Mikilvægi rannsókna
Ágætu gestir
Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag og sjá með eigin augum þá miklu grósku í rannsóknum sem fer fram á Verkfræði og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands. Yfirskrift þingsins; „Skipta rannsóknir okkur máli?“ er auðvelt að svara: Já, þær skipta okkur máli.
Hér á sviðinu fara fram miklar og öflugar rannsóknir. Það hefur ekki farið fram hjá mér að vísindamenn hér innan sviðsins hafa skipað sér í fremstu röð á sínum rannsóknasviðum og hafa fengið afar stóra alþjóðlega rannsóknastyrki.
Ég þarf varla að minna á að með efnahagshruninu fyrir fjórum árum brustu allar forsendur fyrir opinberum útgjöldum, sem kallaði á umtalsverðan niðurskurð á öllum sviðum meðal annars til háskóla –og vísindamála. Þrátt fyrir það hafa háskólarnir tekið á sig aukna ábyrgð og nú stunda yfir tvö þúsund fleiri nemendur háskólanám en fyrir hrun. Það er hins vegar staðreynd að háskólakerfið á Íslandi er mjög undirfjármagnað. Það má reyndar ekki eingöngu kenna hruninu um það, því kerfið var reyndar einnig undirfjármagnað fyrir hrun. Sé litið til samanburðar við OECD ríki, þá eru framlög fyrir hvern háskólanema ríflega þriðjungi lægri en meðaltal OECD ríkja, og ná varla helming upp í meðaltal hinna Norðurlandanna. Það er mikilvægt að huga að því hvernig auka megi framlög til háskóla þegar svigrúm eykst á næstu árum. Fyrstu skrefin verði í þá átt að háskólunum verði tryggð framlög í samræmi við þá nemendafjölgun sem orðið hefur og síðan verði litið til framtíðar og hvernig hækka megi grunnframlög til háskóla í samræmi við þær þjóðir sem við berum okkur saman við.
Vísinda – og tækniráð hefur lengi haft það á stefnu sinni að hærra hlutfall opinberra framlaga til rannsókna sé úthlutað í gegnum samkeppnissjóði en nú er gert. Þó samkeppnissjóðirnir hafi ekki verið skornir niður eins mikið og aðrir þættir þá hafa þeir þó minnkað á síðustu árum, og náði til dæmis úthlutunarhlutfall í síðustu úthlutun úr Rannsóknasjóði varla 15 prósentum.
En í frumvarpi til fjárlaga 2013 er fylgt eftir þessari stefnu Vísinda – og tækniráðs um að efla rannsóknasjóðina og treysta á samkeppni til að styrkja þau rannsóknaverkefni sem bera af í gæðum. Ef fjárlagafrumvarpið nær fram að ganga munu framlög til helstu rannsóknasjóða ríkisins hækka verulega í samræmi við fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar. Miðað er við að hækkun nemi 1,3 milljörðum króna og skiptist þannig að 550 milljónir króna renni í Rannsóknasjóð, 550 milljónir króna í Tækniþróunarsjóð og 200 milljónir króna í Markáætlun á sviði vísinda og tækni. Sjóðirnir munu því stækka verulega, eða um 70 prósent á næsta ári. Auðvitað er varnagli, þar sem þessi hækkun verður fjármögnuð með sérstakri tekjuöflun af veiðigjaldi á auðlindaarð sjávarútvegsins. Þar sem tekjur af auðlindaarðinum eru háðar afkomu sjávarútvegsfyrirtækja er gert ráð fyrir að framlagið geti tekið breytingum auk þess sem ráðstöfun á tekjum kemur til endurskoðunar fyrir hver fjárlög.
Það er mín trú að með auknum framlögum í samkeppnissjóði rannsókna og nýsköpunar munu skapast aukin vaxtarskilyrði í vísindastarfi hér á landi. Þessi fjárfesting mun ekki aðeins skila sér í nýrri þekkingu í vísindum og verðmætasköpun í atvinnulífinu.
Nýtt Vísinda- og tækniráð var skipað í síðustu viku. Það mun taka við tillögum frá starfsnefndum fráfarandi ráðs sem lagðar voru fram í drögum í vor um breytingar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu. Þar eru tillögur um endurskoðun á fjármögnun kerfisins, og um einföldun stofnanir og háskóla. Dreifing rannsókna hefur óneitanlega í för með sér óskilvirkni, en það er mikilvægt að samhæfa og leggja áherslu á samstarf vísindamanna okkar, ekki bara innanlands heldur í alþjóðlegri samkeppni.
Ágætu gestir
Þessi dagur verður án efa skemmtilegur og áhugaverður í alla staði. Ég óska ykkur góðs gengis í dag sem og alla daga.