Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. nóvember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Vaxtarsprotar í skólastarfi

Skólar eru margbrotnar stofnanir og í raun frekar samfélög en stofnanir. Engir tveir skólar eru eins. Hver skóli hefur sín sérkenni; sína sögu og menningu.

Eins og önnur samfélög breytast skólar, hvort sem við viljum eða ekki. Og breytingar eru ekki allar til góðs. Æskilegar breytingar köllum við þróun og við getum stuðlað að skólaþróun á meðvitaðan hátt. Í þróunarstarfi reynum við að stuðla að jákvæðum breytingum með markvissum hætti.

Þótt mikilvægt sé í þróunarstarfi að hafa skýra sýn um þær breytingar sem stefnt er að, er jafn mikilvægt að við séum meðvituð um þá góðu og mikilvægu þætti sem við þurfum að standa vörð um og halda við í skólastarfinu.

Tilgangur skólanna og hlutverk koma fram í lögum og námskrám. Þróunarstarf er skapandi verkefni kennara, stjórnenda og skólasamfélagsins alls í hverjum skóla. Það snýst um fjölþætt samspil skólamenningar og jákvæðra breytinga á henni. Skólaþróun er ekki breyting breytinganna vegna. Með þróunarstarfi ætlum við að gera skólana betri.

Ég sagði áðan að hver skóli hefur sín sérkenni; sögu og menningu. Það er gömul saga og ný að erfitt er og vandasamt að yfirfæra umbætur og skólaþróun úr einum skóla í aðra skóla. Breytingar sem ganga vel og hafa jákvæð áhrif í einum skóla virka sjaldan á nákvæmlega á sama hátt í öðrum skóla. Þetta er eitt af þeim atriðum sem gera þróunarstarf í skólum  vandasamt, ögrandi og um leið spennandi. Sagt er að engin raunveruleg þróun sé átakalaus, þannig að í skólaþróunarstarfi þarf fólk að stíga út fyrir þægindahringinn og fara í nokkurs konar óvissuferð.

Í lögum um framhaldsskóla, grunnskóla og leikskóla eru mikilvæg ákvæði um stuðning við þróun og nýjungar í skólastarfi. Sprotasjóði skóla er ætlað að veita skólum styrk til nýbreytni og þróunarstarfa  í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá hverju sinni. Til sjóðsins renna fjármunir sem veittir eru í fjárlögum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur umsjón með sjóðnum og setur reglugerð um styrkveitingar. 

Stjórn sjóðsins, var fyrst skipuð árið 2009. Þar sitja fulltrúar frá Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samstarfsnefnd háskólastigsins og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Haustið 2009, auglýsti Sprotasjóður í fyrsta sinn eftir umsóknum um styrki til þróunarverkefna og síðan hefur styrkjum verið úthlutað árlega. Hverju sinni hef ég í samráði við stjórn sjóðsins ákveðið tiltekin forgangssvið sem tengjast nýrri menntastefnu og áherslum í nýjum aðalnámskrám.

Á þessum 4 árum sem liðin eru frá því að Sprotasjóður var stofnaður hafa verið veittir styrkir til rúmlega 170 verkefna, sem flest tengjast innleiðingu nýrrar menntastefnu. Um 600 umsóknir hafa borist og bera vitni þeirri grósku sem er í skólakerfinu okkar og áhuga á skólaþróun. Hafa ber í huga að flestar umsóknirnar tengjast þróunarverkefnum sem þegar voru í farvatninu og að stór hluti þeirra eru samstarfsverkefni, sem nokkrir skólar standa saman að, oft þvert á skil skólastiga. Stjórn Sprotasjóðs hefur hvatt til slíks samstarfs.

Fjöldi umsókna sýnir að mikil þörf var fyrir þróunarsjóð eins og Sprotasjóð. En einnig að sú fjárhæð sem varið hefur verið árlega til þessarar starfsemi, tæplega 50 milljónir, nægir engan veginn til að mæta þeim áhuga og þeirri þörf sem er í skólakerfinu fyrir tilraunaverkefni og þróunarstörf.

Á þessu málþingi verða kynnt valin verkefni sem hlotið hafa styrk úr Sprotasjóði. Tilgangur þróunarstarfs er öðrum þræði að ryðja nýjum hugmyndum braut og styrkja breyttar áherslur í skólastarfi. Það á því vel við að miðla reynslu og lærdómi af þróunarstarfi á málþingi sem þessu og veita kennurum og stjórnendum skóla hugmyndir um leiðir sem feta má og innblástur til að bæta skólastarf. Við stefnum að því að auglýsa styrki úr Sprotasjóði í upphafi næsta árs fyrir skólaárið 2013-14.

Ég vil að lokum þakka Samtökum áhugafólks um skólaþróun fyrir samstarfið við undirbúning þess málþings. Þar fara grasrótarsamtök sem á undanförnum misserum hafa lyft grettistaki til að styðja við og efla þróunarstarf í íslenska skólakerfinu og stuðla að samræðuvettvangi um skólamál.

Ég vænti mikils af „vaxtarsprotum í skólastarfi“ og óska ykkur góðs gengis á málþinginu í dag og á morgun.

 

Yfirlit yfir styrkveitingar og áherslur Sprotasjóðs

Haustið 2009, auglýsti Sprotasjóður í fyrsta sinn eftir umsóknum um styrki til verkefna á tveimur forgangssviðum, sem voru:·

Sveigjanleiki og fjölbreytni í námi og kennsluháttum

Læsi og lestrarkennsla í víðum skilningi

143 umsóknir bárust um þróunarstyrki. Ákveðið var að úthluta tæplega 44. millj. kr. til 44 verkefna.

Vorið 2010 var auglýst eftir umsóknum til Sprotasjóðs um styrki til verkefna á þremur forgangssviðum:·

Tengsl skólastarfs og grenndarsamfélags út frá hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Nemendur á mörkum skólastiga: Nám og kennsla

Velferð í skólastarfi.

Samtals bárust 128 umsóknir til Sprotasjóðs þetta ár og heildarupphæðin sem sótt var um til sjóðsins var rúmlega 252 millj.kr. Veittir voru styrkir til 47 verkefna að upphæð tæplega 45 millj. kr.

Vorið 2011 voru áherslusvið sjóðsins:·

                                      Siðfræði og gagnrýnin hugsun

                                      Skapandi nám: Nýsköpun í námsumhverfinu

127 umsóknir bárust.  Ákveðið var að veita styrki til 34 verkefna að upphæð rúmlega 44. millj. kr.

Síðasta haust var enn auglýst eftir umsóknum í Sprotasjóð fyrir skólaárið 2012-2013.

Áherslusvið sjóðsins voru að þessu sinni:·

                         Þróun skólanámskrár með hliðsjón af nýrri menntastefnu

Virkt lýðræði, mannréttindi og samskipti í skólum.

190 umsóknir bárust að þessu sinni. Veittir voru styrkir til 46 verkefna að upphæð rúmlega 43 milljónir kr.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta