Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. október 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Menningarstefna kynnt fyrir safnafólki 

Ágæta safnafólk

Það er gott að koma hingað norður í Farskóla safnafólks sem reynslan hefur sýnt að nýtist vel sem fræðslu- og samræðuvettvangur þeirra sem vinna í söfnum landsins. Vonandi að það sem hér fer fram þessi dægrin hjálpi ykkur við að þróa það fjölbreytta starf sem fer fram í söfnum landsins.

Og fjölbreytni er eitt af lykilorðunum í því sem ég var beðin að tala stuttlega um á þessum vettvangi í dag, en það er þingsályktunartillaga um menningarstefnu sem nú er verið að kynna í þingflokkum Alþingis.

Drög að menningarstefnunni voru kynnt á vef ráðuneytisins í sumar og mun nýjasta útgáfa tillögunar vonandi skjóta upp kolli í þingstarfinu áður en langt um líður.

Lengi hefur verið kallað eftir ritaðri menningarstefnu frá ríkinu og tilraunir við mótun hennar hafa vissulega verið gerðar áður. Aldrei hefur hún þó litið dagsins ljós og því hefur skiljanlega ekki skapast hefð fyrir eiginlegri menningarstefnu, þótt sumir telji að menningarstefnu ríkisins sé hægt að greina á hverjum tíma í lagasetningu, stjórnsýslu og síðast en ekki síst fjárframlögum sem ákveðin eru á Alþingi.

En velji maður þessa túlkun á menningarstefnuhugmyndinni þá má spyrja sig hvernig sú túlkun (eða lestur) á menningarstefnunni fer fram og hver túlkar hana. Þá má einnig útvíkka hugsunina og spyrja sig almennt: hefur ríkið rödd?  Og þá er ég ekki að tala um auglýsingar áfengisverslunar ríkisins, heldur það sem stundum er kallað hið opinbera og hefur á bakvið sig almannavald eða stjórnvald. – Á ríkið sér rödd í menningarmálum og er hún skýr?

Jú, löggjöfin er vitanlega skýrasta birtingarmyndin á rödd stjórnvalda, rödd sem aftur kallar á aðgerðir, viðurlög eða inngrip, ef ekki er farið að ákvæðum laga. Hvað menningarmál varðar má síðan nefna ályktanir, stefnumótun og framkvæmdir, samninga, uppbyggingu sjóðakerfis og vinnu stjórnenda stofnananna, sjóðsstjórna og úthlutunarnefnda. Einnig má nefna samstarf við sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra um stuðning við menningu á einstökum svæðum gegnum menningarsamninga.

En raddirnar heyrast líka eftir öðrum leiðum.  Kjörnir fulltrúar í pontu á Alþingi, með atkvæðamagn í einhverjum mæli á bak við sig, tjá sig af og til um málaflokkinn en það er margt á efnisskránni við Austurvöll eins og allir vita. Loks er það síðan ráðherrarann sem stundum tekur til máls á opinberum vettvangi, heldur ræður eða skrifar í blöðin. Þannig kemur fram meining þeirra sem fara með almannavaldið í landinu.

Í samstarfssamningi ríkisstjórnarinnar er mælt fyrir um mótun menningarstefnu og á undanförnum misserum og árum hefur farið fram vinna við undirbúning og loks ritun stefnunnar. Lagt var mat á það hvort þörf væri á ritun slíkrar stefnu yfir höfuð og síðan unnið að ritun hennar.  

Áður nefnd spurning, hvort stjórnvöld hafi rödd þegar kemur að menningarmálum, er einkar áhugaverð. Flestum þykja raddirnar margar og koma úr mörgum áttum á meðan aðrir þættir í aðkomu hins opinbera að menningarmálum byggjast að miklu leyti á hefðum.

Þetta eru hugleiðingar sem vakna um menningarstefnu stjórnvalda og grundvallarspurningu sem tengist henni: á að skýra aðkomu ríkisins að málefnum menningarinnar, taka efni saman á einn stað um þá aðkomu, eða á ekki að reyna neitt slíkt?

Sú tillaga sem nú er á leið inn í þingið og verður vonandi von bráðar lögð fram, eftir kynningu í þingflokkum, er ekki langt eða ítarlegt plagg. Með greinargerð er tillagan níu síður í skjölum Alþingis. Einn þátttakandi í rýnihóp um verkefnið orðaði það svo að hentugt væri að þarna yrði til eins konar „menningarþykkni.“ Nefna má að nágrannaþjóðir okkar eiga margar hverjar ítarlegar stefnuskrár í menningarmálum með áhangandi áætlunum og undirskjölum af ýmsum gerðum.  Hér þarf hins vegar að móta hefðina og ákveða fyrst hvernig á að taka til máls.  Þá liggur fyrst fyrir að afmarka sig.

Það er óþarfi að fjölyrða um það í þessum hóp að menningarhugtakið er flókið og margþætt. Um það hafa verið skrifaðar óteljandi hnausþykkar bækur og hvað umrædda tillögu varðar hefur jafnvel verið varað eindregið við því að ræða margræðni menningarhugtaksins yfir höfuð í texta stefnunnar. Samt er nú að finna tvær málsgreinar í greinargerð um það, en afmörkunin skiptir máli. Þingsályktunin snýr að málefnum listgreina og menningararfs og notkunina á menningarhugtakinu í skjalinu ber að skoða í því ljósi. 

En aftur má spyrja: af hverju þingsályktunartillaga? Nýlega hefur verið skrifuð íþróttastefna í ráðuneytinu sem ekki var lögð sem ályktunartillaga á þingi. Stefnumótun í æskulýðsmálum er einnig í farvegi. Það er að mínu mati hins vegar mikilvægt að það sé Alþingi sem tali að lokum í menningarstefnunni og því er þingsályktunarformið hentugt. Það þarf að ríkja víðtæk sátt um menningarstefnuna til að hún hafi vægi, bæði innan stjórnmálanna, stjórnsýslunnar og meðal almennings. Tillagan sjálf tekur að miklu leyti mið af niðurstöðum ráðstefnunnar Menningarlandið 2010, þeim rannsóknum sem farið hafa fram í þessum málaflokkum, á erlendum samanburði og því sem skrifað hefur verið um þetta efni hér á Íslandi og víðar. Hún byggir á því viðhorfi og kerfi sem þróast hefur á undanförnum áratugum og meðal annars af þeim sökum ættu ólíkir aðilar að geta sameinast um hana.

Stefnan er sett fram í sextán leiðarljósum stjórnvalda í málefnum lista og menningararfs  - og síðan í sex köflum með nokkrum markmiðum í hverjum og einum. Kaflarnir heita Menning fyrir alla, lifandi menningarstofnanir, samvinna í menningarmálum, Ísland í alþjóðasamhengi, starfsumhverfi í menningarmálum og stafræn menning. Svo fylgja stefnunni athugasemdir.

Stefnunni er ætlað að skýra aðkomu ríkisins að málaflokkunum. Lýsa þeirri aðkomu á breiðum grundvelli án þess að talað sé sérstaklega um málefni einstakra listgreina eða stofnana. Tilraun er gerð til að horfa vítt yfir sviðið og til framtíðar. Með þessari breiðu nálgun er tillagan ekki áætlun um beinar einstakar aðgerðir (og fjárveitingar eru vitanlega ákvarðaðar áfram af Alþingi), heldur er stefnan lýsing á tilgangi og stuðningur áframhaldandi starf. Annað takmark er að stefnan verði hvatning til þeirra sem vinna á sviði menningar í landinu öllu. Hún gagnist samsamstarfsaðilum stjórnvalda, embættismönnum og stjórnmálamönnum, fræðimönnum, úthlutunarnefndum o.s.frv. Ljóst er að við það að velja form þingsályktunartillögu er kallað eftir hugmyndafræðilegum stuðningi frá Alþingi sem ætti að gagnast við frekari ákvarðana töku þar og víðar í málaflokknum.

Fjóra undirliggjandi áhersluþætti má greina í stefnunni.  Þar ber fyrst að nefna áherslu á hlutverk ríkisvaldsins í að styðja við sköpun, fjölbreytni og þátttöku í menningarlífinu, áherslu á gott aðgengi að listum og menningararfi, áherslu á vandaða samvinnu stjórnvalda með þeim sem vinna á þessum sviðum og loks er áhersla á þátttöku barna og ungmenna í menningarlífinu.

Ef horft er til erlendra fyrirmynda er líklegast einkum hægt að sjá svörun í nálgun danskra stjórnvalda að menningarmálum, en þar í landi er vitanlega ríkari hefð í þessum efnum og þar er reyndar svo að nýr menningarmálaráðherra setur slíka stefnu þegar hann tekur við embætti.

Stefnan er sett fram í tengslum við almenna markmiðasetningu stjórnvalda eins og hún birtist t.d. í Ísland 2020 en mikilvægt er að forðast það að menningarstefnan verði fyrst og fremst “þjónandi” í hugsun – þ.e.a.s. að menningunni sé ætíð ætlað að ná einhverju öðru fram. Það viðhorf hefur verið kallað „instrumentalisering“ í Skandinavíu og sætt mikilli gagnrýni listamanna og annar í menningarlífinu. Vitanlega vitum við að öflugt menningarlíf stuðlar að virkari félagslegum samskiptum, í henni eru vaxtarbroddar til atvinnusköpunar og hún leggur til við félagsmótun. Við erum meðvituð um þau áhrif en þau geta  ekki verið forsenda fyrir stuðningi við menningarlífið. Listir og menning eiga sér sitt innra gildi sem rétt er að átta sig á.  Takmarkið að lokum menningarbót, stefnt að vönduðum vinnubrögðum og metnaði í menningarlífinu öllu. 

En þá ætla ég að vinda mínu kvæði í kross og fjalla um lagasetningu á því sviði sem þið veltið fyrir ykkur, safnastarfinu. 

Á síðustu tveimur þingum hafa verið afgreidd ný lög á menningarsviðinu, sem fela í sér endurskoðun laga sem sett voru 2001, þegar gagngerar breytingar voru gerðar á lögum um fornleifar og minjavörslu, um húsafriðun og um skil menningarverðmæta til annarra landa, og loks voru þá sett safnalög í fyrsta sinn hér á landi.

Reynslan af framkvæmd laganna frá 2001 leiddi í ljós að ýmislegt mátti betur fara, og því var lagt í þessa endurskoðun, sem nú er lokið, en flest hinna nýju laga – lög um menningarminjar, lög um skil menningarverðmæta til annarra landa, lög um Þjóðminjasafn Íslands og loks ný safnalög – taka gildi um næstu áramót.

Vert er fyrir aðstandendur og starfsfólk safna að skoða þessi lög vel, einkum ný safnalög, en í þeim felast ýmsar breytingar frá gildandi safnalögum.

Söfnum hefur fjölgað um land allt á síðustu árum og einnig hefur sprottið upp fjöldi safnvísa, setra og sýninga, sem ekki uppfylla öll skilyrði þess að teljast söfn, en vinna mörg hver gott starf á sínu sviði. Þessi starfsemi er nú skilgreind í fyrsta sinn í lögum og reynt að skoða hana í samhengi við starfsemi viðurkenndra safna. Hingað til hefur ekki verið skýrt hvað átt hefur verið við með framangreindum heitum og möguleikar þessara aðila til að njóta opinbers stuðnings við starfsemi sína hafa ekki verið fyrir hendi í gildandi safnalögum. Þetta hefur m.a. leitt til aukinna beinna fjárveitinga á fjárlögum til starfsemi á þessu sviði. Í frumvarpinu er því lagt til að þessum aðilum verði gert kleift að njóta stuðnings úr safnasjóði til skilgreindra verkefna í samstarfi við viðurkennd söfn.

Meðal nýmæla í frumvarpinu eru ákvæði um viðurkenningu safna, þar sem slíkum söfnum er ætlað að gangast undir ýmis fagleg og rekstrarleg skilyrði. Með opinberri viðurkenningu eru tekin af öll tvímæli um stöðu viðkomandi safna, skyldur þeirra og samfélagslega ábyrgð. Jafnframt eru skilgreind skilyrði sem söfnin þurfa að uppfylla til að geta átt kost á að njóta styrkja úr opinberum sjóðum. Meðal þeirra skilyrða sem sett eru til að safn geti hlotið viðurkenningu er að höfuðsafn á starfssviði viðkomandi safns komi að ákvörðunum um ráðstöfun safnkosts verði það lagt niður.

Annað nýmæli í frumvarpinu er hugtakið ábyrgðarsafn. Til að styrkja faglegt samstarf safna gerir frumvarpið mögulegt að skilgreina öflug söfn sem hafi frumkvæði í málefnum safna á sínu ábyrgðarsviði og veiti öðrum, bæði söfnum, safnvísum, setrum og sýningum, ráðgjöf og aðstoð í nánu samráði við höfuðsöfn, t.d. með því að stýra samstarfsverkefnum. Skulu slík söfn vera í nánu samstarfi við höfuðsafn, en þeim er falið að gera tillögur um hvort ástæða sé til að fela einhverju safni aukna ábyrgð á safnastarfi í tilteknum landshluta eða á ákveðnu sviði og hvaða söfn geta tekið að sér slíkt hlutverk.

Þá er rétt að benda á að ákvæðum 11. gr. laganna um stofnstyrki hefur verið breytt, og ákvæði um hlutfall styrkja af stofnkostnaði hefur verið fellt brott, en um leið settar fram skýrari kröfur en áður um fjármögnun slíkra verkefna.

Ákvæðum um safnaráð, skipan þess og hlutverk hefur verið breytt og er safnaráð er nú fyrst og fremst ráðgefandi nefnd gagnvart ráðherra en skal jafnframt hafa eftirlit með safnastarfsemi í landinu. Þá er ráðinu ætlað að setja skilmála og staðla um húsnæði safna auk skilmála um skráningarkerfi. Ráðinu er einnig ætlað að fjalla um tillögur um ábyrgðarsöfn áður en höfuðsöfn senda slíkar tillögur til ráðherra. Safnaráði er áfram ætlað að setja safnasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir og veita umsögn til ráðherra um styrkumsóknir úr sjóðnum, en nú hefur sú breyting verið gerð að ráðherra tekur ákvörðun um úthlutun úr sjóðnum. Með því að ráðið setji sjóðnum úthlutunarreglur getur það tryggt að staðið sé að úthlutun styrkja á faglegan hátt og í samræmi við stefnumótun þess um safnastarf.

Safnaráði er samkvæmt frumvarpinu ekki lengur ætlað að vera samráðsvettvangur um málefni safna, enda má ætla að slíkt samráð sé eðlilegur hluti af safnastarfi og samvinnu safna undir forustu höfuðsafna og ykkar, þ.e. félags íslenskra safna og safnmanna, og þurfi ekki að binda í lög.

Þessi farskóli er vitanlega til merkis um það gæfuríka samstarf og það mikilvæga samtal sem safnafólk verður að rækta sín á milli. Ég læt þá þessum lestri mínum um menningarstefnu og safnalög lokið.

Gangi ykkur áfram vel í farskólanum.

Takk fyrir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta