavert rannsóknarefni að bera saman áhrif og ávinning af kynjablönduðu skólastarfi og kynjaskiptu skólastarfi hér á landi.
Á þessum vettvangi er einnig vel við hæfi að vekja athygli á nýlegri breytingu á reglugerð um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og einnig um skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námsskrá og námsskipan.
Meginbreytingin felst í því að sveitarfélögum ber nú skylda að gera þjónustusamninga við þá aðila sem þau hafa samþykkt að greiða fyrir rekstur grunnskóla innan sveitarfélagsins og að sveitarfélögum sé óheimilt að gera þjónustusamninga nema fyrir liggi viðurkenning ráðuneytisins. Þessar breytingar eru gerðar að frumkvæði sveitarfélaganna og í samvinnu við þau.
En vetur gengur brátt í garð og að mörgu að huga við upphaf nýs skólaárs.
Ég vona að umræður ykkar hér í dag verði til eflingar skólastarfi Hjallastefnuskólanna og óska ykkur góðs gengis á fundinum í dag.
Takk fyrir