5. píanókeppni Íslandsdeildar EPTA
Ágæta samkoma,
Það er mér mikill heiður að vera verndari þessarar fimmtu píanókeppni Íslandsdeildar Evrópusambands píanókennara sem nú fer fram - og það er ánægjulegt að rifja upp að það var Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari sem vann fyrstu keppni Íslandsdeildar EPTA árið 2000 en hann var einmitt að leika Keisarakonsertinn eftir Beethoven með Sinfóníuhljómsveit Íslands nú fyrir helgina og fyllti Eldborgarsal Hörpu tvisvar sinnum.
Íslandsdeild EPTA hefur á þessum árum sannarlega hleypt nýju blóði í íslenskt tónlistarlíf og hafa píanókeppnirnar verið í alla staði vel heppnaðar og spennandi nýjung fyrir unnendur tónlistar. Það blómlega tónlistarlíf landsins sem við búum að þessi misserin og birtist okkur á svo fjölbreyttan hátt ber vitni um öflugt starf tónlistarskóla og góðrar tónlistarmenntunar en það er staðreynd að tónlistarkennsla á Íslandi er framúrskarandi.
Oft reynist það líka þroskandi og styrkjandi að taka áskorunum og keppa að settu marki. Það er ekki oft sem gefast tækifæri til að keppa í listum og reyndar er þessi píanókeppni ein af fáum slíkum á sviði hljóðfæraleiks hér á landi. Sú reynsla sem þið nemendur fáið í keppninni er ómetanleg og góður undirbúningur fyrir lífið. Þar stendur sá uppi sem sigurvegari sem gerir sitt besta en það gera vitanlega allir þegar í svona keppni er komið. Hver það verður sem skarar eilítið framúr að lokum veit enginn.
Keppni hvetur fólk til frekari afreka og þegar upp er staðið skiptir auðvitað miklu máli að kunna að sigra –og tapa. Oft hefur örlað á hræðslu við keppni af þessu tagi og einhverjir halda fram að erfitt sé að keppa á jafn huglægum sviðum og í listum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur þó ávallt stutt við píanókeppnina og talið hana mikilvægt framlag til tónlistarlífsins hér á landi og nauðsynlegan vettvang fyrir nemendur.
En kraftmikið tónlistarlíf fæðist ekki af sjálfu sér - til þess þarf að þjálfa bæði hug, hjarta og hönd. Leiðin að því að verða farsæll tónlistarmaður er löng. Hún krefst aga, ástundunar en þó fyrst og fremst ótakmarkaðrar ástríðu fyrir tónlistinni. Tónlistargyðjan getur á stundum verið harður húsbóndi og aðdáunarvert að sjá hvernig miklir listamenn umgangast þennan arf aldanna af virðingu og alúð.
Mikill metnaður tónlistarkennara ber m.a. ávöxt í íslenskum tónlistarmönnum sem vekja athygli á heimsvísu, en ekki skal heldur gleyma því hve tónlistin og tónlistarnám hefur þroskandi almenn áhrif á fjölda fólks hér á landi. Okkur hefur á undraskömmum tíma tekist að byggja upp tónlistarlíf sem vekur aðdáun meðal annarra þjóða og það ber fyrst og fremst að þakka öflugu og markvissu tónlistaruppeldi og því góða starfi sem unnið hefur verið í tónlistarskólum landsins.
Að lokum langar mig að óska Íslandsdeild EPTA til hamingju með vel heppnaða keppni og þakka þeim vandað og kraftmikið starf og síðast en ekki síst óska þessum fjölmenna og glæsilega hópi ungra píanóleikara til hamingju með frammistöðu þeirra.