Frágangur fornleifa á Stöng
Ágætu gestir
Það er vel við hæfi að afhenda verðlaun fyrir bestu hönnunartillögu að frágangi við fornminjar á Stöng í Þjórsárdal hér á Háskólatorgi þar sem allar vísindagreinar mætast í einum skurðpunkti. Fornleifarannsóknir eru nefnilega ekkert einkamál fornleifafræðinga heldur tengjast þeim fræðimenn úr mörgum greinum: jarðfræðingar greina jarðvegslög, handritafræðingar rýna í ritaðar heimildir, þjóðfræðingar safna munnlegum heimildum, tannlæknar og læknar greina sjúkdóma í beinagrindum svo eitthvað sé nefnt. Jafnvel má leiða að því líkum að guðfræðin hafi komið við sögu þegar Dr. Kristján Eldjárn ákvað árið 1939 að stinga upp könnunarholu einmitt á hryggnum sem leit út eins og hvert annað náttúruverk og kom þar niður á einhverjar merkustu víkingaminjar á Íslandi sem sögur fara af. Nú skipuleggja ferðamálafræðingar aðgengi ferðamanna að minjunum og nýjasta dæmið er aðkoma arkitekta að hönnun frágangs að svæðinu sem við verðlaunum hér í dag.
Bærinn á Stöng er meðal athyglisverðustu víkingaraldarbygginga, sem varðveist hafa á öllu menningarsvæði norrænna víkinga , þökk sé eldfjallinu Heklu sem breiddi þykkt ösku- og vikurlagi yfir Stöng og aðra bæi í Þjórsárdal árið 1104. Öskulagið hélt þó misvel. Kirkjugarðurinn á Skeljastöðum var til að mynda hálfur blásinn burt og eins var hóllinn á Stöng svo blásinn að báshellur fjóssins stóðu upp úr.
Þótt Stöng hafi verið hulin ösku í 800 ár varðveittist nafn bæjarins bæði í munnlegri geymd í danskvæði en einnig í Njálu. Það ber að þakka ábúandanum á Stöng, Gauki Trandilssyni, sem gerði sér dælt við Þuríði, húsfreyjuna á Steinastöðum. Fyrir það var hann drepinn af fóstbróður sínum og frænda húsfreyjunnar, Ásgrími Elliðagrímssyni eins og sagt er frá í Njálu. Um Gauk var samin vísa sem endaði í danskvæði og flutt var við leik og störf ekki bara hér á landi, heldur líka í Danmörku og kannski víðar. Nafn Gauks rataði meira að segja á rúnaristur í Orkneyjum. Síðustu áratugi hefur Gauks á Stöng einkum verið minnst sem öldurhúss í miðborg Reykjavíkur.
Þegar Stöng var grafin upp árið 1939 kom í ljós gott dæmi um hvernig venjulegir bóndabæir litu út á Íslandi á víkingaöld. Sést þar glöggt hvernig herbergjaskipan var háttað á víkingatímum. Langskáli þar sem heimilisfólkið vann og svaf og lokrekkja fyrir hjónin. Þar inn af var stofan þar sem borðað var og þegar við bætum við rituðum heimildum vitum við að þar var raðað til borðs eftir stétt og stöðu. Bóndi og húsfrú sátu öðru megin með fjölskyldu og vinum og vinnuhjúin hinu megin. Þar var líka vefstólinn og kvennapallurinn þar sem vefnaður heimilisins var geymdur. Þegar blásið var til fagnaðar voru borðin kannski bundin upp í sperrurnar til þess að hægt væri að dansa. Svona getum við haldið áfram að ímynda okkur lífið til forna er við göngum um bæinn á Stöng.
Svo einn góðan veðurdag dró fyrir sólu. Stórt öskuský og vikurregn kom yfir Þjórsárdalinn. Við urðum vitni að sortanum úr öskufalli Eyjafjallajökuls í hittiðfyrra og getum ímyndað okkur hvernig heimilisfólkið á Stöng tók í skyndi saman helstu nauðsynjar og flúði á hestum burt úr sveitinni.
En fleira eru fornminjar en víkingaminjar. Á Íslandi eru líklega um 130 þúsund fornleifastaðir og nýir staðir bætast við á hverju ári. Skepnuhús, stekkir og kvíar, garðlög, kolagrafir og mógrafir teljast líka til fornleifa. Mannvirki breytast í tímanna rás. Sel breyttist í heilsársbú þegar vel áraði og lagðist svo í eyði, var endurreist sem beitarhús og enda kannski sem smalakofi. Öskuhaugar gefa til kynna efni og aðstæður, kuml, bænahús og kirkjugarðar eru heimildir um trúarbrögð og beinagrindur vísbendingar um sjúkdóma. Langflestir minjastaðir tengjast ekki neinum sögum, heldur varpa ljósi á daglegt líf formæðra okkar og feðra.
En uppgreftrarsvæði eru viðkvæm og vel verður að huga að varðveislu þeirra þannig að fornminjum bíði hvorki skaði af veðri né vindum eða áhugasömum ferðamönnum. Vinningstillögurnar fyrir frágang á Stöng eru allar eftir unga arkitekta og er gaman að sjá hversu mikill metnaður hefur verið lagður í tillögurnar og vandað til verka.
Á sama hátt verðum við að gæta annarra fornminja landsins. Við getum ekki opnað fjölda fornleifastaða og grafið meira af kappi en forsjá. Við komum takmörkuðu í verk á stuttum sumrum og vindar og ágangur sjávar geta hrifsað óvarðar fornminjar í burtu. Þess vegna er oft betra að láta minjarnar hvíla óhreyfðar í jörðu, heldur en að eiga á hættu að glata þeim. Eitthvað verðum við líka að skilja eftir fyrir fornleifafræðinga framtíðarinnar.
Vissulega var öldin önnur þá er Gaukur bjó í Stöng. Nú eru menn að minnsta kosti ekki réttdræpir fyrir að fella hug til rangrar manneskju. Vonandi að umburðarlyndi og skilningur hafi aukist með tímanum og að við berum gæfu til að leysa misklíðar af yfirvegun og kærleika.
Megi Stöng verða okkur ævarandi minnisvarði um hversu háð við erum miskunnsemi náttúrunnar og að við getum ekki litið á búsetu okkar hér á landi sem sjálfsagðan hlut. Um leið er hún fagur vitnisburður um virðingu nútímans fyrir sögu landsins.
Til hamingju vinningshafar.