Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. nóvember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

3. fundur höfundarréttarráðs

Ágætu fulltrúar í höfundaréttarráði og aðrir gestir.

Höfundaréttarráði er samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 500/2008 ætlað að vera vettvangur fyrir kynningu og umræðu um höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á samfélagið.

Á fyrsta fundi höfundaréttarráðs, sem haldinn var í Þjóðminjasafninu 29. október 2009 kynnti ég áætlun um heildarendurskoðun höfundalaga. Þar var mælt fyrir um endurskoðun laganna í þremur áföngum og henni átti að vera lokið á árinu 2012. Fyrsti áfangi endurskoðunarinnar náði að verða að lögum á þinginu 2010 (lög nr. 93/2010). Þá voru tekin upp í höfundalög valin ákvæði úr tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda. Mælt var fyrir um rétt höfundaréttarsamtaka til málshöfðunar og lögbannsaðgerða í nafni rétthafa en skortur hefur verið á slíkri heimild og hafði torveldað málsvörn gegn höfundaréttarbrotum sem tengjast ólöglegri skráardreifingu á netinu. Innleidd var regla úr Evróputilskipun nr. 29/2001, um rétt rétthafa og samtaka þeirra til lögbanns gegn þjónustu milliliða sem eiga þátt í höfundaréttarbrotum á netinu. Þá er átt við að leggja megi lögbann á þjónustu fjarskiptafyrirtækis sem stuðlar að ólögmætri dreifingu höfundavarins efnis.

Endurskoðunin hefur hins vegar af ýmsum ástæðum tekið lengri tíma en ætlað var þannig að líklega mun henni ekki ljúka á árinu 2012 heldur nær árinu 2014 en að henni er unnið áfram á vegum ráðuneytisins. Hér á eftir mun Rán Tryggvadóttir formaður höfundaréttarnefndar svo gera grein fyrir efni þess frumvarps sem er afrakstur annars áfanga endurskoðunar höfundalaga.

Til upprifjunar þá kynnti ég við upphaf endurskoðunar höfundalaga svonefnd leiðarljós sem gæta ber að. Þar segir meðal annars að efla þurfi virðingu fyrir höfundarétti með tilliti til menningarlegrar og efnahagslegrar þýðingar hans fyrir samfélagið; að efla þurfi réttarúrræði fyrir rétthafa og þau þurfi að vera skilvirk og hafa forvarnargildi; að stuðla þurfi að því að notendur taki löglega kosti fram yfir ólöglega eintakagerð, það tel ég lykilatriði í þessum efnum; að höfundalög eigi að stuðla að jafnræði milli rétthafa og notenda og að leiðbeiningar og fræðslan um höfundaréttinn sé mikilvæg fyrir rétthafa sem notendur.

Auk þessarar vinnu höfum við haft frumkvæði að því að leiða viðræður milli fjarskiptafyrirtækja og rétthafaverndaðs efnis. Á árinu 2010 var að finnskri fyrirmynd efnt til tveggja fagfunda eins og þeir kallast, samtals innan geirans (s. branchsamtal), með þátttöku samtaka listamanna, höfundaréttarsamtaka, fjarskiptafyrirtækja og fleiri. Markmið fundanna var að leiða þessa aðila saman til opinna skoðanaskipta þeirra á milli og finna leið til að auka framboð af menningarefni á netinu sem notendur gætu nálgast með auðveldum og löglegum hætti. Í þessu sambandi er áhugavert að heilar stjórnmálahreyfingar í samtímanum hafa verið stofnaðar í kringum það að opna fyrir allan aðgang að þessu efni. Við getum velt fyrir okkur hugmyndafræðinni á bak við það, hún snýst kannski um það að öll þekking og öll menning eigi að vera aðgengileg öllum. Þetta hefur ýtt undir það, reynslan hefur sýnt það, að viðskiptaaðferðir til að nálgast efni á löglegan hátt reynast torveldari og vanþróaðri en þær aðferðir sem eru notaðar til að sækja ólöglega. Það virðist, í sumum tilfellum að minnsta kosti, vera auðveldara tæknilega að sækja sér efni ólöglega en löglega. Ég get ekki leynt því að það eru nokkur vonbrigði hve lítil þróun hefur orðið í framboði á löglegum kostum fyrir notendur þegar kemur að framboði á stafrænu menningarefni. Til að mynda skortir mikið á það hér á landi að almenningi standi til boða framboð af löglegu efni eins og notendum austan og vestan hafs. Stórar erlendar efnisveitur, eins og iTunes, Spotify og NetFlix, hafa ekki sýnt því áhuga að bjóða þjónustu til íslenskra notenda en þróun á sviði rafbóka virðist hins vegar ætla að ganga hraðar fyrir sig.

Á þessum fagfundum beindi ráðuneytið þeim tilmælum til Samtaka flytjenda og hljómplötuframleiðenda, til Stefs og til fjarskiptafyrirtækja að halda áfram viðræðum sínum sem þau og gerðu. Þær leiddu til sameiginlegrar bókunar þessara aðila, sem var gerð 30. maí 2011, þar sem er skorað á stjórnvöld að beita sér fyrir því að heimilt verði að loka fyrir aðgang að tilteknum vefsíðum sem teljast uppspretta ólöglegrar dreifingar höfundavarins efnis. Í öðru lagi er óskað eftir breytingu á höfundalögum um heimild til afritunar efnis til einkanota og í þriðja lagi hvatt til þess að virðisaukaskattur af sölu tónlistar á netinu verði lækkaður úr 25,5% í 7%. Það hefur þegar verið gert. Í bókuninni er hvatt til víðtækrar kynningaherferðar til að upplýsa almenning um kosti lögmætra nota tónlistar á netinu umfram ólögmæt not. Ég veit fyrir víst að slíkt kynningarátak er nú í undirbúningi hjá samtökum rétthafa og vonast ég til að ráðuneytið geti einnig lagt þar hönd á plóginn.

Hér á eftir munum við, auk kynningar á nýju frumvarpi til breytinga á höfundalögum fá umfjöllun um rafræna miðlun listasafna á myndlist og umfjöllun um mannréttindi og höfundarétt. Þar er mikilvægt mál á ferðinni þegar kemur að miðlun menningararfsins til almennings. Klárir hagsmunir safnanna að sinna þessari stafrænu miðlun og auk þess ríkir hagsmunir myndlistarmanna að verkum þeirra sé miðlað með hjálp þeirrar tækni sem fyrir hendi er. Einnig er ljóst að skólakerfi sem leggur áherslu á skapandi hugsun, fjölbreytt miðla- og menningarlæsi á þarna ríkra hagsmuna að gæta.  Ég vænti þess að umræða um þessi mál muni leiða til þess að álitaefni í þessu sambandi verði leidd til lykta.

Ég hvet ykkur fulltrúa í höfundaréttarráði til að taka þátt í umræðunni hér á eftir og lýsi hér með annan fund höfundaréttarráðs settan.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta