Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. nóvember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Vetrarbúningur og Rek í Listasafni Íslands

Haustið er tími breytinga. Náttúran hefur þegar látið til sín taka með afgerandi hætti við þessi árstíðaskipti, jafnt hér á landi sem annars staðar, - og alltaf virðist það koma okkur mannfólkinu jafn mikið á óvart. Mannlífið breytist líka með afgerandi hætti. Skólar taka til starfa og heimilislífið víða um land fer að snúast um nýjar stundarskár vinnu og tómstunda; fjölbreytt dagskrá leikhúsa, safna og tónleikahaldara af öllu tagi vekur í senn eftirvæntingu og kvíða hjá dyggum hópi listunnenda af öllu tagi, sem þurfa að velja og hafna.

Loks verður á hverju hausti sprenging í opnun listsýninga af ýmsum toga, og opnaðir tugir sýninga bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og út um allt land. Áhugafólk um myndlist hefur nú sem fyrr úr miklu að velja á hverju hausti, og þannig er haldið áfram að bjóða landsmönnum tækifæri til að auðga andann og njóta margs af því besta sem innlendir listamenn og fjölmargir erlendir gestir hafa fram að færa við að efla og styrkja menningarlífið hér á landi.

Við erum stödd hér í Listasafni Íslands í kvöld til að opna tvær sýningar, nýjasta framlag safnsins í sýningaflóru haustsins. Annars vegar er um að ræða samstarfsverkefni tveggja listakvenna sem hafa getið sér gott orð fyrir samvinnu sína að fjölbreyttum verkefnum til fjölmargra ára, og hins vegar úrval verka úr safneign Listasafnsins, þar sem haustið, skammdegið og veturinn ráða ríkjum.

Þær stöllur, Anna Hallin og Olga Bergmann, hafa unnið saman að ýmsum sýningarverkefnum í gegnum árin, sem oftar en ekki hafa snúist um athugun þeirra á umhverfi og kringumstæðum, raunverulegum eða tilbúnum, út frá nýstárlegum sjónarhornum. Síðast unnu þær saman að slíku verkefni í Safnasafninu á Svalbarðsströnd árið 2010, en sýningunni þar gáfu þær nafnið „Ummerki“ með vísan til þess sem þær töldu ummerki um áður óþekkta siðmenningu og einstakt vistkerfi á lóð safnsins. Að þessu sinni nefna þær sýningu sína „Rek“, og hugmyndin sem að baki liggur virðist að kanna með hvaða hætti landið okkar – léttvægt og viðkvæmt fyrir utanaðkomandi áreiti – gæti rekið fyrir tilstilli utanaðkomandi afla, jafnvel á fjörur annarra landa Evrópu. Þó kraftar náttúrunnar komi þarna við sögu af augljósum ástæðum –  í gegnum landrekskenningu Wegeners, áhrif vinda og strauma – er í verkinu einnig til staðar tilvísun í pólitískan veruleik samtímans, sem eflaust verður okkur öllum íhugunarefni.

Safneign Listasafns Íslands er fjársjóður sem seint verður þurrausinn, og lengi er hægt að kanna og með ýmsum hætti. Í þeirri sýningu sem nú verður opnuð er viðfangsefnið látið ráða; sýningin „Vetrarbúningur“ bregður upp dæmum um með hvaða hætti haustið, skammdegið og bæði drungi og fegurð vetrarins hafa orðið fjölbreyttum hóp íslenskra listamanna að yrkisefni í gegnum tíðina. Þó landsmenn séu vanari því að sjá sumarmyndir landsins í listaverkum, er ljóst að aðrar árstíðir koma einnig fram með ríkulegum hætti í íslenskri myndlist, og verður fróðlegt að sjá þau dæmi, sem hér hafa verið valin saman til sýningar.

Góðir gestir,


Ég lýsi sýningarnar „Rek“ og „Vetrarbúningur“ í Listasafn Íslands hér með opnar.


Takk fyrir. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta