Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. október 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Menntamál innflytjenda á Hringþingi

Ágætu HringÞingsgestir

Ég hef lauslega fylgst með undirbúningi þessa Hringþings um menntamál innflytjenda á öllum skólastigum og sérstaklega velt fyrir mér hvað sé átt við með orðinu HringÞing.  Fljótlega áttaði ég mig á því að hér væri ekki um neitt venjulegt málþing að ræða, fremur nokkurs konar blöndu af þjóðfundi, samræðuvettvangi, markaðstorgi góðra hugmynda og nútímalegri stefnumótunarvinnu með þátttöku allra þinggesta.  Ætlunin væri að stefna saman lykilfólki á öllum skólastigum sem vinnur frá degi til dags við að útfæra og þróa námsframboð fyrir nemendur af erlendum uppruna þar sem þinggestir gætu fengið að kynnast broti af því besta í námi og kennslu á öllum skólastigum. Einnig væri hugmyndin að ná til markhópsins, þ.e. innflytjenda sjálfra til að taka þátt í stefnumótun og umræðu um helstu álitamál sem tengjast menntun þeirra og fá einnig að borðinu fólk sem vinnur að stefnumótun á þessum vettvangi hjá stjórnvöldum, í kennaramenntun og meðal ýmissa hagsmunaaðila. Einnig vakti athygli mína að ætlunin væri að ræða um áhrif orðræðu um innflytjendur í fjölmiðlum, viðhorf og fordóma á tækifæri þessa hóps til náms. Það vakti sérstaka ánægju mína þar sem staða innflytjenda í samfélaginu almennt skiptir mjög miklu um það hvernig til  tekst  á öllum sviðum, þar með talið í skólakerfinu, í því markmiði að hér verði til samfélag án aðgreiningar þar sem allir geta tekið þátt á eigin forsendum og verðleikum.  Mér varð því fljótt ljóst að ekki væri verið að bjóða til þings þar sem þátttakendur væru óvirkir þiggjendur heldur væri sérstaklega verið að nýta tækifærið til að fá fram sjónarmið og áherslur þeirra sem vinna að þessum málaflokki. Eina frávikið frá þessu hringþingsformi eru ávarp tveggja ráðherra, þ.e. í upphafi og lokin.

Megináherslur í þróun menntalöggjafar og skólahalds gegnum 20. öldina hefur verið á almenna menntun sem álitin er undirstaða og forsenda samfélagsþátttöku og þátttöku fólks í menningarlífi og atvinnulífi. Skóli á að vera hreyfiafl í samfélaginu. Forsendur skólahalds eins og þær birtast nú í stefnumótun, löggjöf, námskrám og skýrslum eru enn þær sömu: Lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og  jafnrétti allra. Framsetning þessara grunnþátta menntunar og skólahalds hefur þó breyst og þróast í takt við samfélagsbreytingar og nýja þekkingu. Hugmyndir um lýðræði og jafnrétti hafa breyst, einnig hugmyndir um menntun, þekkingu og hæfni. Dæmi um þetta eru kröfur um sífellda útvíkkun jafnréttishugtaksins í menntakerfinu á fleiri svið samfélagsins, t.d. jafnrétti óháð búsetu, kyni, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf árið 2011 út nýja aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem byggir á lögum frá 2008 um skólastigin þrjú. Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Í aðalnámskránni eru ýmsar róttækar nýjungar. Lögð er áhersla á virka þátttöku nemenda í skólastarfinu og grunnþættir menntunar eru dregnir skýrum dráttum. Einnig voru sett lög árið 2010 um framhaldssfræðslu þar sem sett eru fram ýmis markmið til að hækka menntunarstig á vinnumarkaði.

Meginmarkmið nýrrar menntastefnu  er að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Kjarni menntastefnunnar settur saman úr sex grunnþáttum: læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, sköpun og heilbrigði og velferð.

Grunnþátturinn læsi víkkar út hefðbundin skilning á bóklestri og minnir á fleiri miðla en bækur og bókstafi. Nærtækt er að nefna stafrænt læsi, miðlamennt og miðlalæsi.

Lýðræðis- og mannréttindamenntun byggist á gagnrýninni hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins. Slíkt nám gerir ráð fyrir samábyrgð, meðvitund og virkni nemendanna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt sem ábyrgir borgarar og hafa áhrif nær og fjær.

Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna fólki að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra.

Menntun til sjálfbærni miðar að því að skapa samábyrgt samfélag, nokkurs konar sáttmála milli kynslóða þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarbúa.

Grunnþátturinn sköpun felur í sér að móta viðfangsefni og miðla þeim, búa til og gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika.

Heilbrigði tengist andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum þar sem ofbeldi af öllu tagi er ekki liðið. Mikilvægt er að allir aðilar skólasamfélagsins vinni samhent að þessu markmiði.

Nýjum aðalnámskrám er meðal annars ætlað að gera komandi kynslóðir betur í stakk búnar til að takast á við þær miklu áskoranir sem fram undan eru. Aukin áhersla á gagnrýna hugsun og lýðræði í öllu skólastarfi mun skila virkum og hæfum þátttakendum í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi.

Menntamálaráðuneytið gaf fyrir nokkrum árum út námskrár í íslensku fyrir útlendinga og er þeim ætlað að leiðbeina um kennslu fyrir útlendinga á fullorðinsaldri og skiptast þær í grunnnám og framhaldsnám. Við gerð námskránna var viðmiðunarrammi Evrópuráðsins fyrir erlend tungumál hafður til hliðsjónar. Samkvæmt námskránni er með kennslunni stefnt að því að nemendur verði sem best í stakk búnir að taka virkan þátt í íslensku, lýðræðislegu þjóðfélagi og lögð áhersla á að námsþættir snerti persónulega færni, félagslega færni og starfsfærni eftir því sem framast er unnt.

Það er talinn ávinningur fyrir sérhvern einstakling að hafa vald á mörgum tungumálum og fjöltyngdir einstaklingar eru afar verðmætir fyrir samfélagið. Þegar fjölskyldur flytjast milli landa er auðveldara fyrir þær að halda tengslum við heimaland sitt ef þær viðhalda móðurmálinu. Börn í slíkum fjölskyldum geta betur skilið og tileinkað sér menningararf foreldranna ef þau kunna móðurmál þeirra. Sterkt móðurmál er ekki einungis mikilvægt fyrir samskiptin í fjölskyldunni það auðveldar líka börnum að tileinka sér íslensku sem annað tungumál  og góður grunnur í móðurmáli er talinn grundvallaratriði í máltöku annars máls. Fyrir tvítyngd og fjöltyngd börn skiptir miklu máli að búa við ríkt málumhverfi á báðum tungumálunum og öðlast tækifæri til þess að þroska og þróa málvitund sína og færni í samskiptum jafnt og þétt. 

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að aðildarríki eru sammála um að menntun barns skuli m.a. beinast að því að móta með því virðingu fyrir foreldrum þess, menningarlegri arfleifð þess, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands er það býr í og þess er það kann að vera upprunnið frá, og fyrir öðrum menningarháttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs.

Á undanförnum árum hafa  stjórnvöld varið umtalsverðu fjármagni til íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og hefur ásókn í íslenskunám verið mikil. Það var fyrst 2006 sem gert var sérstakt átak á þessu sviði með umtalsverðu fjármagni sem fór vaxandi fram að hruninu 2008. Eftir það hafa framlög til þessarar kennslu verið skorin verulega niður en umtalsverðum fjármunum er samt varið til að styrkja námskeið.  Markmiðið með styrkjunum er að gefa öllum sem búsettir eru á Íslandi færi á að öðlast þá færni í íslensku að þeir geti orðið virkir samfélagsþegnar.

Með framlagi ríkisins og einnig atvinnurekenda hefur verið hægt að niðurgreiða námskeið en ekki hefur náðst að tryggja  að allir innflytjendur njóti gjaldfrjálsrar íslenskukennslu í samræmi við þau grunnmarkmið sem sett hafa verið í námskrá. Með gjaldfrjálsu grunnnámi í íslensku yrði öllum tryggð jöfn staða og jafnt aðgengi að þessari menntun sem skiptir ekki aðeins innflytjendur máli heldur einnig allt íslenskt samfélag.

Eins og áður hefur komið fram hafa miklar breytingar orðið á íslensku samfélagi á undanförnum áratugum og íslenska samfélagið hefur færst í átt til fjölmenningar á sama tíma. Stjórnvöld hafa endurskoðað lagaramma um öll skólastig á undanförnum árum, þar með talið grunnmenntun kennara og símenntun þeirra, nýjar aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla komu út árið 2011 og innleiðing nýrrar menntastefnu stendur nú sem hæst með margvíslegum aðgerðum á öllum skólastigum.

Víða um lönd fer fram mikil umræða um stöðu kennarastéttarinnar, kennaramenntun og starfsþróun kennara. Sú umræða byggir yfirleitt á þeirri skoðun að kennarastéttin sé kjölfesta í menntakerfum þjóðanna og breytingar á skipan menntamála, umbætur í námsefni og aukin fjárútlát til skólamála skipti litlu ef kennarar hafi ekki faglegar forsendur til að takast á við breytingaferli og leiða umbæturnar. Í þessari umræðu kemur skýrt fram að þótt öflug grunnmenntun kennara sé mikilvæg skiptir enn meira máli að stuðla að markvissri faglegri starfsþróun kennara og starfstengdri símenntun. Í þeirri umræðu kemur skýrt fram að ekki þarf síður að huga að símenntun og stuðningi við kennara í starfi en öfluga grunnmenntun kennarastéttarinnar.

Það er aðdáunarvert hversu mikil gróska hefur verið í skólastarfi á öllum skólastigum á undanförnum árum þrátt fyrir þrengingar í samfélaginu. Ég hef fengið að kynnast ýmsum verkefnum þar sem skólar hafa brugðist við breyttu samfélagi, m.a. vegna fjölgunar nemenda af erlendum uppruna, og þróað námsframboð við hæfi, bæði með og án formlegs stuðnings. Spyrja má hins vegar hvort  einhverjir veikleikar séu sjáanlegir í stefnumótun og þá hverjir helstir í tengslum við menntun innflytjenda á öllum skólastigum, þarf að endurskoða lagarammann um menntakerfið, reglugerðir, aðalnámskrár, eða aðrar stjórnvaldsskipanir vegna samfélagsbreytinga?

Þrátt fyrir að ýmislegt hafi tekist vel til í skólastarfi þá hafa erlendir eftirlitsaðilar ítrekað gert t.d. athugasemdir við mikið brottfall innflytjenda úr framhaldsskólum hér á landi og óskað eftir aðgerðum stjórnvalda til úrbóta. Má þar m.a. nefna athugasemdir frá barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna vegna úttektar þeirra á framkvæmd Barnasáttmálans á síðasta ári og einnig nýlegar tillögur frá ECRI (Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi).

Góðir áheyrendur

Það er ánægjulegt að bæði velferðarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið skuli koma að þessu þingi, enda er það í anda samhentrar stjórnsýslu sem skilar örugglega betri árangri en að skoða málin hólfaskipt.  Ég hvet þinggesti að taka virkan þátt í umræðum og útfæra tillögur að aðgerðum til úrbóta á málstofu mennta- og menningarmálaráðuneytisins um helstu álitamál í menntun innflytjenda en ætlunin er að nýta niðurstöðurnar sem best til frekari stefnumótunar og aðgerða á næstu árum.

Ég vil að lokum sérstaklega þakka innflytjendaráði fyrir frumkvæðið að því að blása til þings af þessu tagi í samstarfi við ráðuneytin, Samband íslenskra sveitarfélaga og ýmsa aðra aðila og þakka jafnframt öllum sem hafa komið að undirbúningi og framkvæmd þingsins og eiga eftir að leggja sitt af mörkum hér í dag.

Ég vona svo sannarlega að þingið verði bæði skemmtilegt, málefnalegt og gagnlegt til að fá heildarsýn yfir menntamál innflytjenda hér á landi og helstu áskoranir í þessum málaflokki. Mér er ekki kunnugt um að áður hafi verið fjallað á jafnvíðtækan hátt um menntamál innflytjenda hér á landi og tel ég það fyllilega tímabært í ljósi samfélagsþróunar undanfarna áratugi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta