Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. nóvember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Fjöltyngi 

Góðir málþingsgestir,

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að aðildarríki eru sammála um að menntun barns skuli m.a. beinast að því að efla virðingu þess fyrir foreldrum sínum, menningarlegri arfleifð, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands sem það býr í, og fyrir menningarháttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs.

Það er talinn ávinningur fyrir sérhvern einstakling að hafa vald á mörgum tungumálum og fjöltyngdir einstaklingar eru afar verðmætir fyrir samfélagið. Þegar fjölskyldur flytjast milli landa er auðveldara fyrir þær að halda tengslum við heimaland sitt ef þær viðhalda móðurmálinu. Börn í slíkum fjölskyldum geta betur skilið og tileinkað sér menningararf foreldranna ef þau kunna móðurmál þeirra.

Íslendingar eignuðust í fyrsta sinn opinbera málstefnu árið 2009 þegar Alþingi samþykkti Íslenska málstefnu sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu. Í Íslenskri málstefnu er m.a. fjallað um íslensku sem annað mál og er þar kveðið á um að hlúa verði sérstaklega að tvítyngdum börnum í íslensku skólakerfi og leitast verði við að tryggja að þau fái fullnægjandi málörvun, bæði í móðurmáli sínu og íslensku.

Í kjölfar málstefnunnar samþykkti Alþingi árið 2011 lög um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls þar sem kveðið er á um stöðu íslenskrar tungu, mælt fyrir um varðveislu hennar, þróun, nothæfni og aðgengi manna. Jafnframt er íslenskt táknmál viðurkennt í lögum sem fyrsta mál þess hluta heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra sem reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Mælt er fyrir um rétt þeirra sem þörf hafa fyrir táknmál að þeir skuli eiga þess kost að læra, tileinka sér og nota íslenska táknmálið frá máltökualdri eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda kemur fram síðar á ævinni. Einnig er mælt fyrir um hvernig lögunum skuli framfylgt og hverjir beri þá skyldu.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf árið 2011 út nýja aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem byggir á lögum frá 2008 um skólastigin þrjú.

Meginmarkmið nýrrar menntastefnu  er að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Kjarni menntastefnunnar settur saman úr sex grunnþáttum: læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, sköpun og heilbrigði og velferð.

Grunnþátturinn læsi víkkar út hefðbundin skilning á bóklestri og minnir á fleiri miðla en bækur og bókstafi. Nærtækt er að nefna stafrænt læsi, miðlamennt og miðlalæsi.

Lýðræðis- og mannréttindamenntun byggist á gagnrýninni hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins. Slíkt nám gerir ráð fyrir samábyrgð, meðvitund og virkni nemendanna, sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt sem ábyrgir borgarar og hafa áhrif nær og fjær.

Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna fólki að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra.

Menntun til sjálfbærni miðar að því að skapa samábyrgt samfélag, nokkurs konar sáttmála milli kynslóða, þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarbúa.

Grunnþátturinn sköpun felur í sér að móta viðfangsefni og miðla þeim, búa til og gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika.

Heilbrigði tengist andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum þar sem ofbeldi af öllu tagi er ekki liðið. Mikilvægt er að allir aðilar skólasamfélagsins vinni samhent að þessu markmiði.

Góðir áheyrendur

Nýjum aðalnámskrám er meðal annars ætlað að gera komandi kynslóðir betur í stakk búnar til að takast á við þær miklu áskoranir sem fram undan eru. Aukin áhersla á gagnrýna hugsun og lýðræði í öllu skólastarfi mun skila virkum og hæfum þátttakendum í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. 

Að lokum langar mig að þakka Rannsóknastofu Háskóla Íslands í fjölmenningarfræðum fyrir frumkvæðið að því að blása til málþings um móðurmál á Íslandi í samstarfi við Samtökin Móðurmál, Tungumálatorg, Borgarbókasafn Reykjavíkur og Skóla- og frístundasvið Reykjavikurborgar.

Sterkt móðurmál er ekki einungis mikilvægt fyrir samskiptin í fjölskyldunni það auðveldar líka börnum að tileinka sér íslensku sem annað tungumál  og góður grunnur í móðurmáli er talinn grundvallaratriði í máltöku annars máls. Fyrir tvítyngd og fjöltyngd börn skiptir miklu máli að búa við ríkt málumhverfi á mörgum tungumálunum og öðlast tækifæri til þess að þroska og þróa málvitund sína og færni í samskiptum jafnt og þétt. Því má segja að tvítyngi sé hið besta mál þegar málin styðja hvert annað.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta